Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2021

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Lokaorðin í afar eftirminnilegum kafla í sögu málstaðarins hafa verið skrifuð og nú opnast ný blaðsíða. Þessi Riḍvánhátíð markar lok óvenjulegs árs, endapunktinn á fimm ára áætluninni og röð þeirra áætlana sem hófst árið 1996. Ný röð áætlana blasir við með fyrirheitum um gríðarmikilvæga tólf mánuði sem verða undanfari níu ára átaks sem hefst á næstu Riḍvánhátíð. Við horfum á samfélag sem hefur vaxið hratt að styrk og er undir það búið að stíga stór skref fram á við. En enginn þarf að velkjast í vafa um hversu mikils var krafist til að þessi áfangi næðist og hvers konar átak liggur að baki innsýninni sem fékkst á þeirri vegferð. Sá lærdómur á eftir að móta framtíð samfélagsins og sagan af því hvernig hans var aflað varpar ljósi á það sem koma skal.

Áratugirnir fyrir 1996, sem skiluðu ríkulegum árangri og innsýn, tóku af allan vafa um að fjöldi fólks í mörgum samfélögum væri tilbúinn að fylkja sér undir merki trúarinnar. Jafn hvetjandi og dæmin um umfangsmiklar nýskráningar voru, jafngiltu þau ekki sjálfbæru vaxtarferli sem hægt væri að efla við fjölbreyttar aðstæður. Áleitnar spurningar blöstu við samfélaginu sem á þeim tíma hafði ekki næga reynslu til að bregðast við á fullnægjandi hátt. Hvernig gæti viðleitni sem miðaði að stækkun samfélagsins haldist í hendur við treystingarferlið og tekist á við stöðuga – og að því er virtist illviðráðanlega – áskorun um að viðhalda vextinum? Hvernig væri hægt að reisa upp einstaklinga, stofnanir og samfélög sem gætu sýnt kenningar Bahá’u’lláh í verki? Og hvernig gætu þeir sem hrifust af kenningunum orðið forvígismenn í hnattvíðu andlegu framtaki?

Síðan gerðist það fyrir aldarfjórðungi að bahá’í samfélag, sem enn átti þrjár hendur málstaðar Guðs í forystusveit sinni, hóf fjögurra ára áætlun, aðgreinda þeim sem á undan komu með áherslu á eitt markmið: umtalsverða framför í hópinngönguferlinu. Þetta markmið átti eftir að skilgreina röð áætlana sem komu í kjölfarið. Samfélagið var þegar farið að skilja að þetta ferli snerist ekki aðeins um inngöngu mikils fjölda í trúna, né myndi slíkt gerast sjálfkrafa. Það fól í sér markvissa, kerfisbundna og öra útbreiðslu og treystingu. Þessi vinna krafðist upplýstrar þátttöku fjölda sálna og árið 1996 var bahá’í heimurinn kvaddur til að takast á við þá yfirgripsmiklu menntunarlegu áskorun sem þetta hafði í för með sér. Honum var sett fyrir koma á fót kerfi þjálfunarstofnana sem einbeittu sér að því að skapa aukið flæði einstaklinga sem væru búnir nauðsynlegri hæfni til að viðhalda vaxtarferlinu.

Vinirnir gengu að þessu verki meðvitaðir um að þrátt fyrir fyrri sigra á kennslusviðinu hefðu þeir augljóslega margt að læra um hvers konar hæfni þeir ættu að þróa, og það sem var mikilvægast af öllu, hvernig þeir ættu að afla sér hennar. Að mörgu leyti lærði samfélagið með því að gera hlutina, og þegar sá lærdómur síaðist inn og festi rætur er honum var beitt

