Return to BahaiPrayers.net   Facebook

Dýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Þetta eru þeir dagar er Þú hefur boðið öllum mönnum að halda föstuna svo þeir megi með henni hreinsa sálir sínar og leysast úr viðjum alls nema Þín og úr hjörtum þeirra megi það stíga upp sem er verðugt forgarði tignar Þinnar og sæmir aðsetri opin­berunar einleika Þíns. Gef, ó Drottinn minn, að þessi fasta megi verða elfur lífgefandi vatns og gefi af sér dyggðina sem Þú hefur gætt hana. Hreinsa Þú með fulltingi hennar hjörtu þjóna Þinna, sem mein­semdir þessa heims hafa ekki megnað að snúa frá aldýrlegu nafni Þínu og ekki hafa látið truflast af háreysti og uppnámi þeirra sem höfnuðu dýrlegustu táknum Þínum, er fylgdu komu opin­beranda Þíns, Honum sem Þú fékkst í hendur yfirráð Þín, vald, tign og dýrð. Þetta eru þeir þjónar sem flýttu sér í átt til náðar Þinnar jafnskjótt og kall Þitt barst þeim til eyrna og létu ekki hver fulleika heimsins né nokkrar mannlegar tak­mark­anir koma á milli sín og Þín.

Ég er sá, ó Guð minn, sem ber vitni einingu Þinni, viðurkenni einstakleika Þinn, beygi mig í auðmýkt frammi fyrir opinberun tignar Þinnar og viðurkenni niðurlútur ljómann af ljósi yfirskilvit­legrar dýrðar Þinnar. Ég hef trúað á Þig eftir að Þú gerðir mér kleift að þekkja Þitt eigið sjálf, sem Þú opinberaðir augum manna í krafti yfirráða Þinna og máttar. Til Hans hef ég leitað fullkomlega frá­hverfur öllu sem er og haldið fast í líftaug gjafa Þinna og hylli. Ég hef játast sannleika Hans og sannleika allra þeirra undursamlegu laga og fyrir­mæla sem send hafa verið niður til Hans. Ég hef fastað vegna ástar á Þér og í samræmi við boð Þín og hef rofið föstuna með lof Þitt á vörum mér og í samræmi við velþóknun Þína. Lát mig ekki, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem hafa fastað að degi til, varpað sér flötum frammi fyrir ásýnd Þinni að næturþeli og sem hafa hafnað sannleika Þínum, afneitað trú á tákn Þín, andmælt vitnisburði Þínum og afbakað orð Þín.

Opna Þú, ó Drottinn minn, augu mín og augu allra sem hafa leitað Þín, að við megum þekkja Þig með Þínum eigin augum. Þetta er boð Þitt sem okkur er gefið í bókinni sem Þú sendir niður til Hans sem Þú hefur útvalið samkvæmt skipun Þinni, sem Þú kaust að sýna hylli Þína einum allra skepna Þinna, sem Þér þóknaðist að fá í hendur yfirráð Þín, veita sérstaka hylli og treysta fyrir boðskap Þínum til þjóða Þinna. Lof sé Þér því, ó Guð minn, að Þú hefur náðarsamlega gert okkur kleift að þekkja Hann og viðurkenna allt sem Honum hefur verið sent og veitt okkur þann heiður að komast í návist Hans sem Þú gafst fyrirheit um í bók Þinni og töflum.

Þú sérð mig því, ó Guð minn, beina augliti mínu til Þín, taka í líftaug náðarsamlegrar forsjónar Þinnar og örlætis og halda fast í klæðisfald mildrar miskunnar Þinnar og örlátrar hylli. Ég bið Þig að bregðast ekki vonum mínum um að eignast það sem Þú ákvarðaðir þjónum Þínum sem sneru sér til forgarðs návistar Þinnar og héldu föstuna vegna ástar á Þér. Ég játa, ó Guð minn, að allt sem kemur frá mér er fullkomlega óverðugt yfirráðum Þínum og hæfir ekki tign Þinni. Og samt bið ég Þig við þetta nafn sem hefur látið Þitt eigið sjálf opinberast í dýrð ágætustu titla Þinna öllum sköpuðum verum í þessari opinberun þar sem Þú birtir fegurð Þína í dýrlegasta nafni Þínu, að gefa mér að drekka af víni náðar Þinnar og hreinum miði hylli Þinnar sem hefur streymt frá hægri hönd vilja Þíns, svo að ég megi festa sjónir á Þér og verða svo fráhverfur öllu nema Þér að veröldin og allt sem í henni var skapað verði fyrir mér sem svipull dagur sem Þér hefur ekki þótt við hæfi að skapa.

