Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2019

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Nú þegar nær dregur hinni mestu hátíð fyllumst við þakklæti og eftirvæntingu – þakklæti fyrir þau undraverðu verk sem Bahá’u’lláh hefur gert fylgjendum sínum kleift að inna af hendi og eftirvæntingu þess sem nánasta framtíð hefur að geyma.

Skriðþunginn sem hátíðahöldin vegna tvö hundruð ára fæðingarhátíðar Bahá’u’lláh sköpuðu um allan heim hefur einungis vaxið. Aukin þróun bahá’í samfélagsins, vaxandi geta þess og færni til að nýta orku fleiri meðlima sinna kemur skýrt í ljós í samantekt yfir nýlegan árangur á hnattræna vísu. Einkum hefur greinileg aukning orðið í starfi að samfélagsuppbyggingu. Núverandi fimm ára áætlun fylgir tuttugu ára átaki bahá’í heimsins til að bæta og stórefla þessa starfsemi á kerfisbundinn hátt – en það markverða gerðist að fjöldi grunnþáttaverkefna einn og sér óx um meira en helming á fyrstu tveimur og hálfu ári áætlunarinnar. Á heimsvísu hefur samfélagið sýnt getu sína til að fá yfir milljón manns til að taka þátt í slíkri starfsemi á hverjum tíma og til að hjálpa þeim að kanna og bregðast við andlegum veruleika. Á þessu sama stutta tímabili nær tvöfaldaðist fjöldi helgistunda. Mikil þörf er á slíkum viðbrögðum við vaxandi firringu mannkyns frá Uppsprettu vonar og örlætis. Þessi þróun gefur sérstök fyrirheit því helgistundir veita nýjum anda inn í líf samfélagsins. Samofnar menntaátaki fyrir alla aldurshópa styrkja þær háleitan tilgang þessarar viðleitni, að ala upp og efla samfélög sem sækja einkenni sín í tilbeiðslu á Guði og þjónustu við mannkynið. Hvergi er þetta augljósara en í þeim umdæmum þar sem þátttöku í miklum fjölda bahá’í verkefna hefur verið haldið við og vinirnir hafa náð þriðja áfanganum í samfélagsþróun sinni. Það er okkur fagnaðarefni að sjá að fjöldi umdæma þar sem vaxtarferlið hefur náð þetta langt hefur þegar meira en tvöfaldast síðan í byrjun áætlunarinnar og er fjöldi þeirra nú um fimm hundruð.

Þetta stutta yfirlit getur ekki gert umfangi umbreytinganna sem komnar eru af stað réttmæt skil. Horfurnar á þeim tveimur árum sem eftir eru af áætluninni eru bjartar. Margt hefur áunnist á liðnu ári með því að miðla víða þeim lærdómi sem orðið hefur til í hinum öflugri

vaxtaráætlunum í umdæmum sem hafa, eins og við vonuðumst til, orðið uppspretta þekkingar og mannauðs. Alþjóðlega kennslumiðstöðin, ráðgjafarnir og óþreytandi aðstoðarráðgjafar þeirra hafa ekki látið neitt stöðva sig þegar þeir vinna að því að tryggja að vinirnir hvar sem er í heiminum geti notið gagns af þessari hröðun lærdómsferlisins og beitt þeirri innsýn á eigin veruleika. Við gleðjumst yfir að sjá, að í vaxandi fjölda umdæma, og innan þeirra í byggðum og borgarhverfum, hefur komið fram kjarni vina sem með aðgerðum og íhugun eru að uppgötva hvers er þörf einmitt þar og þá til þess að vaxtarferlið taki framförum í umhverfi þeirra. Þeir nýta sér öflugt verkfæri þjálfunarstofnunarinnar og þannig eykst getan til að leggja af mörkum við andlega og efnislega velferð samfélagsins. Um leið og þeir aðhafast fjölgar þeim sem ganga til liðs við þá. Eðlilega er munur á aðstæðum frá einum stað til annars og hið sama gildir um einkenni vaxtarins.