við fjölbreyttar aðstæður yfir nokkurn tíma, var hann loks felldur inn í námsefnið. Viðurkennt var að tilteknar aðgerðir væru eðlileg viðbrögð við andlegum þörfum íbúanna. Námshringir, barnakennsla, helgistundir og síðar unglingahópar gegndu miðlægu hlutverki í þessu sambandi og þegar allt þetta var samofið tengdum aðgerðum gat krafturinn sem myndaðist skapað öflugt mynstur í lífi samfélagsins. Þegar þátttakendum í þessum grunnþáttum fjölgaði bættist ný vídd við upphaflegan tilgang þeirra. Þeir byrjuðu að þjóna sem gáttir þar sem ungmenni, fullorðnir og heilar fjölskyldur úr hinu víðara samfélagi gátu komist í tengsl við opinberun Bahá’u’lláh. Einnig kom í ljós hve hagkvæmt það var að huga að áætlunum um samfélagsuppbyggingu innan „umdæmis“, þ.e. landsvæðis af viðráðanlegri stærð með sérstök félags- og efnahagsleg einkenni. Byrjað var að byggja upp hæfni til að undirbúa einfaldar áætlanir á umdæmisstigi og af slíkum áætlunum spruttu áætlanir um vöxt trúarinnar, skipulagðar sem þriggja mánaða vaxtarbylgjur. Skýr og mikilvægur þáttur kom snemma fram: hreyfing einstaklinga í gegnum röð námskeiða gefur drifkraft fyrir, og henni er jafnframt viðhaldið af, hreyfingu umdæma á þróunarbraut. Þessi gagnkvæma tenging hjálpaði vinunum alls staðar að meta virkni vaxtar í sínu eigin umhverfi og kortleggja leið í átt til aukins styrkleika. Þegar fram liðu stundir reyndist árangursríkt að skoða hvað var að gerast í umdæmi bæði frá sjónarhóli þriggja menntunarkrafna – þjónustu við börn, unglinga, og ungmenni og fullorðna – en einnig með hliðsjón af starfsbylgjunum sem eru nauðsynlegar fyrir taktinn í vextinum. Nokkru eftir upphaf þessa aldarfjórðungs starfs höfðu mörg þekktustu einkenni vaxtarferlisins sem við sjáum í dag fest sig í sessi.

Þegar viðleitni vinanna jókst fóru ýmsar meginreglur, hugtök og aðferðir sem hafa alhliða þýðingu fyrir vaxtarferlið að kristallast í aðgerðaramma sem gat þróast og rúmað nýja þætti. Þessi rammi hafði grundvallarþýðingu og leysti úr læðingi gríðarlega orku. Hann hjálpaði vinunum að beina kröftum sínum í þá átt sem reynslan sýndi að stuðlaði að vexti heilbrigðra samfélaga. En rammi er ekki formúla. Með því að hafa hliðsjón af ýmsum þáttum rammans við mat á veruleika í umdæmi, byggðarlagi eða einfaldlega hverfi, reyndist mögulegt að þróa starfsmynstur sem byggði á því sem aðrir í bahá’í heiminum voru að læra en fól um leið í sér viðbrögð við sérstökum þörfum byggðarinnar. Tvískipting, milli stífra krafna annars vegar og takmarkalausra persónulegra valkosta hins vegar, vék fyrir blæbrigðaríkari skilningi á fjölbreytni þeirra leiða sem einstaklingar gátu farið til að styðja ferli sem í sjálfu sér var heildstætt og var stöðugt fágað með aukinni reynslu. Enginn skyldi velkjast í vafa um framfarirnar sem urðu með tilkomu þessa ramma. Árangurinn af samræmingu og sameiningu starfseminnar í öllum bahá’í heiminum og áframhaldandi framsókn hans hafði verulega þýðingu.

Þegar ein áætlun tók við af annarri og þátttaka í starfi að uppbyggingu samfélagsins varð víðtækari, urðu framfarir á sviði menningar meira áberandi. Til dæmis hlaut þýðing þess að mennta yngri kynslóðirnar meiri og víðtækari undirtektir, og hið sama gilti um þá einstöku hæfni sem unglingarnir sýndu. Sálir sem veittu aðstoð og fylgdust að á sameiginlegri braut, og breikkuðu þannig stöðugt vettvang gagnkvæms stuðnings, urðu það mynstur sem öll viðleitni til aukinnar þjónustugetu beindist að. Jafnvel varð breyting á samskiptum vinanna sín á milli og við þá sem í kringum þá voru eftir því sem vitund jókst um þann kraft sem innihaldsríkar samræður hafa til að tendra og blása glæðum í andlega næmni. Og miklu skipti að bahá’í samfélögin beindu sjónum sínum í sífellt meira mæli út á við. Sérhver sál sem bregst við framtíðarsýn trúarinnar gat orðið virkur þátttakandi – jafnvel hvatamaður og leiðbeinandi – í menntastarfi, tilbeiðslusamkomum og öðrum þáttum í uppbyggingu samfélagsins. Úr hópi slíkra sálna voru einnig margir sem lýstu yfir trú sinni á Bahá’u’lláh. Þannig varð til skilningur á ferli hópinngöngu sem treysti minna á kenningar og fyrir fram gefnar forsendur en meira á raunverulega reynslu af því hvernig fjöldi fólks getur fundið trúna, kynnt sér hana, samsamað sig markmiðum hennar, tekið þátt í starfsemi hennar og umræðum og í mörgum tilvikum játast henni. Þegar þjálfunarferlið efldist á einu landsvæði á fætur öðru fjölgaði mjög ört einstaklingum sem tóku þátt í starfi áætlunarinnar og það átti jafnvel við um þá sem nýlega höfðu kynnst trúnni. En þetta tengdist ekki einskærum áhyggjum af tölum. Það sem vakti tilfinningu fyrir sameiginlegri viðleitni var sýn á samhliða umbreytingu einstaklingsins og heildarinnar sem byggir á rannsókn á orði Guðs og viðurkenningu á getu hvers og eins til að gerast aðalpersóna í miklu andlegu sviðsverki.

