Return to BahaiPrayers.net
Facebook
Þessir eru þeir dagar, ó Guð minn, er Þú hefur boðið þjónum Þínum að halda föstuna. Með henni prýddir Þú inngang lagabókar Þinnar sem Þú opinberaðir skepnum Þínum og reiddir fram úr hirslum boða Þinna í augsýn allra á himni Þínum og jörðu. Þú hefur gætt hverja klukkustund þessara daga sérstakri dyggð, sem er órannsakanleg öllum nema sjálfum Þér. Þekking Þín umlykur allt sem er. Þú hefur einnig úthlutað sérhverri sál ákveðnum skerfi þessarar dyggðar í samræmi við töflu ákvörðunar Þinnar og ritningar Þíns óafturkallanlega dóms. Sérhverju blaði þessara bóka og ritninga hefur Þú einnig úthlutað sérhverri þjóð og kynkvísl jarðar.
Einlægum ástvinum Þínum hefur Þú samkvæmt ákvörðun Þinni áskilið í dögun hverri bikar minningar Þinnar, ó Þú sem ert leiðtogi leiðtoga! Þetta eru þeir sem eru svo ölvaðir af víni margfaldrar visku Þinnar að þeir yfirgefa beði sína í löngun til að færa Þér lof og vegsama dyggðir Þínar og flýja svefninn í innilegri þrá sinni að nálgast Þig og hljóta skerf af hylli Þinni. Augu þeirra hafa ætíð beinst að dagsbrún ástúðar Þinnar og andlit þeirra að brunni innblásturs Þíns. Lát þess vegna rigna yfir þá, og yfir okkur, úr skýjum náðar Þinnar því sem sæmir himni örlætis Þíns og náðar.
Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn! Þetta er stundin er Þú hefur lokið upp dyrum vildar Þinnar í ásýnd skepna Þinna og opnað á gátt hlið mildrar miskunnar Þinnar öllum sem dvelja á jörðu Þinni. Ég sárbið Þig við þá sem úthelltu blóði sínu á vegi Þínum, sem í þrá sinni eftir Þér sneru baki við öllum skepnum Þínum og voru svo hugfangnir af sætum ilmi innblásturs Þíns að sérhver limur líkama þeirra söng Þér lof og ómaði af minningu Þinni, að svipta okkur ekki því sem Þú hefur óafturkallanlega ákvarðað í þessari opinberun, sem er svo voldug að sérhvert tré hefur hrópað það sem brennandi þyrnirunninn kunngerði Móse fyrr á tímum, Honum sem ræddi við Þig, – opinberun sem gerir hverri steinvölu kleift að enduróma af lofi Þínu líkt og steinarnir vegsömuðu Þig á dögum Múhameðs, vinar Þíns.
Þetta eru þeir, ó Guð minn, sem Þú hefur náðarsamlega gert kleift að vera í félagsskap Þínum og samneyta Honum sem opinberar Þitt eigið sjálf. Vindar vilja Þíns hafa dreift þeim víða vegu uns Þú safnaðir þeim saman í skugga Þínum og lést þá ganga inn til sviða aðseturs Þíns. Nú þegar Þú hefur leyft þeim að dvelja í forsælunni af tjaldhimni náðar Þinnar, aðstoða þá við að öðlast það sem sæmir svo tiginni stöðu. Lát þá ekki, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem nutu samvista við Þig en var meinað að bera kennsl á ásýnd Þína og eru sviptir návist Þinni þótt þeir gangi á fund Þinn.
Þetta eru þjónar Þínir, ó Drottinn minn, sem hafa gengið með Þér inn í þessa mestu prísund og haldið föstuna innan veggja hennar í samræmi við það sem Þú fyrirskipaðir þeim í töflum ákvörðunar Þinnar og bókum fyrirmæla Þinna. Send því niður yfir þá það sem hreinsar þá algjörlega af öllu sem Þér er andstyggð svo þeir megi verða fullkomlega helgaðir Þér og skiljast til fulls frá öllu nema Þér.
Lát því rigna yfir okkur, ó Guð minn, sem sæmir náð Þinni og er verðugt hylli Þinnar. Ger okkur því kleift, ó Guð minn, að lifa í minningu um Þig og deyja í ást á Þér og veit okkur gjöf návistar Þinnar í þeim veröldum Þínum sem koma – veröldum sem eru órannsakanlegar öllum nema Þér. Þú ert Drottinn okkar og Drottinn allra veraldanna og Guð allra á himni og jörðu.
Þú sérð, ó Guð minn, hvað fallið hefur ástvinum Þínum í hlut á dögum Þínum. Dýrð Þín ber mér vitni! Kveinstafir Þinna útvöldu hafa hljómað um allt ríki Þitt. Sumir voru leiddir í gildru af trúvillingunum í landi Þínu og þeim meinað um náið samneyti við Þig og aðgang að forgarði dýrðar Þinnar. Aðrir gátu nálgast Þig en var varnað að líta ásýnd Þína. Enn öðrum var í löngun sinni að líta Þig veittur aðgangur að forgarði Þínum en þeir leyfðu blæjum ímyndana skepna Þinna og rangindunum sem kúgararnir meðal fólks Þíns beittu að koma á milli sín og Þín.
Þetta er stundin, ó Drottinn minn, sem Þú hefur gert ágætari öllum öðrum stundum og tengt hinum fremstu meðal skepna Þinna. Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við sjálf Þitt og við þá, að fyrirskipa það á þessu ári sem upphefur ástvini Þína. Ákvarða einnig á þessu ári það sem lætur sól valds Þíns skína glatt yfir sjónarhring dýrðar Þinnar og upplýsa allan heiminn með allsráðandi mætti Þínum.
Ger málstað Þinn sigursælan, ó Drottinn minn, og niðurlæg óvini Þína. Skrifa síðan niður fyrir okkur hið góða í þessu lífi og því sem kemur. Þú ert sannleikurinn sem þekkir hið leynda. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, sá sem allt gefur.
- Bahá'u'lláh