Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2023

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Það er okkur mikil og óblandin ánægja að ávarpa samfélag sem sýnir göfuglyndið og einarða viljastyrkinn sem sæma hárri köllun þess. Sú ást sem við berum til ykkar er heit og innileg og við verðum himinlifandi þegar við sjáum dygga og einlæga viðleitni ykkar til að lifa samkvæmt kenningum Bahá’u’lláh og færa sárþyrstum heimi lífgefandi vatn opinberunar Hans. Sterk tilfinning ykkar fyrir markinu sem stefnt er að er augljós. Útbreiðsla og treysting, samfélagsaðgerðir og þátttaka í þjóðfélagsumræðum, öllu þessu fleygir fram og eðlilegt samhengi þessara viðfangsefna á umdæmisstigi verður sífellt ljósara. Hvergi kemur þetta betur fram en á stöðum þar sem vaxandi fjöldi fólks er farinn að taka þátt í röð verkefna sem hvert um sig miðar að því að leysa úr læðingi þjóðfélagsuppbyggjandi kraft trúarinnar.

Það hefur glatt okkur á þeim tólf mánuðum sem liðnir eru frá upphafi níu ára áætlunarinnar að sjá hvernig þetta hnattræna og andlega framtak hefur veitt vinunum innblástur, stálsett þá og komið skriði á ákveðnar aðgerðalínur. Athyglin hefur strax beinst að því að hrinda í framkvæmd áætlunum sem tryggja að í hverju landi og á svæði hvers landshlutaráðs verði að minnsta kosti eitt umdæmi sem hefur náð þriðja áfanganum, þar sem mikill fjöldi fólks vinnur saman og leggur sitt af mörkum til lifandi og þróttmikils samfélags. Átrúendurnir vita að markmiðið á þessu tuttugu og fimm ára tímabili er að koma á fót öflugum vaxtaráætlunum í öllum umdæmum í heiminum og þeir hefjast því einnig handa um að opna ný umdæmi fyrir trúna jafnframt því að stórefla viðleitni sína á stöðum þar sem vaxtaráætlun er þegar í gangi. Aukin vitund er um tækifæri til brautruðnings í öllum heimshlutum - margar dyggar sálir eru að íhuga hvernig þær geti brugðist við þessu tækifæri, og margar aðrar hafa nú þegar brautrutt, einkanlega innan heimalanda sinna en einnig í auknum mæli á alþjóðavettvangi. Þetta er, eins og við vonuðumst til, ein þeirra leiða sem sýna anda gagnkvæms stuðnings meðal vinanna hvarvetna. Samfélög, þar sem styrkur hefur byggst upp, hafa skuldbundið sig til að styðja framfarir sem verða á öðru svæði – í öðru umdæmi, landshluta, landi eða jafnvel annarri heimsálfu - og skapandi leiðir hafa fundist til að hvetja og uppörva úr fjarlægð og gera það kleift að miðla reynslu með beinum hætti. Á sama tíma er sú grunnaðferð víða notuð að fanga það sem verið er að læra í umdæmi til þess að það geti komið að gagni í áætlunum einstakra svæða, sem og annarsstaðar. Það hefur glatt okkur að sjá að athygli beinist sérstaklega að því að læra hvernig auka megi gæði þeirrar menntareynslu sem þjálfunarstofnunin býður upp á. Áhrifin af því þegar þjálfunarferlið festir rætur í samfélagi eru stórbrotin. Sjáið til dæmis þær miðstöðvar öflugrar starfsemi þar sem íbúarnir eru farnir að líta á þjálfunarstofnunina sem öflugt tæki sem þeir eiga sjálfir, og taka höfuðábyrgð á heilbrigðri þróun hennar. Átrúendurnir vita mætavel að dyr trúarinnar standa alltaf opnar á gátt og þeir eru að læra hvernig megi hvetja þá sem eru tilbúnir að ganga inn um þær dyr. Það eru forréttindi og einstakt fagnaðarefni að eiga samfylgd með slíkum sálum og geta hjálpað þeim yfir þröskuldinn. Í öllu menningarlegu samhengi er margt sem þarf að læra um áhrifamátt þessa afgerandi andartaks, þess að viðurkenna og tilheyra. Og þó er ekki öll sagan sögð. Þótt starfið sem miðar að umbreytingu þjóðfélagsins sé á frumstigi í mörgum umdæmum leitast andlegu þjóðarráðin á virkan hátt, og með dyggum stuðningi ráðgjafanna, við að læra meira um hvernig þetta starf sprettur af ferli samfélagsuppbyggingar. Umræður um samfélagslega og efnislega velferð þjóðar eru að þroskast í fjölskylduhópum og samfélögum og samtímis leita vinirnir einnig leiða til að taka þátt í innihaldsríkum umræðum sem þróast í þeirra nánasta umhverfi.