Eitt áhrifamesta einkenni þessa tuttugu og fimm ára tímabils hefur verið þjónustan sem bahá’í ungmenni inntu af hendi. Af trú og djörfung tóku þau sér sína verðskulduðu stöðu í fremstu röð í starfi samfélagsins. Sem kennarar málstaðarins og fræðarar unga fólksins, leiðbeinendur á ferð og flugi og innanlandsbrautryðjendur, sem umsjónarmenn í umdæmum og meðlimir bahá’í nefnda, starfshópa og stofnana, hafa ungmenni í fimm heimsálfum hafist handa um að þjóna samfélögum sínum af alúð og fórnfýsi. Þroskinn sem þau hafa sýnt í skyldustörfum sínum, sem hafa úrslitaáhrif á framgang Hinnar guðlegu áætlunar, tjáir andlegan lífskraft þeirra og skuldbindingu gagnvart framtíð mannkynsins og vernd þess. Sem viðurkenningu fyrir þennan þroska, sem verður sífellt augljósari, höfum við ákveðið að strax eftir þessa Riḍvánhátíð lækki kosningaaldur bahá’ía í átján ár en kjörgengi til andlegra ráða miðast áfram við tuttugu og eins árs aldur. Við erum ekki í nokkrum vafa um að bahá’í ungmenni á þessum aldri muni sanna réttmæti trausts okkar á getu þeirra til að uppfylla „samviskusamlega og af kostgæfni“ þá „heilögu skyldu“ sem allir bahá’í kjósendur eru hvattir til að sinna.

Við vitum auðvitað að veruleikinn sem samfélögin búa við er mjög mismunandi. Ýmis þjóðarsamfélög og ólík svæði innan þeirra hófu þessa röð áætlana á misjöfnu þróunarstigi en síðan þá hafa þau einnig þróast á mismunandi hraða og náð mismiklum framförum. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt. Það hefur alltaf verið þannig að aðstæður eru mismunandi á milli staða og sama gildir um móttækileikann. En við skynjum líka að ný bylgja er að rísa, og hæfni, sjálfstraust og uppsöfnuð reynsla flestra samfélaga fer vaxandi, örvuð af velgengni systursamfélaga sinna nær og fjær. Sem dæmi má nefna að sálir sem opnuðu ný svæði árið 1996 skorti ekki hugrekki, trú og hollustu en í dag sameina trúsystkini þeirra hvarvetna þá sömu eiginleika þekkingu, innsýn og færni sem er uppsöfnuð tuttugu og fimm ára reynsla alls bahá’í heimsins af því að kerfisbinda og bæta starf að útbreiðslu og treystingu.

Án tillits til á hvaða stað samfélag byrjar þokar það vaxtarferlinu áfram þegar það sameinar eiginleika trúar, þrautseigju og skuldbindingar gagnvart menntun. Hugnæm arfleifð þessarar raðar áætlana er reyndar sú víðtæka viðurkenning að öll framfaraviðleitni hefst með lærdómshugarfari. Einfaldleiki þessarar reglu er í engu samræmi við þýðinguna sem hún hefur. Við efumst ekki um að sérhvert umdæmi muni með tímanum ná samfellu í þróun. Þau samfélög sem hraðast hafa þróast, miðað við þau sem bjuggu við svipaðar aðstæður og möguleika, hafa sýnt hæfni til að styrkja einingu í hugsun og afla sér lærdóms um aðgerðir sem bera árangur. Og það gerðu þau án þess að hika.