Auk þess sárbið ég Þig, ó Guð minn, að láta því rigna frá himni vilja Þíns og úr skýjum miskunnar Þinnar sem hreinsar okkur af viðurstyggð misgerða okkar, ó Þú sem hefur kallað sjálfan Þig Guð mis­kunnsemi! Þú ert vissulega hinn voldugasti og aldýrlegi, hinn gæskuríki.

Varpa ekki frá Þér, ó Drottinn minn, þeim sem hefur leitað til Þín og lát ekki þann sem hefur nálgast Þig vera fjarri forgarði Þínum. Bregst ekki vonum biðjandans sem réttir út löngunarfullar hendur sínar og leitar náðar Þinnar og hylli og svipt ekki einlæga þjóna Þína undrum mildrar miskunnar Þinnar og ástúðar. Þú ert fyrirgefandinn, hinn örlátasti, ó Drottinn minn! Þú hefur vald til að gera það sem Þér þóknast. Allt annað en Þú er máttvana andspænis opinberunum máttar Þíns, týnt og glatað andspænis vitnisburðum auðæfa Þinna, alls ekkert í samanburði við birtingar yfir­skilvitlegra yfirráða Þinna og magn­þrota andspænis táknum og ummerkjum valds Þíns. Hvaða athvarf er að finna annað en Þig, ó Drottinn minn, sem ég gæti leitað og hvar er það skjól sem ég gæti flúið til? Nei, vald máttar Þíns ber mér vitni! Engan verndara er að finna annan en Þig, hvergi er hægt að flýja nema til Þín, einskis athvarfs að leita nema hjá Þér. Lát mig því smakka ó Drottinn minn, himneskan sætleika minningar Þinnar og lofs. Ég sver við mátt Þinn! Hver sem smakkar sætleika hennar mun snúa baki við heiminum og öllu sem í honum er og beina sjónum að Þér, hreinsaður af minningu um nokkurn nema Þig.

Innblás því sál mína, ó Guð minn, með undur­samlegri minningu Þinni svo ég megi gera nafn Þitt dýrlegt. Tel mig ekki með þeim sem lesa orð Þín án þess að finna hulda gjöf Þína sem fólgin er í þeim samkvæmt ákvörðun Þinni og sem fjörgar sálir skepna Þinna og hjörtu þjóna Þinna. Lát mig, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem hafa hrifist svo mjög af þeim ljúfa ilmi sem borist hefur á dögum Þínum, að þeir hafa fórnað lífi sínu fyrir Þig og flýtt sér á vettvang dauða síns í löngun sinni að líta fegurð Þína og þrá sinni að komast í návist Þína. Og ef einhver segði við þá á vegferð þeirra: „Hvert er förinni heitið?“ myndu þeir svara: „Til Guðs, eig­anda alls sem er, þess sem hjálpar í nauðum, hins sjálfumnóga!“

Misgerðir þeirra sem hafa snúið frá Þér og borið sig drambsamlega gagnvart Þér hafa ekki aftrað þeim frá að elska Þig og beina sjónum að Þér og snúa sér til náðar Þinnar. Þetta eru þeir sem njóta blessunar herskaranna á hæðum, hljóta vegsömun íbúanna í eilífum borgum Þínum, auk þeirra sem bera á enni sér áletrun hins upphafnasta penna: „Þessir! Fylgjendur Bahá! Fyrir þá hefur ljósi leiðsagnar verið úthellt.“ Þannig hefur það verið ákveðið að Þínu boði og með vilja Þínum í töflum óafturkallanlegrar ákvörðunar Þinnar. Kunnger því, ó Guð minn, mikilleika þeirra sem í lífi sínu eða eftir dauða sinn hafa hringsólað um þá. Veit þeim það sem Þú hefur ákvarðað hinum réttlátu meðal skepna Þinna. Þú hefur vald til að gera það sem Þér líst. Enginn er Guð nema Þú, hinn alvoldugi, hjálpin í nauðum, hinn almáttugi og veglyndasti.

Bind ekki endi á föstur okkar með þessari föstu, ó Drottinn minn, né á sáttmálana sem Þú hefur gert með þessum sáttmála. Veit viðtöku öllu sem við höfum gert vegna ástar á Þér og sakir vel­þóknunar Þinnar og öllu sem við höfum látið ógert sakir undirgefni okkar við illar og spilltar ástríður. Ger okkur því megnugt að halda fast við ást Þína og velþóknun og gæt okkar gegn illvild þeirra sem hafa afneitað Þér og hafnað dýrlegustu táknum Þínum. Þú ert í sannleika Drottinn þessa heims og hins næsta. Enginn er Guð nema Þú, hinn upphafni og hæsti.

