Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2008

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Margar þúsundir karla og kvenna - öll hin fjölbreytta fjölskylda mannkynsins í hnotskurn - stunda skipulegt nám á hinu skapandi orði, í andrúmslofti sem er hvort tveggja í senn alvörugefið og upplyftandi. Er þau reyna að beita í verki, með íhugun og samráði, því innsæi og þeim skilningi sem námið veitir skynja þau hvernig hæfni þeirra til að þjóna málstaðnum rís til nýrra hæða. Þau ástunda sameiginlega tilbeiðslu í margskonar umhverfi og svara þannig innstu þrá hvers hjarta til að samneyta skapara sínum, sameinast öðrum í bæn, vekja andlega næmni og móta lífsmynstur sem einkennist af trúarhollustu. Þegar þau heimsækja hvert annað, fjölskyldur, vini og kunningja, ræða þau á markvissan hátt um andleg málefni, dýpka þekkingu sína á trúnni, deila boðskap Bahá’u’lláh með öðrum og bjóða sífellt fleirum að taka þátt í voldugum andlegum verkefnum. Þau eru sér meðvituð um vonir og væntingar barna um allan heim og þörf þeirra fyrir andlega uppfræðslu og færa út verksvið sitt með það fyrir augum að ná til sífellt stærri hópa þátttakenda í kennslu sem nýtur óskiptrar athygli unga fólksins og styrkir rætur trúarinnar í þjóðfélaginu. Þau styðja unga fólkið á mikilvægum tíma unglingsáranna og hvetja það til að beita kröftum sínum að framþróun siðmenningar. Og með þeim tækifærum sem fylgja vaxandi mannafla verða sífellt fleiri þeirra fær um að tjá trú sína með rísandi bylgju framtaks sem beinist að andlegum og veraldlegum þörfum mannkynsins. Þetta er sýnin sem við okkur blasir þegar við stöldrum við nú á ridván til að virða fyrir okkur framfarir bahá’í samfélagsins um allan heim.

Við höfum við ýmis tækifæri gefið til kynna að markmið hinna hnattvíðu áætlana, sem bahá’í heimurinn mun starfa að allt fram til hátíðarinnar sem haldin verður árið 2021 í tilefni þess að öld er liðin frá því mótunarskeið trúarinnar hófst, náist með greinanlegum framförum hvað varðar starfsemi og þroska einstakra átrúenda, stofnana og samfélagsins alls. Nú þegar helmingurinn er liðinn af aldarfjórðungi samfellds og einbeitts átaks má hvarvetna greina vitnisburði um aukna hæfni. Sérstaka þýðingu hafa aukin áhrif þess krafts sem flæðir frá gagnvirku starfi hinna þriggja þátttakenda áætlunarinnar. Stofnanir, bæði á landsvísu og svæðisbundnar, sjá æ skýrar hvernig skapa má aðstæður til þess að andleg orka sífellt stækkandi hóps átrúenda með sameiginleg markmið fái notið sín. Samfélagið þjónar í æ meiri mæli sem umhverfi þar sem einstaklingsviðleitni og sameiginlegar aðgerðir, með þjálfunarstofnunina sem millilið, uppfylla hver aðra í þágu framfara. Þrótturinn sem birtist í vaxandi samfélagi og hið sameiginlega áform að baki verkum þess laðar að sér fólk af öllum stéttum sem hefur ákafa löngun til að helga velferð mannkynsins tíma sinn og krafta. Ljóst er að dyr samfélagsins standa opnari sérhverri móttækilegri sál til að ganga inn og endurnærast af opinberun Bahá'u'lláh. Ekkert ber betur vitni þeim áhrifum sem samstarf hinna þriggja þátttakenda áætlunarinnar hefur haft en hinar miklu framfarir sem orðið hafa í kennsluhraðanum á liðnu ári. Framfarirnar í hópinngönguferlinu voru að sönnu þýðingarmiklar.

Frumkvæði einstaklingsins verður æ áhrifaríkara á sviði þessa bætta samstarfs. Í fyrri skilaboðum höfum við vísað til þess hvernig þjálfunarferlið ýtir undir frumkvæði hins einstaka átrúanda. Vinirnir í öllum heimsálfum stunda nám í ritningunum í þeim augljósa tilgangi að læra hvernig beita má kenningunum til að efla vöxt trúarinnar. Mikill fjöldi átrúenda axlar nú ábyrgð á andlegum lífsþrótti samfélaga sinna; þeir vinna þesskonar þjónustustörf sem stuðla að heilbrigðu vaxtarmynstri. Þeir hafa sýnt þrautseigju á vettvangi þjónustu við málstaðinn og tileinkað sér auðmjúkt lærdómshugarfar, og þannig hefur hugrekki þeirra og viska, brennandi áhugi og skarpskyggni, kappsemi og aðgætni, einbeitni og traust á Guði sameinast í gagnkvæmri styrkingu. Í framsetningu sinni á boðskap Bahá’u’lláh og útskýringum á sannindum hans hafa þeir lagt á minni orð Shoghi Effendi þess efnis að þeir megi hvorki „hika“ né „vera á báðum áttum“, hvorki „leggja of ríka áherslu á“ né „útvatna“ sannindin sem þeir halda á lofti. Þeir sýna hvorki „ofstæki“ né „öfgakennt frjálslyndi“. Með staðfestu sinni í kennslustarfinu hafa þeir aukið hæfni sína til að ákvarða hvort móttækileiki hlustandans krefjist þess að þeir sýni „aðgát“ eða „djörfung“, „bregðist skjótt við“ eða „bíði átekta“, noti hina „beinu“ eða „óbeinu“ aðferð í kennslunni.