Skuldbinding gagnvart lærdómi merkir líka að vera reiðubúinn að gera mistök – og stundum ollu mistökin auðvitað óþægindum. Það kemur ekki á óvart að í fyrstu var viðvaningsbragur á því hvernig staðið var að nýjum aðferðum vegna reynsluleysis. Stöku sinnum glataðist nýfengin geta þegar samfélagið varð upptekið af því að þróa aðra. Góður vilji er engin trygging gegn mistökum og að komast yfir mistökin útheimtir bæði auðmýkt og andlega lausn. Þegar samfélag hefur verið staðráðið í að sýna umburðarlyndi og læra af mistökum sem eðlilega eiga sér stað, hafa framfarir aldrei verið utan seilingar.

Í miðri röð áætlananna fór athygli samfélagsins að beinast meira að lífi hins víðara samfélags. Átrúendur voru hvattir til að hugleiða þetta út frá tveimur tengdum sviðum í starfi sínu – samfélagsaðgerðum og þátttöku í ríkjandi samfélagsumræðu. Þetta voru auðvitað ekki valkostir andspænis starfinu að stækkun og treystingu, og enn síður truflun á því starfi, heldur eðlislægur hluti þess. Því meiri mannauður sem samfélag gat kallað eftir, þeim mun meiri varð geta þess til að beita viskunni í opinberun Bahá’u’lláh sem lýtur að áskorunum dagsins: að gera kenningar Hans að veruleika. Og glundroði í málefnum mannkyns á þessum tíma virtist undirstrika hversu brýna þörf það hafði fyrir læknislyfið sem Græðarinn guðdómlegi mælti fyrir um. Í þessu öllu fólst hugmynd um trúarbrögð sem var mjög frábrugðin þeim sem voru við lýði í heiminum almennt: hugmynd sem viðurkenndi trúarbrögðin sem hinn öfluga aflvaka síframsækinnar siðmenningar. Menn skildu að slík siðmenning myndi ekki heldur koma af sjálfu sér – það væri verkefni fylgjenda Bahá’u’lláh að vinna að henni. Slíkt verkefni krafðist þess að beitt yrði sams konar ferli með kerfisbundnu námi í samfélagsaðgerðum og þátttöku í almennri umræðu.

Frá sjónarhorni síðustu tveggja og hálfs áratugar hefur geta til að ráðast í samfélagsaðgerðir aukist verulega og leitt til óvenju árangursríkra aðgerða. Árið 1996 var 250 samfélags- og hagþróunarverkefnum haldið úti frá ári til árs, en nú eru þau orðin 1500 og fjöldi samtaka sem sækja innblástur í bahá’í trúna hefur fjórfaldast. Þau eru nú rúmlega 160. Ráðist er í meira en 70.000 grasrótarverkefni samfélagslegra skammtímaaðgerða á hverju ári sem er fimmtíuföld aukning. Við hlökkum til áframhaldandi aukningar á öllu þessu starfi sem er afrakstur af dyggum stuðningi og örvun Alþjóðlegu bahá’í þróunarstofnunarinnar. Jafnframt hefur bahá’í þátttaka í ríkjandi samfélagsumræðu einnig vaxið til muna. Fyrir utan margs konar tækifæri þegar vinirnir finna að þeir geta sett fram bahá’í sjónarmið í samræðum sem eiga sér stað í starfi eða í persónulegu samhengi hefur formleg þátttaka í umræðum aukist verulega. Við höfum ekki aðeins í huga stóraukna viðleitni og sífellt flóknara framlag Alþjóðlega bahá’í samfélagsins – sem á þessum tíma bætti við skrifstofum í Afríku, Asíu og Evrópu – heldur einnig stóraukið starf og mjög öflugt kerfi þjóðarskrifstofa fyrir ytri málefni en Alþjóðlega bahá’í samfélagið leggur nú aðaláherslu á það starfssvið. Að auki má nefna skýr og athyglisverð framlög einstakra átrúenda á ákveðnum sviðum. Allt þetta skýrir að einhverju leyti þá virðingu, þakklæti og aðdáun sem leiðtogar hugsunar og aðrir framámenn á öllum sviðum þjóðfélagsins hafa aftur og aftur lýst á trúnni, fylgjendum hennar og starfsemi þeirra.

