The Universal House of Justice
Ridván 2010
To the Bahá’ís of the World
Dearly loved Friends,
Með hjörtun full aðdáunar á fylgjendum Bahá'u'lláh er það okkur gleðiefni nú þegar
fagnaðarrík riḍván hátíðin gengur í garð að geta skýrt frá því, að á öllum meginlöndum er
tilskilinn fjöldi öflugra vaxtaráætlana í gangi sem þýðir að heimssamfélagið er komið yfir 1500
markið og markmið fimm ára áætlunarinnar eru þar með tryggð einu ári áður en henni lýkur. Við
lútum höfði í þakklæti til Guðs fyrir þetta undraverða afrek, þennan frækna sigur. Allir sem hafa
starfað á þessum vettvangi kunna að meta þá hylli sem Hann hefur veitt samfélagi sínu með því
að gefa því heilt ár til að styrkja mynstur útbreiðslu og treystingar sem nú er hvarvetna vel á veg
komið til að undirbúa þau verkefni sem bíða þess í næsta hnattræna átaksverkefni — áætlun sem
mun standa í fimm ár, hin fimmta í röðinni sem hefur það skýra markmið að efla
hópinngönguferlið.
Nú þegar við stöldrum við vegna þessa gleðilega tilefnis viljum við að það komi skýrt fram, að
það sem vekur stolt og þakklæti í hjörtum okkar er ekki svo mjög sá tölulegi árangur sem þið
hafið náð, jafn markverður sem hann þó er, heldur samspil þátta í þróun á dýpra menningarstigi
sem þessi afrek eru til vitnis um. Helst ber þar að nefna aukna hæfni sem við höfum séð hjá
vinunum þegar þeir ræða við aðra um andleg málefni og hve auðvelt þeim reynist að tala um
Bahá'u'lláh sjálfan og opinberun hans. Þeir hafa skilið vel þá staðreynd að kennsla er
grundvallarnauðsyn í lífi sem einkennist af gjafmildi.
Í nýlegum skilaboðum höfum við lýst gleði okkar yfir því að verða vitni að stöðugt hraðari takti
í kennslunni um allan heim. Þessi grunnskylda hins einstaka átrúanda hefur alltaf verið og verður
ávallt ómissandi þáttur í bahá’í líferni. Fimmtán hundruð öflugar vaxtaráætlanir hafa sýnt hve
hugrakkur og ákveðinn allur þorri átrúandanna er orðinn þegar þeir stíga út fyrir nánasta hring
fjölskyldu og vina, reiðubúnir til að láta hönd hins almiskunnsama leiða sig til næmra sálna hvar
sem þær er að finna. Jafnvel hógværasta mat gefur til kynna að nú taki tugir þúsunda þátt í
reglubundnum átaksverkefnum með það fyrir augum að stofna til vinskapar á grundvelli
sameiginlegs skilnings við þá sem áður var litið á sem ókunnugt fólk.
4 Í viðleitni sinni til að kynna meginatriði trúarinnar á einfaldan og ótvíræðan hátt hafa
átrúendurnir notið góðs af sýnidæmi í bók 6 Ruhi stofnunarinnar. Þar sem röksemdafærslan að
baki kynningunni er metin að verðleikum og menn sigrast á hvötinni til að breyta henni í formúlu
verður hún tilefni samræðna milli tveggja sálna—samræðna sem mótast af dýpt þess skilnings
sem hefur náðst og eðli tengslanna sem hafa myndast. Að því marki sem samræður þróast frá því
þær fyrst áttu sér stað og raunveruleg vinátta myndast getur bein kennsluviðleitni af þessu tagi
orðið hvati til varanlegrar andlegrar umbreytingar. Hvort fyrstu samskiptin við þessa nýju vini
leiða til þess að þeim sé boðið að skrá sig í bahá’í samfélagið eða taka þátt í einhverri starfsemi
þess skiptir ekki meginmáli. Mikilvægara er að sérhverri sál finnist hún vera velkomin til að
ganga til liðs við samfélagið, leggja fram sinn skerf til betra þjóðfélags og taka þannig fyrstu
skrefin á vegi þjónustu við mannkynið, sem strax í upphafi eða síðar meir getur leitt til
formlegrar skráningar.
Ekki ætti að vanmeta þýðingu þessarar þróunar. Þegar samfellt framkvæmdamynstur er fyrir
hendi í hverju umdæmi fyrir sig þarf að beina athyglinni að víðari útfærslu þess í samvinnu við
samverkamenn og kunningja, en á sama tíma þarf orkan að beinast að minni íbúahópum sem
hver um sig ætti að verða miðpunktur mikillar starfsemi. Í borgarumdæmi gæti slík
starfsemismiðja afmarkast af hverfinu eða næsta nágrenni; í strjálbýlu umdæmi gæti lítið þorp
verið góður félagslegur vettvangur í þessu skyni. Þeir sem þjóna í þessu umhverfi, bæði íbúarnir
sjálfir og kennarar í heimsókn, munu með réttu líta á starf sitt sem samfélagslega uppbyggingu.