Sá agi sem einkennir þetta einstaklingsframtak er okkur stöðug hvatning og uppörvun. Samfélög eru hvarvetna smám saman að tileinka sér þær lexíur sem felast í kerfisbundnu starfi og ramminn sem skilgreindur er af núverandi áætlunum ljær viðleitni vinanna samkvæmni og sveigjanleika. Ramminn virkar á engan hátt hamlandi heldur gerir þeim kleift að grípa tækifæri, byggja upp tengsl og gera sýnina á kerfisbundinn vöxt að veruleika. Í hnotskurn, þá mótar hann sameiginlega krafta þeirra.

Þegar við lítum yfir árangurinn á heimsvísu fyllast hjörtu okkar sérstakri aðdáun á átrúendunum í Íran sem þrátt fyrir erfiðustu aðstæður hafa risið djarflega upp til að þjóna landi sínu og beina kröftum sínum að endurlífgun þess þótt leiðirnar sem þeim standa opnar séu takmarkaðar. Vegna þeirra takmarkana sem settar hafa verið á stjórnskipulag trúarinnar hafa þeir farið sem einstaklingar til að kynna samborgurum sínum boðskap Bahá'u'lláh með beinum samræðum um endurleysandi boðskap hans. Þeir hafa ekki aðeins fengið fordæmislausan stuðning upplýstra sálna í þessu starfi heldur einnig mætt miklu meiri næmni og móttækileika en þeir höfðu getað ímyndað sér.

Allir fylgjendur Bahá'u'lláh sem eru meðvitaðir um þau öfl sameiningar og sundrungar sem eru að verki í þjóðfélaginu í dag, skilja sambandið milli aukins móttækileika gagnvart trúnni í öllum heimshlutum og ágallanna á kerfum heimsins. Enginn vafi leikur á því að þessi móttækileiki mun aukast þegar þjáningar heimsins dýpka. Við skulum gera okkur þetta ljóst: Sú uppbygging á hæfni sem farin er á stað til að svara auknum móttækileika er ennþá á frumstigi. Á komandi árum munu gríðarlegar kröfur og þarfir veraldar, sem þjökuð er af glundroða, reyna til hins ítrasta á þessa hæfni. Mannkynið er sárt leikið af kúgunaröflunum, hvort heldur þau koma úr djúpum trúarfordóma eða frá hátindum hömlulausrar efnishyggju. Bahá’íar geta greint ástæðurnar að baki þessum þjáningum. „Hvaða ‘kúgun’er þungbærari“, spyr Bahá’u’lláh, „en sú, að sál sem leitar sannleikans og óskar að öðlast þekkingu á Guði viti ekki hvert hún á að fara né hvar hún eigi að leita hennar?“ Við megum engan tíma missa. Áframhaldandi árangur verður að nást í starfi og þróun hinna þriggja þátttakenda áætlunarinnar.

‘Abdu’l-Bahá hefur borið lof á „tvennskonar kall“ til „árangurs og velmegunar“ sem hljómar frá „hæstu hæðum mannlegrar hamingju“. Annað er kall „siðmenningarinnar“ um „framþróun efnisheimsins“. Það felur í sér „lögmálin“, „reglurnar“, „listirnar og vísindin“ sem stuðla að þróun mannkynsins. Hitt er „sálarvekjandi kall Guðs“ sem eilíf hamingja mannkynsins byggist á. „Þetta seinna kall“, byggist, samkvæmt útskýringu meistarans, á leiðbeiningum og hvatningarorðum Drottins og þeim viðvörunum og mannúðlegu kenndum sem tilheyra ríki siðgæðis, sem eins og skínandi ljós bregða birtu og ljóma á veruleika mannkynsins. Gagntakandi máttur þess er orð Guðs.“ Þegar þið haldið áfram að starfa í umdæmum ykkar munu þið sogast lengra og lengra inn í líf hins ytra samfélags og þið þurfið að takast á við þá áskorun að útvíkka hið kerfisbundna námsferli sem þið eruð upptekin af og ganga inn á vaxandi svið mannlegrar viðleitni. Í þeirri nálgun sem þið beitið, aðferðunum sem þið takið upp og tækjunum sem þið notið verðið þið að ná sama stigi samhengis og það sem einkennir núverandi vaxtarmynstur.

Viðhald vaxtarins í hverju umdæminu á fætur öðru er háð þeim gæðum sem einkenna þjónustu ykkar við þjóðir heimsins. Hugsanir ykkar og verk verða að vera svo fullkomlega laus við hverskyns fordóma — á grundvelli kynþáttar, trúar, efnahags, þjóðernis, ættflokka, stéttar og menningar — að jafnvel hinn ókunnugi sjái í ykkur ástkæra vini. Svo hár verður gæðamælikvarði ykkar að vera, svo hreint og flekklaust líf ykkar, að siðferðileg áhrifin sem þið hafið nái að brjóta sé leið inn í vitund hins stærra samfélags. Aðeins með því að sýna þess konar ráðvendni sem ritningar trúarinnar ætla sérhverri sál getið þið barist gegn fjölmörgum birtingarmyndum spillingar, leyndum og augljósum, sem grafa undan innviðum þjóðfélagsins. Aðeins með því að skynja heiður og göfgi í sérhverjum manni – óháð ríkidæmi eða fátækt – getið þið barist fyrir málstað réttlætis. Og að því marki sem stjórnferli stofnana ykkar lýtur meginreglum bahá’í samráðs getur mannkynið leitað athvarfs í bahá’í samfélaginu. Verið þess fullviss að þegar þið gangið þessa braut fylkja herskararnir á hæðum liði og eru reiðubúnir að koma ykkur til hjálpar. Bænir okkur mun áfram umlykja ykkur á alla vegu.

 

Windows / Mac