Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2024

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Tvö ár hafa liðið hratt í gríðarlega krefjandi níu ára starfi. Vinir Guðs hafa tekið stefnumið þess föstum tökum. Um allan bahá’í heiminn ríkir dýpri skilningur á því sem þarf til þess að víkka enn frekar ferli samfélagsuppbyggingar og koma til vegar djúpstæðri samfélagslegri umbreytingu. En með hverjum deginum sem líður sjáum við einnig að ástand heimsins mótast af sífellt meiri örvæntingu og sundurþykkju. Stigvaxandi spenna innan þjóða og á milli þeirra hefur áhrif á fólk og svæði á ótal vegu.

Þetta krefst viðbragða af hálfu sérhverrar ráðvandrar sálar. Við vitum allt of vel að samfélag Hins mesta nafns getur ekki vænst þess að erfiðleikar þjóðfélagsins láti það ósnert. En þótt þessir erfiðleikar komi við það, stendur það ekki ráðþrota gagnvart þeim. Þjáningar mannkyns valda því hryggð en draga ekki úr því allan þrótt. Hjartanleg umhyggja verður að hvetja til stöðugrar viðleitni til þess að byggja upp samfélög sem bjóða upp á von í stað örvæntingar, einingu í stað átaka.

Shoghi Effendi lýsti því með skýrum hætti hvernig ferli „stigvaxandi hnignunar í mannlegum málefnum“ fer saman við annað ferli, sameiningarferlið, þar sem unnið er að smíði „arkar mannlegs hjálpræðis“ og uppbyggingu „endanlegs griðastaðar“ þjóðfélagsins. Við fögnum því að sjá sanna friðariðkendur í hverju landi og á hverju landsvæði, önnum kafna við að byggja upp þennan griðastað. Við sjáum þetta í sérhverri frásögn um hjarta sem upptendrast af ást Guðs, um fjölskyldu sem opnar heimili sitt nýjum vinum, samverkamenn sem hagnýta sér kenningar Bahá’u’lláh í lausn samfélagslegra vandamála, samfélag sem eflir menningu gagnkvæms stuðnings, grenndarhverfi sem lærir að hrinda af stað og viðhalda aðgerðum sem eru nauðsynlegar þeirra eigin andlegu og efnislegu framförum og byggðarlag sem nýtur blessunar nýs andlegs svæðisráðs.

Aðferðir og tæki áætlunarinnar gera sérhverri sál kleift að leggja sitt af mörkum til að mæta brýnum þörfum mannkynsins á þessum degi. Því fer fjarri að framkvæmd áætlunarinnar sé aðeins skammtímalækning við meinsemdum líðandi stundar. Hún er starfsreglan sem kemur af stað uppbyggjandi langtímaferlum í hverju samfélagi og þróast með kynslóðunum. Allt bendir þetta á brýna og óumflýjanlega niðurstöðu: Þeim verður að fjölga hratt og stöðugt sem leggja tíma sinn, orku og einbeitta athygli í þetta starf svo að það beri ávöxt.

Hvar annars staðar en í meginreglu Bahá’u’lláh um einingu mannkyns getur heimurinn fundið sýn sem er nógu víðfeðm til að sameina alla ólíka þætti hans? Hvernig getur heimurinn brúað þær þjóðfélagslegu gjár sem í honum hafa myndast með öðru móti en að þessi sýn verði að skipulagi sem byggir á einingu í fjölbreytileika? Hvar annars staðar er að finna hvatann sem beinir þjóðum heims inn á braut nýrra lífshátta og varanlegs friðar? Réttum því öllum höndina í vináttu, sameiginlegri viðleitni, þjónustu og lærdómi, og sækjum fram í einingu.

Við vitum hversu mikinn kraft og lífsþrótt ungmenni skapa í öllum samfélögum þegar sýn Bahá’u’lláh örvar þau og þau verða höfuðgerendur áætlunarinnar. Og af þeim sökum verða bahá’í ungmenni að einsetja sér að snúa sér til jafnaldra sinna og fá þá til liðs við sig í þessu starfi með mikilli góðvild, hugrekki og fullkomnu trausti á Guð! Allir verða að hafa hraðann á, en ungmennin verða að fara með himinskautum.

Brýnar þarfir þessarar stundar mega ekki skyggja á þá sérstöku gleði sem þjónustan vekur. Ákall um þjónustu er gleðirík og alltumlykjandi kvaðning til starfa. Það laðar að sér hverja trúfasta sál, jafnvel þær sem bogna undan áhyggjum og skyldum. Því að í öllu sem sú trúfasta sál þarf að sinna má finna rótgróna tryggð og ævarandi umhyggju fyrir velferð annarra. Slíkir eiginleikar eru samhengið í lífi sem mótast af margs konar kröfum. Og ljúfasta stund hvers upptendraðs hjarta er samveran með andlegum systrum og bræðrum sem láta sér annt um samfélag sem þarfnast andlegrar næringar.

Í hinum helgu grafhýsum þökkum við Bahá’u’lláh af öllu hjarta fyrir að hafa reist ykkur upp og þjálfað ykkur á vegi sínum og við biðjum Hann að leggja yfir ykkur blessun sína.

 

Windows / Mac