Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2013

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

„Bók Guðs er opin og með orði sínu kallar hann mannkynið til sín.“ Með þessum hrífandi orðum lýsir hinn æðsti penni því hvernig dagur einingar og uppskeru nálgast. Bahá’u’lláh heldur áfram: „Hneigið eyru yðar, ó vinir Guðs, að rödd hans sem veröldin hefur leikið rangt og fylgið staðfastlega öllu sem upphefur málstað hans.“ Hann hvetur einnig fylgjendur sína: „Takið ráð saman í innilegustu vináttu og anda fullkomins bræðralags og helgið dýrmæta ævidaga yðar því að bæta heiminn og útbreiða málstað hins aldna og allsráðandi Drottins.“

Kæru samverkamenn: Þessi heillandi yfirlýsing kemur ósjálfrátt upp í hugann þegar við sjáum hvernig þið bregðist við ákalli Bahá’u’lláh með helguðu starfi og viðleitni um allan heim. Þessi framúrskarandi viðbrögð við hvatningarorðum hans má sjá hvert sem litið er. Þeir sem staldra við til að hugleiða framrás hinnar guðlegu áætlunar geta ekki horft framhjá því að aflið sem býr í orði Guðs vex óðum í hjörtum kvenna og karla, barna og unglinga, í hverju landinu á fætur öðru, í hverju umdæminu á fætur öðru.

Heimssamfélagið eykur nú hæfni sína til að meta nánustu kringumstæður sínar, greina möguleika sína og beita af skarpskyggni aðferðum og tækjum fimm ára áætlunarinnar. Eins og vænta mátti eykst reynslan og þekkingin hraðast í umdæmum þar sem verið er að færa út framlínur lærdóms með meðvituðum hætti. Þar ríkir góður skilningur á úrræðum til að gera sívaxandi fjölda fólks kleift að bæta þjónustuhæfni sína. Þróttmikil þjálfunarstofnun er máttarstoðin í viðleitni samfélagsins til að stuðla að framgangi áætlunarinnar. Hæfni og getu sem þróast með þátttöku í námshringjum er beitt eins fljótt og unnt er á vettvangi. Í sínu daglega lífi hitta sumir bahá’íar fyrir sálir sem eru opnar fyrir því að rannsaka andleg málefni og sú rannsókn fer fram við ýmiskonar aðstæður. Sumir eru í aðstöðu til að bregðast við móttækileika í sínum heimabæ eða hverfi, kannski eftir að hafa flutt á svæðið. Vaxandi fjöldi rís upp til að axla ábyrgð og fylla sístækkandi flokk þeirra sem þjóna sem leiðbeinendur, hvetjarar og barnakennarar; sinna stjórnun, skipulagningu eða öðrum verkefnum til að efla starfið. Skuldbinding vinanna við lærdóm kemur fram í staðfestunni sem þeir sýna í sínu eigin starfi og viðleitni þeirra og fúsleika til að fylgja öðrum eftir starfi þeirra. Þeir eru auk þess færir um að sjá starfsmynstrið sem þróast í umdæminu frá tveimur sjónarhornum. Annað er þriggja mánaða vaxtarbylgjan - taktfastur púls í vaxtarferlinu - hitt varðar ákveðna skýrt skilgreinda áfanga í uppfræðslu barna, unglinga og ungmenna og fullorðinna. Jafnframt því sem vinirnir hafa glöggan skilning á tengslum þessara þriggja áfanga vita þeir að hver um sig lýtur sínum eigin lögmálum, hefur sínar eigin þarfir og áskapaða verðleika. Umfram allt gera þeir sér grein fyrir að mikil andleg öfl eru að verki sem koma jafnt fram í þeim tölulegu upplýsingum sem endurspegla framfarir samfélagsins og í fjölda frásagna af því sem áorkast hefur. Það sem vekur sérstakar vonir er hversu marga af þeim skýru og áberandi þáttum sem einkenna umdæmin sem lengst eru á veg komin má einnig greina hjá samfélögum sem mun

skemmra eru komin.