Þegar litið er yfir allt tuttugu og fimm ára tímabilið, fyllumst við lotningu yfir þeim fjölþætta árangri sem bahá’í heimurinn hefur náð í sameiningu. Árangur á sviði mannsandans má sjá á öllum þeim viðfangsefnum sem þegar hafa verið rædd en einnig á umfangi hágæða ritverka sem bahá’í höfundar hafa gefið út; að þróast hefur ýmiss konar vettvangur fyrir rannsóknir á ákveðnum fræðasviðum í ljósi kenninganna; og á áhrifum námskeiða fyrir háskólanema á grunn- og framhaldsstigi sem Rannsóknarstofnun um hagsæld mannkyns býður bahá’í ungmennum í vel yfir 100 löndum í samstarfi við stofnanir málstaðarins. Við blasir að aukinn hraði hefur færst í byggingu tilbeiðsluhúsa. Síðasta móðurmusterið var reist í

Santiago í Síle en hleypt hefur verið af stokkunum vinnu við að byggja tvö Mashriqu’l-

Adhkár sem þjóna munu á landsvísu og önnur fimm í heimabyggð. Tilbeiðsluhúsin í Battambang í Kambódíu og Norte del Cauca í Kólumbíu hafa þegar opnað dyr sínar. Bahá’í musteri, hvort sem þau eru nývígð eða hafa lengi verið til staðar gegna síauknu hlutverki í hjarta samfélagslífs. Efnislegur stuðningur almennra átrúenda við ótöluleg verkefni vina Guðs hefur verið rausnarlegur. Sem mælikvarði á sameiginlega andlega orku, segir það mikið hvernig örlæti og fórnfýsi á tímum verulegra sviptinga í efnahagslífinu hafa haldið áfram að þróast – nei, endurnærast. Á sviði bahá’í stjórnskipunar hefur geta andlegra þjóðarráða til að stjórna málefnum samfélaga sinna, sem sífellt verða margbrotnari, aukist verulega. Þau hafa einkum notið góðs af afburða góðu samstarfi við álfuráðgjafana, sem hafa átt stóran þátt í því að skipuleggja söfnun upplýsinga frá grasrótinni um allan heim og tryggja að þeim sé dreift víða. Þetta var líka sá tími þegar bahá’í landshlutaráðið kom fram sem fullgild stofnun málstaðarins og þar sem þau starfa nú á 230 stöðum hafa þau, og þær þjálfunarstofnanir sem þau hafa umsjón með, reynst ómissandi í eflingu vaxtarferlisins. Til að framlengja störf aðaltrúnaðarmanns Ḥuqúqu’lláh, handar málstaðar Guðs ‘Alí-Muḥammad Varqá, var Alþjóðlegt trúnaðarmannaráð Ḥuqúqu’lláh stofnað árið 2005. Í dag samhæfir það störf hvorki meira né minna en 33 trúnaðarmannaráða fyrir lönd og heimshluta sem nú ná um heim allan

og leiða að sínu leyti starf rúmlega 1000 fulltrúa. Þróunin sem varð við Bahá’í heimsmiðstöðina á þessum sama tíma er margþætt: við sjáum að verki við stallana við helgidóm Bábsins og tveggja bygginga á Boganum er lokið auk þess sem byrjað er að reisa helgidóm ‘Abdu’l‑Bahá, að ekki sé minnst á fjölda verkefna til að styrkja og varðveita dýrmæta helgistaði trúarinnar. Helgidómur Bahá’u’lláh og helgidómur Bábsins voru teknir á heimsminjaskrá, en þar eru staðir sem hafa ómetanlega þýðingu fyrir mannkynið. Almenningur streymdi að þessum helgu stöðum í hundrað þúsunda tali. Nálgaðist fjöldi þeirra eina og hálfa milljón sum árin og Heimsmiðstöðin tók reglulega á móti hundruðum pílagríma í senn, stundum fleiri en 5000 á ári, ásamt svipuðum fjölda bahá’í gesta. Þessi fjöldi gleður okkur jafnmikið og aukinn fjöldi þeirra ólíku þjóða og lýða sem njóta náðar pílagrímsferðar. Þýðing, birting og miðlun á hinum heilögu textum hafa einnig aukist mjög samhliða þróun bahá’í tilvísunarbókasafnsins, eins af eftirtektarverðum meðlimum vaxandi fjölskyldu vefsíðna sem tengjast bahai.org og er nú aðgengilegt á tíu tungumálum. Margvíslegar skrifstofur og undirstofnanir hafa verið settar á fót við Heimsmiðstöðina og víðar og hafa það hlutverk með höndum að styðja við lærdómsferlið sem þróast á mörgum starfssviðum um bahá’í heiminn. Allt þetta, systur okkar og bræður í trúnni, er aðeins brot af sögunni sem við gætum sagt um það sem hollusta ykkar við Hann sem var Hinn rangtleikni hefur komið til leiðar. Við getum ekki annað en endurómað hrífandi orð sem Meistarinn ástkæri hrópaði gagntekinn: „Ó Bahá’u’lláh! Hvað hefur Þú gert?“

