Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2012

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Fyrir eitt hundrað árum, síðdegis á ellefta degi riḍván-hátíðarinnar stóð ‘Abdu’l-Bahá

frammi fyrir áhorfendaskara sem taldi nokkur hundruð manns. Hann hóf upp exi og hjó með

henni í grassvörðinn sem þakti musterislandið við Grosse Pointe, norður af Chicago. Þeir sem

boðið var að vera viðstaddir þennan vordag þegar ‘Abdu’l-Bahá tók þessa táknrænu

skóflustungu, voru af ýmsum bakgrunni — norskir, indverskir, franskir, japanskir, persneskir,

amerískir frumbyggjar, svo fáeinir séu nefndir. Það var því líkast að hið óbyggða musteri

væri að uppfylla óskir Meistarans fyrir allar slíkar byggingar í framtíðinni en kvöldið fyrir

athöfnina lét hann þær óskir í ljós „að mannkynið megi finna sér fundarstað“ og „að

yfirlýsing um einingu mannkyns megi berast frá opnum forgörðum heilagleika

[Musterisins].“

Þeir sem á hann hlustuðu við þetta tækifæri og allir sem á hann hlýddu á ferðum hans til

Egyptalands og Vesturlanda gátu ekki gert sér neina raunverulega grein fyrir þeim

yfirgripsmiklu vísbendingum sem orð hans fólu í sér fyrir samfélög þjóðanna, gildismat

þeirra og annir. Getur nokkur haldið því fram, jafnvel á þessari stundu, að hann hafi eitthvað

annað en fjarlæga og óljósa sýn á það heimssamfélag framtíðarinnar sem opinberun

Bahá’u’lláh er ætlað skapa? Enginn skyldi halda að siðmenningin sem hinar guðdómlegu

kenningar knýja mannkynið til að móta verði að veruleika með einni saman aðlögun að því

skipulagi sem nú er við lýði. Því fer fjarri. Í ávarpi sem ‘Abdu’l-Bahá hélt nokkrum dögum

eftir að hann lagði hornsteininn að móðurmusteri Vesturlanda sagði hann: „...meðal þess sem

opinberun andlegra afla mun leiða af sér er að heimur mannsins lagar sig að nýju skipulagi,“

og að „réttlæti Guðs mun opinberast í öllum mannlegum málefnum.“ Þessi og fjölmörg önnur

ummæli Meistarans sem bahá’í samfélagið beinir sjónum sínum aftur og aftur að á þessu

aldarafmæli auka vitund okkar um hversu langt heimurinn á í land, eins og honum er nú

háttað, til að sú feiknlega sýn sem faðir hans gaf honum verði að veruleika.

Því er verr, að þrátt fyrir lofsverða viðleitni velmeinandi einstaklinga í öllum löndum sem

vinna að þjóðfélagsumbótum, virðist mörgum sem hindranirnar á þeirri leið séu

óyfirstíganlegar. Vonir þeirra stranda á röngum ályktunum um mannlegt eðli – ályktunum

sem gegnsýra svo hefðir og lífshætti mikils hluta nútímasamfélags að á þær er litið sem góðar

og gildar staðreyndir. Þessar ályktanir taka ekki mið af því mikla forðabúri andlegra

möguleika sem er aðgengilegt sérhverri upplýstri sál sem vill nýta sér það; í staðinn er treyst

á réttlætingu mannlegra bresta og veikleika en dæmin um slíkt auka daglega almenna

örvæntingu. Lagskiptur hjúpur af fölskum forsendum hylur þannig þau grundvallarsannindi

að ástand heimsins endurspeglar skrumskælingu mannsandans, ekki innra eðli hans. Markmið

sérhvers opinberanda Guðs er að koma til leiðar umbreytingu á innri og ytri aðstæðum

mannkynsins. Og þessi umbreyting gerist með eðlilegum hætti þegar vaxandi hópur fólks,

sameinaður af guðlegum lífsreglum, reynir sameiginlega að þróa andlega hæfni sína til að

stuðla að samfélagslegum breytingum. Það var grýttur jarðvegur sem Meistarinn hjó öxinni í

fyrir einni öld og á sama hátt geta ríkjandi kenningar nútímans í fyrstu virst ómóttækilegar

fyrir breytingum, en þær munu án efa dofna og hverfa smám saman, og „blóm sanns

skilnings“ vökvuð „vorskúrum hylli Guðs“ spretta fersk úr þeim jarðvegi.