Eftir því sem reynsla átrúendanna hefur dýpkað hefur hæfni þeirra aukist til að laða fram ríkt og fjölbreytilegt lífsmynstur innan umdæmis sem nær til hundruða eða jafnvel þúsunda manna. Það gleður okkur mjög að sjá þá auknu innsýn sem átrúendurnir öðlast smám saman með starfi sínu. Þeir skilja til dæmis að stigbundin þróun áætlunarinnar í umdæmum er lifandi og gagnvirkt ferli, sem er í sjálfu sér margbrotið og verður ekki einfaldað. Þeir sjá hvernig það sækir í sig veðrið við aukna getu þeirra, bæði við að þjálfa nýjan mannauð og til að skipuleggja vel störf þeirra sem rísa upp. Vinirnir gera sér grein fyrir að þegar þessi hæfni eykst verður mögulegt að taka frumkvæði á fleiri sviðum. Þeir hafa einnig gert sér grein fyrir að þegar nýr þáttur er kynntur til sögunnar þarfnast hann sérstakrar athygli í nokkurn tíma, þótt það dragi engan veginn úr þýðingu annarra þátta í starfi þeirra að samfélagsuppbyggingu. Enda skilja þeir að ef lærdómur á að vera helsta starfsaðferð þeirra verða þeir að vera vakandi fyrir þeim möguleikum sem hvert og eitt tæki áætlunarinnar kann að bjóða upp á og reynist sérstaklega sniðið að ákveðnum tíma og aðstæðum, og þeir verja meiri tíma og orku til að þróa það tæki eða þá aðferð sem þörf er fyrir hverju sinni. Af þessu leiðir þó ekki að allir eigi að vera uppteknir af sama þætti áætlunarinnar. Vinirnir hafa líka lært að enga nauðsyn ber til að beina aðalþunga útbreiðslulotunnar að sama markmiði í öllum bylgjum vaxtaráætlunarinnar. Sem dæmi má nefna að vegna aðstæðna sem skapast í ákveðinni bylgju getur reynst nauðsynlegt að beina athyglinni fyrst og fremst að því að bjóða leitandi sálum að taka við trúnni með öflugri og markvissri kennslu, sem einstaklingar eða hópar taka þátt í. Í annari bylgju gæti áherslan beinst að því að fjölga verkefnum í ákveðnum grunnþætti.

Auk þess gera vinirnir sér grein fyrir að vinnu málstaðarins miðar misvel á ólíkum stöðum og fyrir því eru góðar og gildar ástæður. Þegar öllu er á botninn hvolft er um að ræða lífrænt fyrirbæri – og allur árangur gleður og hvetur vinina. Þeir skilja vissulega að framlag hvers og eins til árangurs heildarinnar eykur gæði starfsins og því geta allir glaðst yfir þeirri þjónustu sem hver og einn veitir í samræmi við möguleika sína og aðstæður. Á umdæmissamkomur er í vaxandi mæli litið sem tækifæri til að taka heildarstarf samfélagsins til skoðunar í andrúmslofti einlægni og hvatningar. Augu þátttakenda opnast fyrir því sem tekist hefur í heildina, þeir sjá sitt eigið starf í því ljósi og skilningur þeirra á vaxtarferlinu eykst þegar þeir taka til sín ráðleggingar stofnananna og læra af reynslu trúsystkina sinna. Slíkri reynslu er einnig deilt við fjölmörg önnur tækifæri sem eru að verða til fyrir samráð vinanna sem helga sig sérstakri starfsemi, hvort sem þeir eru þátttakendur í hinu almenna starfi eða þjóna sérstöku hlutverki í umdæminu. Öll þessi innsýn byggir á þeim víða skilningi að best og auðveldast er að ná árangri í andrúmslofti ástar, þar sem litið er framhjá annmörkum af umburðarlyndi, hindrunum er mætt með þolinmæði og þar sem margreyndum leiðum og aðferðum er tekið með lifandi áhuga. Þannig gerist það undir viturlegri stjórn stofnana og aðila á þeirra vegum á öllum stigum málstaðarins að viðleitni vinanna, hversu lítil sem hún er hjá hverjum einstökum, sameinast í einum farvegi sem tryggir að fljótt sé brugðist við næmleika við ákalli hinnar Blessuðu fegurðar og hann ræktaður og nærður. Í slíku umdæmi hafa greinilega þróast heilbrigð tengsl milli einstakra átrúenda, stofnana og samfélags, þessara þriggja aðalgerenda áætlunarinnar.