Mikla Þú, ó Drottinn Guð minn, þann sem er Frumpunkturinn, hinn himneski leyndardómur, óséði kjarni, dagsbrún guðdómsins og opin­berun herra­dóms Þíns. Fyrir tilstuðlan Hans var öll þekking for­tíðar og framtíðar gerð augljós, perlur hulinnar visku Þinnar, afhjúpaðar ásamt leynd­ardómum Þíns dýr­mæta nafns. Þú útnefndir Hann kallara þess opin­beranda, sem tengdi saman bókstafina V, E og R með nafni sínu. Sakir Hans voru tign Þín, yfirráð og máttur kunngerður, orð Þín send niður, skýr lög Þín sett, tákn Þín birt og orð Þitt grundvallað. Sakir Hans var hulunni svipt af hjörtum Þinna útvöldu og öllum á himni og jörðu safnað saman. Hann er sá sem Þú hefur nefnt Alí Múhameð í ríki nafna Þinna og anda andanna í töflum óafturkallanlegrar ákvörð­unar Þinnar og Honum hefur Þú gefið Þinn eigin titil. Til nafns Hans hafa öll önnur nöfn að boði Þínu og með valdi máttar Þíns verið látin snúa og í Honum hefur Þú látið allar eigindir Þínar og titla ná endanlegri fyllingu sinni. Honum tilheyra einnig þau nöfn sem voru falin innan flekklausra tjald­búða Þinna í ósýnilegri veröld Þinni og helguðum borgum.

Mikla Þú einnig þá sem hafa trúað á Hann og tákn Hans og leitað til Hans, þá sem hafa viður­kennt einingu Þína í seinni opinberun Hans – opin­berun sem Hann tilgreindi í töflum sínum, bók­um og ritningum og öllum þeim undursamlegu versum og djásnumlíku orðum sem stigið hafa niður til Hans. Þú bauðst Honum að stofna sátt­mála þessarar sömu opinberunar áður en Hann stofnaði sinn eigin sáttmála. Það er Hann sem er vegsamaður í Bayáninum. Þar er lof borið á ágæti Hans og sannleikur Hans grundvallaður, yfirráð Hans kunngerð og málstaður Hans fullkomnaður. Sæll er sá sem hefur leitað til Hans og uppfyllt það sem Hann hefur fyrirskipað, ó Þú sem ert Drottinn veraldanna og þrá allra sem hafa þekkt Þig!

Lofaður sért Þú, ó Guð minn, því að Þú hefur hjálpað okkur til að þekkja Hann og elska. Því bið ég við Hann og við þá sem eru dagsbrúnir guð­dóms Þíns og birtingar herradóms Þíns, fjárhirslur opinberunar Þinnar og forðabúr innblásturs Þíns, að Þú gerir okkur kleift að þjóna Honum og hlýða, styrkir okkur til að hjálpa málstað Hans og dreifa andstæðingum Hans. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og aldýrlegi, sá sem allir leita ásjár hjá!

 


English  
ភាសាខ្មែរ  
አማርኛ.  
Afrikaans  
Alaska Native  
American Indian  
Azərbaycan  
Bahasa Indonesia  
Bahasa Malaysia  
Bidayuh  
Bosanski  
Canadian Indigenous  
Català  
Cebuano  
Česky  
Chamorro  
Chichewa  
Corsica  
Cymraeg  
Daga  
Dansk  
Deutsch  
Dzongkha  
Eesti  
Español  
Esperanto  
Euskara  
Fiji  
Filipino  
Føroyar  
Français  
Frysk  
Hausa  
Hawaiian  
Hiri Motu  
Hrvatski  
Irish  
Íslenska  
Italiano  
Kabyle  
Kalaallisut  
Kiribati  
Kiswahili  
Kreyol Ayisyen  
Kuanua  
Kube  
Latviešu  
Lëtzebuergesch  
Lietuvių  
Luganda  
Magyar  
Malagasy  
Malti  
Māori  
Marshallese  
Melpa  
Montenegrin  
Nalik  
Namibia  
Nederlands  
Norsk  
Papiamentu  
Polski  
Português (BR)  
România  
Sámi  
Samoan  
Sarawak  
Sesotho  
Shqip  
Slovenščina  
Slovensky  
Sranan Tongo  
Srpski српски  
Suomi  
Svenska  
Tetum  
Tiếng Việt  
Tok Pisin  
Tongan  
Türkmençe  
Tuvalu  
Vanuatu  
ελληνικά  
Беларускі  
български  
Кыргыз  
Монгол хэл  
Русский  
Тоҷикӣ  
Україна  
հայերեն  
اُردُو  
العربية  
فارسی  
नेपाली  
मराठी  
हिंदी  
বাংলা  
ગુજરાતી  
ଓଡ଼ିଆ  
தமிழ்  
తెలుగు  
ಕನ್ನಡ  
മലയാളം  
ภาษาไทย  
ພາສາລາວ  
한국어  
日本語  
简体中文  
繁體中文  
Windows / Mac