Gerðir ungmenna skína skært í öllu sem við höfum verið að lýsa. Því fer fjarri að þau séu aðeins óvirk og áhrifagjörn – hvort sem áhrifin eru til góðs eða ekki – þau hafa reynst djarfar og glöggar höfuðpersónur áætlunarinnar. Þar sem samfélagið sér ungmennin í þessu ljósi og skapar skilyrði fyrir viðgangi þeirra sýna þau og sanna að þau eru fullkomlega verð traustsins sem þeim er sýnt. Þau kenna vinum sínum trúna og gera þjónustu að grundvelli vináttubanda sem hafa dýpri þýðingu. Slík þjónusta felst oft í menntun þeirra sem yngri eru – þau bjóða þeim ekki aðeins siðferðilega og andlega uppfræðslu heldur iðulega líka hjálp við skólanámið. Baháʼí ungmenni, sem er falin sú heilaga ábyrgð að styrkja þjálfunarferlið, uppfylla okkar bestu væntingar.

Allt þetta starf fer fram á tímum gríðarlegs þjóðfélagsumróts. Víðast hvar er viðurkennt að núverandi þjóðfélagsskipan sé illa í stakk búin til að mæta þörfum mannkyns í þeim þrengingum sem nú eiga sér stað. Margt sem almennt var talið standa á traustum og öruggum grunni er nú dregið í efa og ólgan sem af því stafar kveikir þrá eftir sýn sem sameinar. Allar raddirnar sem hljóma hvarvetna til stuðnings einingu, jafnrétti og réttlæti sýna hve margir binda slíkar vonir við samfélög sín. Að sjálfsögðu kemur það fylgjendum Hinnar blessuðu fegurðar ekki á óvart að hjörtu mannanna skuli þrá þær andlegu hugsjónir sem Hann setti fram. Engu að síður þykir okkur mjög eftirtektarvert, að á ári þegar horfur á sameiginlegum framförum mannkyns höfðu sjaldan virst dekkri, skein ljós trúarinnar með undraverðum ljóma á meira en tíu þúsund ráðstefnum, sem nær ein og hálf milljón manns sótti, og allar snerust um leiðir til að gera þessar sömu hugsjónir að veruleika. Sýn Baháʼuʼlláh og áeggjan Hans til mannkyns um að starfa í einingu að bættum heimi var sá miðpunktur sem margs konar þjóðfélagshópar söfnuðust um fullir ákafa – og það er engin furða enda útskýrir ‘Abdu’l-Bahá: „Í þessum guðdómlegu kenningum finnur sérhvert samfélag í heiminum sjálfan veruleikann í æðstu vonum sínum og væntingum.“ Sumir velunnarar mannkyns kunna að laðast fyrst að baháʼí samfélaginu í leit sinni að athvarfi, griðastað í heimi sem er klofinn og lamaður. En auk þessa athvarfs finna þeir skyldar sálir sem starfa saman að því að byggja upp heiminn að nýju.

Margt væri hægt að skrifa um landfræðilega útbreiðslu ráðstefnanna, þann ótrúlega drifkraft sem þær léðu nýju áætluninni og þá hjartans gleði og eldmóðinn sem þær vöktu hjá þátttakendum. En með þessum fáu orðum viljum við beina athyglinni að þýðingu þeirra fyrir framþróun málstaðarins. Þær voru spegilmynd af bahá’í samfélagi sem sér tengsl og skyldleika í stað þess sem aðskilur. Þessi viðhorf gerðu að verkum að eðlilegt varð að rýna í níu ára áætlunina á mannfundum þar sem allir voru boðnir velkomnir. Vinirnir veltu fyrir sér áhrifum áætlunarinnar á þjóðfélög sín, ekki aðeins í félagskap einstaklinga og fjölskyldna, heldur einnig svæðisleiðtoga og valdamanna. Þegar svo margir söfnuðust saman á einum stað sköpuðust forsendur fyrir umbreytandi umræðum um andlegar og þjóðfélagslegar framfarir sem eru að þróast um allan heim. Það sérstaka framlag sem slíkar samkomur – í senn opnar, upplífgandi og markvissar – geta lagt til vaxandi mynsturs samfélagsþróunar í umdæmi er dýrmæt lexía sem bahá’í stofnanir geta haft í huga til frambúðar.