Í þessu landslagi blómlegrar starfsemi er rétt að nefna eitt atriði sérstaklega. Í boðskap sem beint var til ykkar fyrir þremur árum létum við í ljósi þá von að í umdæmum þar sem öflugar vaxtaráætlanir væru í gangi myndu vinirnir reyna að læra meira um aðferðir til samfélagsuppbyggingar með því að koma upp öflugum starfsstöðvum í byggðum og borgarhverfum. Þetta hefur tekist vonum framar því jafnvel í umdæmum þar sem vaxtarferlið er ekki enn orðið öflugt hefur viðleitni fáeinna til að hefja starf að grunnþáttum meðal íbúa á

litlum svæðum margsinnis borið árangur. Í meginatriðum tekur þessi nálgun mið af viðbrögðum við kenningum Bahá’u’lláh meðal íbúanna sem eru tilbúnir fyrir þá andlegu umbreytingu sem opinberun hans kemur til leiðar. Þátttaka í námsferlinu sem þjálfunarstofnunin stuðlar að vekur með þeim löngun til að hafna samfélagsmeinum eins og sinnuleysi og tómlæti og taka í staðinn þátt í starfi sem umbreytir lífinu og gefur því innihald. Þegar vinirnir hafa nálgast verkefnið með þessum hætti í nokkur ár í byggð eða borgarhverfi og haldið áherslum sínum til streitu er merkilegur árangur hægt en örugglega að koma í ljós. Ungmennum eykst styrkur og áræði og þau taka að sér ábyrgð á framförum sér yngri krakka . Eldri kynslóðir fagna framlögum ungmenna til innihaldsríkra umræðna sem varða málefni alls samfélagsins. Aginn sem er ræktaður með námsferli samfélagsins byggir upp samráðshæfni ungra og aldinna og ný tækifæri skapast fyrir markvissa samræðu. Breytingin er þó ekki aðeins bundin við bahá’ía og þá sem tengjast grunnþáttum áætlunarinnar og ætla mætti að temdu sér nýjan hugsunarhátt með tímanum. Hún hefur áhrif á sjálfan anda staðarins. Viðhorf tilbeiðslu helgunar byrjar að mótast meðal mikils hluta íbúanna. Vitundin um jafnrétti karla og kvenna verður sterkari. Menntun og uppfræðslu barna, bæði drengja og stúlkna, er veitt meiri athygli. Greinileg eðlisbreyting verður á tengslum innan fjölskyldunnar - tengslum sem hafa mótast af aldagömlum venjum og hefðum. Ræktarsemi gagnvart nánasta samfélagi og umhverfi verður ríkjandi. Jafnvel meinsemd fordóma, sem varpar skaðvænum skugga yfir allar þjóðir, byrjar að víkja fyrir knýjandi mætti einingar. Í stuttu máli hefur starf vinanna að samfélagsuppbyggingu áhrif á ýmsar hliðar menningar.