Við færum Guði þakkir fyrir að í krafti orða hans eruð þið — samfélag hins mesta nafns —

að rækta umhverfi þar sem sannur skilningur getur blómgast. Jafnvel þau sem þola fangelsun

fyrir trúna eru með ómældum fórnum sínum og staðfestu að gera „liljum þekkingar og visku“

kleift að vaxa og blómgast í samúðarfullum hjörtum. Um allan heim eru sálir fullar eldmóðs

uppteknar af starfi sínu við að byggja upp nýjan heim með því að beita fyrirmælum fimm ára

áætlunarinnar á kerfisbundinn hátt. Svo djúpur skilningur hefur fengist á sérhverjum þætti

hennar að við teljum enga þörf á því að gera þeim meiri skil hér. Við biðjum við fótskör

algjöfullar forsjónar fyrir því að herskararnir á hæðum aðstoði sérhvert ykkar í starfinu við

framþróun áætlunarinnar. Það er einlæg ósk okkar, sem verður enn innilegri eftir að hafa séð

vitnisburðinn um helgaða starfsemi ykkar á liðnu ári, að þið munið stöðugt eflast þegar þið

beitið af öryggi þeirri þekkingu sem reynslan færir ykkur. Nú er ekki tími til að staldra við; of

margir gera sér ekki grein fyrir að nýr dagur er runninn. Hver önnur en þið getið flutt hinn

guðlega boðskap? „Ég sver við Guð,“ segir Bahá’u’lláh með vísan til málstaðar síns, „þetta er

vettvangur innsæis og aðskilnaðar, sýnar og uppörvunar, þar sem engir geta hleypt fákum

sínum nema hugrakkir riddarar hins miskunnsama, sem hafa slitið af sér öll bönd við heim

verundar.“

Að sjá bahá’í heiminn að verki jafngildir í sannleika því að skyggnast yfir bjart sjónarsvið. Í

lífi hins einstaka átrúanda sem þráir framar öllu að bjóða öðrum til samneytis við skaparann

og veita mannkyni þjónustu má finna tákn andlegrar umbreytingar sem Drottinn allsherjar

ætlar sérhverri sál. Þann anda þjónustu við almannaheill sem einkennir starfsemi sérhvers

bahá’í samfélags sem helgar sig aukinni hæfni allra meðlima sinna, ungra og aldinna, auk

vina sinna og samstarfsmanna, má skoða sem vísbendingu um hvernig mannlegt samfélag

sem byggt er upp á grundvelli guðlegra kenninga getur þróast. Og í umdæmum sem lengra

eru komin þar sem starfsemin innan ramma áætlunarinnar er mikil og kröfurnar um að tryggja

samhengi milli hinna ýmsu sviða starfsins eru mest knýjandi, má sjá bjarma fyrir mynstri í

þróun stjórnarfars, hversu dauft sem það kann að virðast, sem sýnir hvernig stofnanir

trúarinnar munu stig af stigi takast á herðar þá ábyrgð sína að stuðla að mannlegri velferð og

framþróun. Það er því ljóst að þróun einstaklingsins, samfélagsins og stofnananna felur í sér

mikil og máttug fyrirheit. En auk þess fyllumst við sérstakri gleði þegar við sjáum hvernig

tengslin milli þessara þriggja aðila einkennast af blíðri ástúð og gagnkvæmum stuðningi.

Mótsögnina við þetta má sjá í sundrungunni sem einkennir tengslin milli samsvarandi

þriggja aðila í heiminum almennt — borgaranna, þjóðfélagsins og stofnana þess — og

endurspeglar ólguna á þessu breytingaskeiði mannkynsins. Mennirnir eru ófúsir til þess að

starfa saman sem ein lífræn heild og eru fastir í valdabaráttu sem að endingu reynist fánýt og

kemur engu til leiðar. Hversu frábrugðið þessu er ekki þjóðfélagið sem ‘Abdu’l-Bahá lýsir í

fjölmörgum töflum og ávörpum — þar sem dagleg samskipti einstaklinganna og tengslin

milli þjóðríkjanna mótast af vitundinni um einingu mannkyns. Tengsl sem mótast af þessari

vitund eru ræktuð af bahá’íum og vinum þeirra í byggðum og hverfum borga um allan heim;

frá þeim berst hreinn og ómengaður ilmur gagnkvæmni og samvinnu, samstillingar og ástar. Í

þessari látlausu umgjörð birtist nú sýnilegur valkostur við hin kunnuglegu deiluefni

þjóðfélagsins. Þannig verður það ljóst að einstaklingur sem vill tjá sig á ábyrgan hátt tekur

með íhygli og alvöru þátt í samráði sem er helgað almannaheill og stenst þá freistingu að

hamra á persónulegri skoðun sinni; bahá’í stofnun, sem metur að verðleikum þörfina fyrir

samræmdar aðgerðir sem beinast að árangursríkum markmiðum, hefur ekki þann tilgang að

stjórna heldur að næra og uppörva; samfélag sem á að stjórna sinni eigin þróun sér

ómetanlega kosti í einingu sem skapast með heilshugar þátttöku í áætlunum stofnananna.

Með áhrifum frá opinberun Bahá’u’lláh myndast ný hlýja og innileiki, nýtt líf, í samskiptum

þessara þriggja aðila; þeir eru sameiginlega sú deigla þar sem andleg heimssiðmenning, sem

ber merki guðlegs innblásturs, mótast smám saman.

