Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2005

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Sú bylting sem átt hefur sér stað í bahá’í heiminum frá upphafi fimmta tímaskeiðs mótunaraldarinnar hefur fært okkur ómælda gleði. Síðustu tólf mánuðir eru þar engin undantekning. Kerfisbundin framrás bahá’í samfélagsins hefur haldið áfram og nú þegar lokaár fimm ára áætlunarinnar er að hefjast býr samfélagið yfir ótrúlegum styrk – styrk sem náðst hefur með þrotlausu erfiði og því að vinirnir hafa af einurð beitt sér við að örva hópinngönguferlið.

Þrátt fyrir að tölulegar upplýsingar túlki ekki svo fullnægjandi sé raunverulegt mikilvægi þeirrar þróunar sem nú á sér stað, gefa þær nokkra hugmynd um umfang þess árangurs sem er að nást. Mannauður samfélagsins hefur margfaldast jafnt og þétt. Alls hafa rúmlega 200.000 manns um heim allan lokið við fyrstu bók Ruhi stofnunarinnar og þúsundir hafa náð því stigi að geta með góðum árangri gegnt hlutverki leiðbeinenda, en námshringjum fjölgar ört um allan heim og eru fleiri en 10.000 talsins samkvæmt nýjustu tölum. Fjöldi leitenda sem taka þátt í grunnþáttunum hefur haldið áfram að aukast og fór yfir 100.000 markið fyrir nokkrum mánuðum. Á sama tíma hafa um 150 umdæmi náð því þróunarstigi að hraðvaxtaráætlanir hafa verið gangsettar eða eru í startholunum. Öll teikn benda til þess að við lok áætlunarinnar muni fjöldinn hafa farið verulega fram úr þessu marki. Þegar við fögnum þessum afrekum, ættum við að líta sérstaklega til þeirra framfara í námi sem stuðlað hafa að þeim. Þróttmikið átak þjálfunarstofnana, sem tekið hafa mið af mikilvægi nauðsynlegra æfinga í náminu, eru sem fyrr það tæki sem örvar vöxt umdæmanna. Eftir að nauðsynleg skilyrði hafa þannig verið sköpuð, hefur í framhaldinu verið komið á kerfisbundnum áætlunum um útbreiðslu og treystingu trúarinnar. Aflað hefur verið dýrmætrar þekkingar á eðli hraðvaxtaráætlana og góður skilningur hefur skapast á ákveðnum einkennum þessara aðgerða. Þessar áætlanir fela almennt í sér röð nokkurra mánaða tímabila sem eru helguð skipulagningu, útbreiðslu og treystingu. Þróun mannauðsins heldur áfram óhindrað frá einu tímabili til annars, sem tryggir að útbreiðsluferlið - ekki aðeins viðhelst heldur eykst skriðþungi þess jafnt og þétt. Vafalaust má draga meiri lærdóm af þessu, en sú reynsla sem þegar hefur fengist gerir okkur kleift að heimfæra nálgunina yfir á sífellt fleiri umdæmi um allan heim.

Það er einkar ánægjulegt að þeir sigrar sem unnist hafa, snúast í senn um magn og gæði. Þungamiðja þess árangurs sem náðst hefur er hvarvetna stöðug efling andlegs lífs í bahá’í samfélögunum. Þessi nýi andlegi lífskraftur skýrir aukna þátttöku fólks af fjölþættum uppruna í helgistundum, barnakennslu og námshringjum, sem í mörgum tilfellum hefur leitt til þess að það viðurkennir Bahá’u’lláh sem birtanda Guðs fyrir okkar tíma og lýsir yfir trú sinni. Ný þróun hefur einnig átt sér stað við Heimsmiðstöðina. Við höfum ákveðið að nú sé rétti tíminn til þess að stofna Alþjóðlegt trúnaðarráð Huqúqu’lláh til þess að leiðbeina og hafa umsjón með trúnaðarráðum Huqúqu’lláh í heimshlutum og löndum um allan heim. Það mun starfa í nánu samstarfi við yfirtrúnaðarmanninn, hönd málstaðar Guðs Dr. ‘Alí-Muhammad Varqá og njóta þekkingar hans og leiðsagnar við störf sín. Þau þrjú sem skipuð hafa verið sem meðlimir alþjóðlega trúnaðarráðins eru Sally Foo, Ramin Khadem og Grant Kvalheim. Lengd skipunartíma þeirra verður ákveðin síðar. Meðlimir ráðsins munu ekki flytja búferlum til Landsins helga en munu nýta þjónustu skrifstofu Huqúqu’lláh við Heimsmiðstöðina í starfi sínu.

Á öllum stigum og hvert sem litið er á greinileg þróun málstaðarins sér stað – frá ávinningi í útbreiðslu og treystingu í grasrótinni til stofnana á heimsvísu. Slík uppörvandi teikn um vaxandi samstöðu samfélagsins birtast um leið og vísbendingar um hnignun þjóðfélagsins verða því miður öllum ljósar. Þess gerist ekki þörf hér að rekja einkenni þess niðurrifs sem ráðþrota heimur er flæktur í. Samt skyldi það ekki gleymast að það eru eimitt þessar kringumstæður sem auka móttækileikann fyrir boðskapnum og skapa ný tækifæri fyrir útbreiðslu hans.

Í skilaboðum okkar 26. nóvember 1999 vísuðum við til keðju hnattrænna aðgerða sem væru sniðnar til þess að fleyta bahá’í samfélaginu í gegnum síðustu árin á fyrstu öld mótunartímans. Við gáfum til kynna að sérhver áætlun myndi beinast að hinu miðlæga markmiði að örva hópinngönguferlið. Hinni fyrstu í röðinni, Fimm ára áætluninni sem nú stendur yfir, lýkur innan tólf mánuða og þá munum við beina því ákalli til fylgjenda Bahá’u’lláh að þeir hefjist handa við aðra áætlun sem standa mun í önnur fimm ár. Það sem við biðjum vinina að gera þangað til er að beina öllum kröftum sínum að því að hrinda einarðlega í framkvæmd því kerfisbundna námi sem Alþjóðlega kennslumiðstöðin hefur svo eindregið mælt með. Enginn bahá’íi ætti að láta ganga sér úr greipum það ómetanlega tækifæri að styrkja með þessum hætti forsendur þess að hefja á ridván að ári enn metnaðarfyllra átak. Okkar hlýjustu bænir í hinum helgu grafhýsum fylgja ykkur.

 

Windows / Mac