Og nú heldur samfélag átrúendanna inn í annað ár áætlunarinnar með ný sjónarmið og djúpstæða innsýn í þýðingu þess sem þeir leitast við að koma í framkvæmd. Hversu mikill munur virðist ekki vera á aðgerðum þegar þær eru skoðaðar í ljósi þess þjóðfélagsupp-byggjandi krafts sem þær leysa úr læðingi! Þessi víðtæka yfirsýn gerir okkur kleift að líta á áframhaldandi og viðvarandi starfsemi sem miklu meira en einangrað þjónustuverkefni eða aðeins sem gagnapunkt. Á hverju svæðinu á fætur öðru sýna frumkvöðlaverkefnin sem eru í gangi að íbúarnir læra að fást við aukna ábyrgð á sinni eigin þróun og þroska. Sú andlega og samfélagslega umbreyting sem af þessu leiðir birtist á margskonar hátt í þjóðlífinu. Í fyrri röð áætlana kom þetta skýrast í ljós í eflingu andlegrar menntunar og sameiginlegrar tilbeiðslu. Í þessari nýju röð áætlana þarf að gefa meiri gaum öðrum ferlum sem miða að styrkingu samfélagslífsins með skilvirkari hætti – til dæmis bættri lýðheilsu, verndun umhverfis og að nýta kraftinn sem býr í listrænni tjáningu. Það sem þarf til að allir þessir gagnkvæmu þættir í velferð samfélagsins nái að styrkjast er auðvitað hæfni til að taka þátt í kerfisbundnu námi á öllum þessum sviðum – hæfni sem byggir á þeirri innsýn sem kenningarnar veita og á uppsöfnuðum þekkingarforða sem skapast með vísindalegum rannsóknum. Þegar þessi hæfni vex verða mikil afrek unnin á næstu áratugum.

Þessi aukna sýn á þjóðfélagsuppbyggingu hefur mjög víðtæk áhrif. Sérhvert samfélag er á sinni eigin leið til að gera hana að veruleika. En framfarir á einum stað eiga oft margt sameiginlegt með framförum á öðrum stað. Einn þáttur felst í því að þegar hæfni eykst og kraftar svæðis- eða þjóðarsamfélagsins margfaldast, verður þeim skilyrðum loks fullnægt sem eru sett fyrir byggingu tilbeiðsluhúsa í fyllingu tímans eins og kom fram í Riḍván boðum okkar árið 2012. Eins og við komum inn á í síðustu Riḍván boðum okkar, munum við öðru hvoru tilgreina þá staði þar sem reisa skal baháʼí musteri. Það gleður okkur mjög að kalla nú eftir stofnun svæðisbundinna tilbeiðsluhúsa í Kanchanpur í Nepal og Mwinilunga í Sambíu. Auk þess förum við fram á að þjóðartilbeiðsluhús verði reist í Kanada í nágrenni við gamalgróið Ḥasíratuʼl-Quds kanadíska samfélagsins í Toronto. Þessi verkefni og önnur sem hefjast í framtíðinni munu njóta góðs af þeim stuðningi sem vinirnir í öllum löndum veita musterissjóðnum.

Ríkulegar eru þær blessanir sem gæskuríkur Drottinn hefur kosið að veita ástvinum sínum. Köllunin er háleit, horfurnar stórkostlegar. Knýjandi eru þarfir þeirra tíma sem við öll höfum verið kölluð til að þjóna. Heitar og innilegar eru því bænirnar sem við biðjum fyrir ykkur og þrotlausu starfi ykkar við fótskör Bahá’u’lláh.

 

Windows / Mac