En með kerfisbundinni viðleitni getur hver og einn lagt fram æ áhrifaríkari skerf til verksins sem fyrir liggur. Hvarvetna vekur það tæra gleði að fá aðrar sálir til að taka þátt í innihaldsríkum og upplyftandi samræðum sem verða til þess að snerta við andlegum tilfinningum, hvort sem það gerist snöggt eða smám saman. Því bjartari sem loginn er sem kveiktur er í hjarta átrúandans, þeim mun meira laðar hann að sér þá sem finna yl hans. Og hjarta sem er fullt af ást til

Baháʼuʼlláh getur ekki fundið sér betra verkefni en að leita uppi skyldar sálir og hvetja þær þegar þær leggja á braut þjónustu, fylgja þeim eftir þegar þær eflast að reynslu og ef til vill er það gleðin mesta, að sjá sálir verða staðfastar í trú sinni, rísa upp að eigin frumkvæði og aðstoða aðra á sömu braut. Það eru meðal dýrmætustu augnablika sem þetta hverfula líf gefur.

Horfurnar á því að efla þetta andlega framtak verða enn meira spennandi þegar nú nálgast tveggja alda fæðingarhátíð Bábsins. Líkt og tveggja alda hátíðin sem á undan fór er þetta minningarár ómetanlega dýrmætt. Það gefur öllum baháʼíum stórkostlega möguleika til að vekja þá sem þeir umgangast til vitundar um hinn mikla dag Guðs, um hina einstæðu úthellingu himneskrar náðar með birtingu tveggja opinberenda Guðs, sem hvor á fætur annarri lýstu upp sjónhring heimsins. Mælikvarðann á það sem mögulegt er í næstu tveimur vaxtarbylgjum þekkja allir af reynslunni sem fékkst á fæðingarhátíðinni fyrir tveim árum síðan. Allan lærdóm sem af henni var dreginn verður að nýta við skipulagningu tvenndarhátíðarinnar á þessu ári. Þegar tveggja alda fæðingarhátíðin færist nær munum við oft krjúpa í bæn fyrir ykkur í hinum helgu grafhýsum og biðja fyrir því að viðleitni ykkar til að heiðra Bábinn á verðugan hátt muni efla málstaðinn sem Hann sagði fyrir um.

Fyrstu öld mótunaraldarinnar lýkur eftir aðeins tvö og hálft ár. Það mun innsigla eitt hundrað ár helgaðrar viðleitni við styrkingu og útfærslu þess grunns sem lagður var af fórnfýsi á hetjuöld trúarinnar. Á sama tíma mun baháʼí samfélagið einnig minnast þess að hundrað ár eru liðin frá andláti ‘Abdu’l-Bahá, stundarinnar þegar Meistarinn ástkæri var leystur frá takmörkunum þessa heims og fór til endurfunda við Föður sinn í athvarfi himneskrar dýrðar. Útför hans sem fór fram daginn eftir var atburður „ólíkur öllum sem Palestína hafði áður séð“. Að henni lokinni voru jarðneskar leifar hans lagðar til hvílu í hvelfingu í grafhýsi Bábsins. Shoghi Effendi hafði þó séð fyrir sér að þetta væri tímabundið fyrirkomulag. Í fyllingu tímans yrði reist grafhýsi af þeirri gerð sem hæfði einstæðri stöðu ‘Abdu’l-Bahá. Sú stund er runnin upp. Baháʼí heimurinn er nú kallaður til að reisa þá mikilfenglegu byggingu sem mun um aldur og ævi varðveita þessar helgu jarðnesku leifar. Hana á að reisa í grennd við Riḍván garðinn, á landi sem fótspor Hinnar blessuðu fegurðar helgaði. Grafhýsi ‘Abdu’l-Bahá mun því rísa á boganum sem er á milli hinna helgu grafhýsa í ‘Akká og Haifa. Vinna með áætlanir arkitekta gengur vel og frekari upplýsingar verða látnar í té á næstu mánuðum.

Gleðin sem nú bylgjast innra með okkur er meiri en orð fá lýst þegar við leiðum hugann að árinu sem framundan er og öllu sem það ber í skauti sér. Við heitum á hvert og eitt ykkar sem eruð önnum kafin í þjónustu við Baháʼuʼlláh, að uppfylla háleita köllun ykkar.

 

Windows / Mac