Ljósi opinberunarinnar er fyrirhugað að lýsa upp öll verksvið; á þeim öllum verður að

endurmóta tengslin sem viðhalda mannlegu samfélagi; á þeim öllum leitar heimurinn að

dæmum um hvernig mennirnir eiga að haga sér hver gagnvart öðrum. Ykkur til umhugsunar

nefnum við efnahagslíf heimsins vegna þess hve augljósan þátt það á í illdeilunum sem svo

margir hafa flækst í að undanförnu, þar sem óréttlæti er látið viðgangast með tómlæti og

afskiptaleysi og litið er á rangláta skiptingu hagnaðar sem tákn um árangur. Svo rótgróin eru

þessi háskalegu viðhorf að erfitt er að ímynda sér hvernig einstaklingur gæti einn síns liðs

breytt ríkjandi viðhorfum sem móta samskiptin á þessu sviði. Engu að síður munu bahá’íar

forðast ákveðið framferði, eins og óheiðarleika í viðskiptum eða fjárhagslega misnotkun

annarra. Tryggð og fastheldni við guðlegar áminningar krefjast þess að engin mótsögn sé í

efnahagslegu framferði bahá’ía og trú þeirra. Með því að beita í lífi sínu þeim meginreglum

trúarinnar sem lúta að sanngirni og jöfnuði getur ein sál haldið á lofti mælikvarða sem er

langt ofar þeim lága þröskuldi sem heimurinn miðar við. Mannkynið mæðist vegna skorts á

lífsmynstri sem keppa skal að; við bindum vonir við að þið munið fóstra samfélög sem færi

veröldinni von með breytni sinni.

Í riḍván boðum okkar 2001 gáfum við til kynna að í löndum þar sem hópinngönguferlið er

nógu vel á veg komið og aðstæður þjóðarsamfélaganna hagstæðar, myndum við samþykkja

stofnun þjóðarmustera. Við sögðum jafnframt að tilkoma þeirra yrði þáttur í fimmta

tímaskeiði mótunaraldar trúarinnar. Það er okkur mikið gleðiefni að tilkynna að

þjóðarmusteri verða reist í tveimur löndum: Kongó lýðveldinu og Papúa Nýju Gíneu. Í

þessum löndum hafa þau skilyrði sem við settum verið sannanlega uppfyllt og viðbrögð

þessara þjóða við möguleikunum sem núverandi áætlanir hafa skapað eru verulega

eftirtektarverð. Bygging síðasta álfumusterisins í Santiago er vel á veg komin og bygging

þjóðarmustera eru enn eitt þakkarvert dæmi um hvernig trú Guðs hefur náð að festa rætur í

jarðvegi mannlegs samfélags.

Eitt skref til viðbótar er mögulegt. Musterið, Mashriqu’1-Adhkár, sem ‘Abdu’l-Bahá lýsir

sem „einni af mikilvægustu stofnunum heimsins“ tengir saman tvo nauðsynlega og

óaðskiljanlega þætti bahá’í lífs; tilbeiðslu og þjónustu. Sameining þeirra endurspeglast einnig

í samhenginu milli þeirra þátta áætlunarinnar sem miða að samfélagslegri uppbyggingu,

sérstaklega eflingu þess tilbeiðsluanda sem finnur sér farveg á bænafundum og í menntaferli

sem byggir upp hæfni til að þjóna mannkyni. Gagnkvæmt samband tilbeiðslu og þjónustu er

sérstaklega áberandi í umdæmum vítt um heiminn þar sem bahá’í samfélög hafa náð að vaxa

mjög og eflast og þar sem þátttaka í félagslegu starfi er augljós. Sum þessara umdæma hafa

verið útnefnd sem lærdómssetur til að rækta hæfni vinanna til að þróa unglingaverkefni á

tengdum svæðum. Eins og við höfum nýlega bent á styrkir hæfnin til að viðhalda þessum

verkefnum einnig þróun námshringja og barnakennslu. Auk þess að gegna meginhlutverki

sínu styrkir lærdómssetrið öll áform um útbreiðslu og treystingu. Það er í þessum umdæmum

sem hægt verður á komandi árum að huga að byggingu svæðismustera. Hjörtu okkar fyllast

þakklæti við hina öldnu fegurð þegar við með fögnuði tilkynnum ykkur að við höfum hafið

samráð við viðkomandi andleg þjóðarráð varðandi byggingu fyrstu svæðismusteranna í

eftirfarandi umdæmum: Battambang í Kambódíu; Bihar Sharif á Indlandi; Matunda Soy í

Kenya; Norte del Cauca í Kólumbíu og Tanna í Vanuatu.

Til að styrkja byggingu tveggja þjóða- og fimm svæðismustera höfum við ákveðið að setja

á fót musterasjóð við bahá’í heimsmiðstöðina til gagns fyrir öll slík verkefni. Vinunum

hvarvetna er boðið að gefa í þann sjóð í fórnaranda eins og aðstæður þeirra leyfa.

Elskuðu samstarfsmenn og konur: Sverðinum sem hendur ‘Abdu’l-Bahá sundraði fyrir

hundrað árum verður nú aftur sundrað í sjö löndum öðrum og það er aðeins undanfari þess

dags þegar í sérhverri borg og byggð verður reist bygging þar sem Guð er tilbeðinn í

samræmi við fyrirmæli Bahá’u’lláh. Frá þessum dögunarstöðum minningar um Guð munu

geislar frá ljósi hans berast og söngvar lofgjörðar hans hljóma.

 

Windows / Mac