Útbreiðsla og treysting hafa tekið stöðugum framförum á síðasta ári og önnur mikilvæg starfsvið hafa einnig þróast, oft á tíðum samhliða. Sem gott dæmi um þetta má nefna að framfarir í menningu sem greina má í sumum byggðum og borgarhverfum eru að töluverðu leyti afrakstur þess lærdóms sem fæst með þátttöku bahá’ía í samfélagsstarfi. Skrifstofa samfélags- og hagþróunar vann nýlega skýrslu þar sem dregin er saman þrjátíu ára reynsla sem fengist hefur á þessu sviði síðan skrifstofan var stofnuð við bahá’í heimsmiðstöðina. Meðal atriða sem þar koma fram er að þjálfunarstofnunin gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar þátttöku í samfélagsstarfi. Þetta stafar ekki aðeins af þeim aukna mannauði sem hún skapar. Sú andlega innsýn, eiginleikarnir og hæfnin sem þjálfunarferlið ræktar reynast jafn nauðsynleg fyrir þátttöku í samfélagsstarfi og þeir eru fyrir vaxtarferlið. Auk þess kemur fram í skýrslunni hvernig sérstök starfssvið bahá’í samfélagsins lúta sameiginlegum hugmyndaramma sem er byggður upp af þáttum sem styðja hver við annan, þótt þeir taki á sig ýmsar myndir á ýmsum starfssviðum. Skýrslan sem við höfum lýst var nýlega send andlegum þjóðarráðum og við bjóðum þeim að íhuga í samráði við ráðgjafana hvernig þær hugmyndir sem þar eru reifaðar geta aukið gildi samfélagsstarfsins sem unnið er undir þeirra umsjá og eflt vitund um þessa þýðingarmiklu vídd í bahá’í starfi. Þetta ætti ekki að túlka sem almennt ákall um aukna viðleitni á þessu sviði - samfélagsstarf er eðlileg afleiðing af vaxandi styrk bahá’í samfélagsins - en tími er til þess kominn að vinirnir gefi meiri gaum að því hverju viðleitni þeirra getur komið til leiðar fyrir umbreytingu þjóðfélagsins. Aukin þekking á þessi sviði gerir meiri kröfur til Skrifstofu samfélags- og hagþróunar og unnið er að því að gera henni fært að svara þeim kröfum.

Á síðustu tólf mánuðum hefur það verið áberandi hversu oft, og í margs konar samhengi, hefur verið eftir því tekið að bahá’í samfélagið stuðli að samfélagsumbótum í samstarfi við fólk sem er sama sinnis. Á alþjóðlegum vettvangi og allt til grasrótar smærri byggða hafa forystumenn á sviði hugsunar lýst þeirri skoðun við ýmsar aðstæður að bahá’íar láti sér ekki aðeins annt um velferð mannkynsins heldur hafi þeir einnig trúverðugar hugmyndir um hvaða leiðir séu færar til að gera hugsjónir sínar að veruleika. Þessi viðurkenning og stuðningur hefur einnig borist úr óvæntri átt. Þrátt fyrir ógnvekjandi hindranir sem kúgarinn leggur í veg

bahá’ía í vöggu trúarinnar hefur orðstír þeirra stöðugt aukist vegna þeirrar úrslitaþýðingar sem boðskapur þeirra hefur fyrir þjóðina og þeir njóta virðingar fyrir þann óhaggandi ásetning sinn að stuðla að framförum í heimalandi sínu.

Þjáningarnir sem hinir trúföstu hafa þolað í Íran, sérstaklega á þeim áratugum sem liðnir eru síðan síðasta bylgja ofsókna hófst, hafa hvatt bræður þeirra og systur í öðrum löndum til að koma þeim til varnar. Vegna þolgæðis þeirra hefur bahá’í heimssamfélagið öðlast ómetanlega reynslu og við viljum nefna eitt atriði í því sambandi: öflugt og áhrifamikið kerfi sérhæfðra stofnana í mörgum löndum á þjóðarsviði sem hafa reynst færar um að að þróa samskipti við ríkisstjórnir og félagasamtök borgaralegs samfélags á kerfisbundinn hátt. Samhliða þessu hefur reynsla og lærdómur af undanförnum áætlunum gert samfélagið hæfara til að taka þátt í almennri þjóðfélagsumræðu hvar sem hún fer fram—allt frá samtölum manna á milli til hins alþjóðlega vettvangs. Í grasrótinni byggist þátttaka á þessum sviði upp með sama eðlilega og lifandi hætti og þeim sem einkennir síaukna þátttöku vinanna í samfélagsstarfi og ekki þarf að grípa til sérstakra aðgerða til að örva það. Á stigi þjóðríkjanna nýtur þessi þátttaka samt æ meiri athygli þessara sömu helguðu stofnana sem nú þegar starfa í fjölda þjóðarsamfélaga með sömu kunnuglegu og árangursríku aðferðum, átaki, íhugun, samráði og námi. Til að auka áhrif slíkrar viðleitni, auðvelda lærdóm á þessu sviði og tryggja að skrefin sem tekin eru séu í samræmi við aðra viðleitni bahá’í samfélagsins, höfum við nýlega stofnað Skrifstofu fyrir opinbera umræðu við bahá’í heimsmiðstöðina. Við munum hvetja hana til að aðstoða þjóðarráðin á þessu sviði með því smám saman að stuðla að og samræma starfsemi og kerfisbinda fengna reynslu.