Frá svo víðri sýn á þennan mikilvæga aldarfjórðung beinum við athygli okkar að síðastliðinni fimm ára áætlun – áætlun sem var næsta ólík þeim undangengnu á ýmsan hátt. Í þessari áætlun hvöttum við bahá’ía um heim allan til að byggja á öllu því sem þeir höfðu lært á síðustu tuttugu árum og virkja það til fulls. Það gleður okkur að vonir okkar í þeim efnum hafa meira en ræst, en þótt við búumst eðlilega við miklu frá fylgjendum Hinnar blessuðu fegurðar var hugarfarið að baki árangrinum sem náðist með kappsfullri viðleitni virkilega hrífandi. Það var smiðshöggið á afreksverk tuttugu og fimm ára þróunar.

Áætlunin var sérstaklega eftirminnileg vegna þess að henni var skipt í þrjá hluta með tveimur 200 ára afmælishátíðum sem hvor um sig stálsetti samfélög um allan heim. Samfélag hinna trúföstu sýndi tiltölulega auðveldlega og með áður óþekktum krafti hæfni til að fá fólk úr öllum þjóðfélagshópum til að heiðra líf opinberanda Guðs. Þetta var öflug vísbending um eitthvað víðtækara: hæfni til að beina í farveg gríðarlegri andlegri orku til framdráttar málstaðnum. Svo stórbrotin voru viðbrögðin að víða var hulunni svipt af trúnni á landsvísu. Í umhverfi þar sem engar væntingar voru gerðar, og þeirra ef til vill ekki leitað, kom fram greinilegur móttækileiki fyrir trúna. Þúsundir á þúsundir ofan hrifust eftir að hafa kynnst helgunarandanum sem er í dag einkennandi fyrir bahá’í samfélög hvarvetna. Sýnin á hvað mögulegt er að gera með bahá’í helgidagahaldi hefur víkkað ómælanlega.

Árangur áætlunarinnar, frá sjónarmiði einfaldrar tölfræði, skyggði fljótt á árangur allra undangenginna áætlana frá 1996. Í upphafi þessarar áætlunar var hægt að halda uppi rétt rúmlega 100.000 grunnþáttaverkefnum hverju sinni, en sú geta var ávöxtur tuttugu ára sameiginlegrar viðleitni. Nú er haldið uppi 300.000 grunnþáttaverkefnum í senn. Fjöldi þátttakenda í þessu starfi er kominn yfir tvær milljónir sem einnig nálgast þrefalda aukningu. Starfandi eru 329 þjálfunarstofnanir, ýmist fyrir lönd eða landshluta, og til marks um getu þeirra er sú staðreynd að um 750 þúsund manns hefur verið gert kleift að ljúka að minnsta kosti einni bók í röðinni. Þegar á heildina er litið nemur fjöldi námskeiða sem einstaklingar hafa lokið nú einnig tveimur milljónum – ríflega þriðjungs fjölgun á fimm árum.

Sá aukni kraftur sem lagður er í vaxtaráætlanir um allan heim segir sína merku sögu. Á þessu fimm ára tímabili höfðum við hvatt til þess að flýtt yrði fyrir vexti í öllum þeim 5000 umdæmum þar sem hann var hafinn. Þau fyrirmæli urðu hvati að einbeittri viðleitni um allan heim. Fyrir vikið rúmlega tvöfaldaðist fjöldi öflugra vaxtaráætlana og þær eru nú um það bil 4000. Erfiðleikar sem fylgja því að opna ný byggðarlög og hverfi fyrir trúnni í heimsfaraldri eða auka umsvif sem voru á frumstigi þegar faraldurinn hófst komu í veg fyrir að enn meiri fjölgun yrði á síðasta ári áætlunarinnar. Þó má raunar segja frá öðru og markverðara en þessu. Við upphaf áætlunarinnar höfðum við lýst von okkar um að fjöldi umdæma þar sem vinirnir hefðu náð þriðja áfanganum á vaxtarbrautinni, sem er afleiðing af því að læra að taka fjölda manns í faðm starfseminnar, myndi aukast um nokkur hundruð í viðbót. Þau umdæmi voru þá í kringum 200 og dreifðust á 40 lönd. Eftir fimm ár hefur þeim fjölgað ótrúlega – eru nú 1000 í næstum 100 löndum – sem er fjórðungur allra öflugra vaxtaráætlana í heiminum og árangur sem er langt umfram væntingar okkar. Og jafnvel þessar tölur leiða ekki í ljós þær himinhæðir sem samfélagið hefur náð. Til eru yfir 30 umdæmi þar sem fjöldi þeirra grunnþáttaverkefna sem haldið er uppi fer yfir 1000. Á sumum stöðum er talan nokkur þúsund og felur í sér þátttöku ríflega 20.000 manns í einu umdæmi. Vaxandi fjöldi andlegra svæðisráða hefur nú umsjón með framkvæmd menntaáætlana sem koma til móts við nánast öll börn og unglinga í viðkomandi byggð. Sami veruleiki er að koma í ljós innan nokkurra þéttbýlishverfa. Þátttaka í opinberun Bahá’u’lláh hefur í athyglisverðum tilfellum ekki takmarkast við einstaklinga, fjölskyldur og ættmenni – við verðum vitni að hreyfingu íbúa í átt að sameiginlegri miðju. Stundum er verið að segja skilið við gamalgróinn fjandskap andstæðra hópa og ákveðin formgerð og öfl samfélagsins umbreytast í ljósi guðlegra kenninga.