Uppörvandi framþróun á sér einnig stað á öðrum sviðum. Í Santiago í Chile, þar sem verið er að reisa móðurmusteri Suður-Ameríku, miðar byggingarframkvæmdum vel. Steinsteyptar undirstöður, kjallari og þjónustugangur eru tilbúin auk súlnanna sem bera uppi yfirbygginguna. Eftirvæntingin sem tengist þessu verkefni vex og svipaðar væntingar vakna í þeim sjö löndum þar sem reisa á þjóðar- eða svæðismusteri. Í öllum þessum löndum er undirbúningur hafinn og byrjað er að nota framlög frá átrúendunum til musterasjóðsins. En praktísk mál svo sem staðsetning, hönnun og aðföng eru aðeins ein hliðin á verkinu sem vinirnir eru að vinna. Í grundvallaratriðum er starfið sem þeir vinna andlegs eðlis og allt bahá’í samfélagið tekur þátt í því. Meistarinn vísar til Mashriqu’1-Adhkár sem „seguls guðlegra staðfestinga“, „voldugrar undirstöðu Drottins“, og „máttarstoðar trúar Guðs“. Hvar sem musteri er reist verður það óaðskiljanlegur þáttur í uppbyggingu samfélagsins á sínu svæði. Þar sem musterin eiga að rísa hefur vitundin um þennan veruleika aukist nú þegar í röðum átrúendanna og þeir skilja að líf þeirra verður í æ ríkari mæli að endurspegla þá einingu tilbeiðslu og þjónustu sem Mashriqu’l-Adhkár er táknmynd fyrir.

11 Á öllum vígstöðvum sjáum við bahá’í samfélagið sækja fram af staðfestu. Skilningur þess eykst, það er staðráðið í að læra af reynslunni, tilbúið til að takast á hendur ný verkefni þegar efni og aðstæður leyfa, bregst snöggt við nýjum aðkallandi málefnum, meðvitað um þörfina á að tryggja samræmi hinna ýmsu sviða sem það starfar á og algjörlega helgað fullum efndum á ætlunarverki sínu. Áhugi þess og hollusta komu greinilega í ljós í öflugum viðbrögðum við tilkynningunni sem gefin var út fyrir tveimur mánuðum um 95 ungmennaráðstefnur sem haldnar verða víða um heim. Við erum ekki aðeins þakklátir fyrir viðbrögð ungmennanna sjálfra heldur einnig fyrir stuðningsyfirlýsingar annarra átrúenda sem kunna vel að meta hvernig yngri fylgjendur Bahá’u’lláh eru lífsnauðsynlegur aflvaki fyrir málstaðinn allan.

Við fyllumst von vegna endurtekinna vitnisburða um útbreiðslu boðskapar Bahá’u’lláh, umfangsmikil áhrif hans og vaxandi vitund um hugsjónirnar sem hann varðveitir. Á þessum

árstíma minningarafmæla leiðum við hugann að „degi æðstrar hamingju“ á riḍvánhátíðinni fyrir einni og hálfri öld þegar Abhá fegurðin lýsti fyrst yfir köllun sinni í áheyrn félaga sinna í Najíbíyyih garðinum. Frá þeim helgaða stað hefur orð Guðs verið flutt til allra borga og stranda og kallar mannkynið til fundar við Drottinn sinn. Og af upphaflegu föruneyti hinna ölvuðu af ást Drottins hefur fjölbreytilegt marksækið samfélag sprottið, marglit blóm í garðinum sem hann hefur ræktað. Með hverjum degi sem líður snýr vaxandi fjöldi nývaknaðra sálna sér í bæn til grafhýsis hans, staðar þar sem við í minningu þess blessaða dags og þakklátir fyrir alla hylli sem veitt er samfélagi hins mesta nafns, lútum höfði í bæn við hina helgu fótskör.

 

Windows / Mac