Við getum ekki annað en verið himinlifandi yfir svo stórkostlegum framförum. Máttur trúar Bahá’u’lláh til samfélagsuppbyggingar birtist með æ skýrari hætti og þetta er sá trausti grunnur sem komandi níu ára áætlun mun byggja á. Eins og vonast hafði verið til, hafa umdæmi sem búa yfir áberandi styrk reynst forðabúr þekkingar og mannauðs fyrir nágranna sína. Og landsvæði með fleiri en einu slíku umdæmi hafa átt auðveldara með að þróa leiðir til að flýta fyrir vexti í hverju umdæminu á fætur öðru. Okkur er mikið í mun að leggja áherslu á það aftur að framfarir hafa orðið nær alls staðar þótt stigsmunur sé á framvindunni frá einum stað til annars. Sameiginlegur skilningur samfélagsins á ferli hópinngöngu og traust þess á að geta örvað þetta ferli undir öllum kringumstæðum hefur aukist svo mjög að ekki var hægt að gera sér það í hugarlund á undanförnum áratugum. Bahá’í heimurinn hefur á sannfærandi hátt svarað áleitnum spurningum sem vofðu svo lengi yfir og voru í brennidepil árið 1996. Framfarir samfélagsins hafa sett mark sitt á allt líf heillar kynslóðar. En þótt aðeins sé litið til umfangs þess sem hefur átt sér stað í þessum fjölmörgu umdæmum þar sem framlína lærdóms er að víkka hefur það breytt framgangi í hópinngöngu á afdrifaríkan og sögulegan hátt.

Margir munu kannast við hvernig Verndarinn skipti öldum trúarinnar í samfelld tímaskeið. Fimmta tímaskeið mótunaraldarinnar hófst árið 2001. Minna þekkt er að Verndarinn vísaði einnig sérstaklega til tímaskeiða innan Hinnar guðlegu áætlunar og áfanga innan þeirra tímaskeiða. Hin guðlega áætlun sem ‘Abdu’l‑Bahá setti fram beið síns tíma í tvo áratugi meðan unnið var að uppbyggingu og styrkingu svæðis- og þjóðarstofnana stjórnskipunarinnar. Henni var hrundið af stað með viðhöfn árið 1937 með fyrsta áfanga fyrsta tímaskeiðsins – sjö ára áætluninni sem Verndarinn fól bahá’í samfélagi NorðurAmeríku. Þessu fyrsta tímaskeiði lauk eftir tíu ára herferðina 1963, sem hafði leitt til þess að fáni trúarinnar var hafinn á loft um allan heim. Upphafsáfangi annars tímaskeiðsins var fyrsta níu ára áætlunin og hvorki meira né minna en tíu áætlanir hafa komið í kjölfar hennar, allt frá tólf mánuðum til sjö ára. Í byrjun þessa annars tímaskeiðs varð bahá’í heimurinn þegar vitni að fyrsta upphafi þeirrar hópinngöngu í trúna sem höfundur Hinnar guðlegu áætlunar hafði séð fyrir. Áratugina sem fylgdu hafa kynslóðir dyggra átrúenda innan samfélags Hins mesta nafns unnið í víngarði Guðs við að rækta þær aðstæður sem þarf til viðvarandi og stórfellds vaxtar. Og hve ríkulegur er ekki ávöxturinn af þessu starfi á þessum dásamlega Riḍvántíma! Allur sá fjöldi sem stóreflir starfsemi samfélagsins, höndlar neista trúarinnar og hefst fljótt handa um að þjóna í framlínu áætlunarinnar, er ekki lengur forsögn sem byggist á trú heldur sífelldur veruleiki. Svo áberandi og raunverulegar framfarir verðskulda að vera skráðar á annála málstaðarins. Fagnandi í hjarta tilkynnum við að þriðja tímaskeið guðlegrar áætlunar Meistarans er hafið. Áfanga eftir áfanga, tímaskeið eftir tímaskeið, mun áætlun hans springa út uns ljós Guðsríkis lýsir upp sérhvert hjarta.

Kæru vinir, ekkert yfirlit um fimm ára framtakið sem markaði lok annars tímaskeiðs Hinnar guðlegu áætlunar væri fullkomið án þess að vísað væri sérstaklega til þeirra sviptinga sem urðu á liðnu ári og enn eru viðvarandi. Takmarkanir á persónulegum samskiptum sem jukust og dvínuðu í flestum löndum á þessu tímabili hefðu getað orðið til þess að greiða sameiginlegri viðleitni samfélagsins þungt högg og batinn gæti tekið mörg ár, en það eru tvær ástæður fyrir að það gerðist ekki. Önnur var útbreidd vitund um skyldu bahá’ía að þjóna mannkyninu, og aldrei fremur en á tímum háska og mótlætis. Hin var óvenjulega aukin geta í bahá’í heiminum til að tjá þá vitund í verki. Vinirnir, sem í mörg ár höfðu tamið sér að taka upp kerfisbundnar aðgerðir, beittu sköpunargáfu sinni og tilfinningu fyrir tilgangi á ófyrirséða kreppu um leið og þeir tryggðu að sú nýja nálgun sem þeir þróuðu samræmdist þeim ramma sem þeir höfðu unnið við að fullkomna í röð áætlana. Að þessu sögðu er ekki hægt að líta fram hjá þeim alvarlegu erfiðleikum sem bahá’íar eins og samlandar þeirra hvarvetna hafa þurft að þola. En í þessum miklu erfiðleikum hafa átrúendurnir sýnt einbeitni. Auðlindum hefur verið beint til samfélaga í neyð, kosningar fóru fram þar sem það var hægt og undir öllum kringumstæðum hafa stofnanir málstaðarins haldið áfram að sinna skyldum sínum. Það hafa jafnvel verið stigin djörf skref fram á við. Andlegt þjóðarráð São Tomé og Príncipe verður stofnað á ný nú á Riḍván og tvær nýjar stoðir Allsherjarhús réttvísinnar verða reistar: Andlegt þjóðarráð Króatíu með aðsetur í Zagreb og Andlegt þjóðarráð Tímor-Leste með aðsetur í Dili.

Og nú hefst eins árs áætlunin. Tilgangur hennar og kröfur hafa þegar verið settar fram í skilaboðum okkar sem send voru á degi sáttmálans. Þessi áætlun, þótt stutt sé, dugar til að búa bahá’í heiminn undir níu ára áætlunina sem kemur í kjölfarið. Tímabili sérstakrar hæfni, sem opnaðist hundrað árum eftir að Töflur Hinnar guðlegu áætlunar voru opinberaðar, lýkur brátt með ártíð ‘Abdu’l‑Bahá sem markar lok fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar og upphaf þess næsta. Samfélag hinna trúföstu gengur inn í þessa nýju áætlun á tíma þegar mannkynið, agað af afhjúpun á varnarleysi sínu, virðist gera sér betur grein fyrir þörfinni fyrir samstarf til að takast á við alþjóðlegar áskoranir. Engu að síður halda langvarandi samkeppnisvenjur, eiginhagsmunir, fordómar og lokaður hugur áfram að hindra hreyfingu í átt að einingu, þrátt fyrir vaxandi fjölda í samfélaginu sem sýnir í orði og verki hversu mjög hann þráir líka aukna viðurkenningu á eðlislægri einingu mannkyns. Við biðjum þess að fjölskyldu þjóðanna takist að leggja ágreining sinn til hliðar í þágu almannahagsmuna. Þrátt fyrir óvissuna sem sveipar mánuðina fram undan, biðjum við Bahá’u’lláh þess að þær staðfestingar sem hafa haldið fylgjendum Hans uppi svo lengi verði enn ríkulegri til þess að þið getið haldið áfram starfi ykkar, æðrulaus og ótrufluð af glundroða heimsins sem hefur sífellt brýnni þörf fyrir græðandi boðskap Hans.

Hin guðlega áætlun gengur móts við nýja tíma og nýjan áfanga. Ný blaðsíða opnast.

 

Windows / Mac