Að setja merkimiða eins og „hús úr húsi“ (door to door) á kennsluviðleitni þeirra væri ekki
réttnefni á ferli sem leitast við að auka hæfni íbúanna til að taka stjórn á sínum andlega,
félagslega og vitsmunalega þroska, jafnvel þótt fyrstu samskiptin gætu falist í að koma á heimili
fólks án þess að gera boð á undan sér. Starfsemin sem knýr þetta ferli og sem nýir vinir eru
hvattir til að taka þátt í – fundir sem styrkja tilbeiðslu innan samfélagsins; kennsla sem nærir
viðkvæm hjörtu og hugi barnanna; hópar sem verða farvegir fyrir svellandi orku unglinganna;
námshringir sem eru öllum opnir og gera fólki af ýmsum bakgrunni kleift að þróast á
jafnréttisgrundvelli og kanna áhrif kenninganna á sitt eigið líf og líf samfélagsins—slíkri
starfsemi gæti vel þurft að halda uppi með aðstoð utan frá um tíma. Þess má hinsvegar vænta að
þátttakendum í þessari kjarnastarfsemi muni brátt fjölga fyrir tilstilli mannauðs úr sjálfu hverfinu
eða þorpinu—manna og kvenna sem væru þess óðfús að bæta efnislegar og andlegar aðstæður í
umhverfi sínu. Hrynjandi samfélagslífs ætti smám saman að koma í ljós í samræmi við hæfni
vaxandi kjarna einstaklinga sem eru helgaðir sýn Bahá'u'lláh á nýtt heimsskipulag.
Í þessu samhengi birtist móttækileikinn í vilja til að taka þátt í ferli þeirrar samfélagslegu
uppbyggingar sem kjarnastarfsemin kemur af stað. Í hverju umdæminu á fætur öðru þar sem
öflug vaxtaráætlun er nú í gangi bíður vinanna á árinu sem fer í hönd það verkefni að kenna í
einum eða fleiri móttækilegum samfélagshópum. Þeir nota beinu aðferðina við að útskýra
grundvallaratriði trúarinnar og finna þær sálir sem sem þrá að hrista af sér þá fjötra deyfðar og
sinnuleysis sem þjóðfélagið leggur á þær og vinna saman í hverfum og þorpum með ferli
sameiginlegrar umbreytingar að markmiði. Ef vinirnir halda þannig ótrauðir áfram í viðleitni
sinni til að læra um leiðir og aðferðir til samfélagslegrar uppbyggingar í litlum hópum erum við
vissir um að stór skref verða stigin áleiðis að markmiðum allsherjarþátttöku.
7 Til að mæta þessari áskorun verða átrúendurnir og stofnanirnar sem þjóna þeim að styrkja
þjálfunarferlið í umdæminu og fjölga umtalsvert innan marka þess þeim sem geta þjónað sem
leiðbeinendur í námshringjum. Viðurkenna ætti að tækifærið sem nú stendur vinunum opið til að
efla samfélagslíf í hverfum og þorpum, tækifæri sem einkennist af skýrum tilgangi, varð aðeins
mögulegt með þróun sem á síðasta áratug skipti sköpum á því sviði bahá'í menningar sem snýr
að fræðslu.
Þegar við í desember 1995 mæltumst til stofnunar þjálfunarstofnana um allan heim var sú
aðferðafræði ríkjandi innan bahá'í samfélagsins að aðstoða einstaka átrúendur við að dýpa
þekkingu sína á trúnni með því að halda öðru hvoru námskeið og kennslustundir sem stóðu
mismunandi lengi og fjölluðu um ýmis efni. Þessi aðferðafræði hafði fullnægt vel þörfum
vaxandi bahá’í heimssamfélags sem enn var lítið og snerist aðallega um landfræðilega útbreiðslu.
Við gerðum það samt ljóst þá að nálgast þyrfti nám á ritningunum á annan hátt og stefna bæri að
námi sem myndi senda mikinn fjölda inn á vettvang framkvæmda ef hópinngönguferlinu ætti að
miða marktækt áfram. Í þessu sambandi báðum við um að þjálfunarstofnanir veittu sívaxandi
liðsafla átrúenda stöðuga aðstoð í þjónustu þeirra við málstaðinn með því að gangast fyrir
námskeiðum sem myndu miðla þeirri þekkingu, innsæi og hæfni sem þörf er á til að framkvæma
þau mörgu verkefni sem tengjast hraðari úrbreiðslu og treystingu.
Að lesa rit trúarinnar og reyna að fá betri skilning á þýðingu hinnar stórfenglegu opinberunar
Bahá’u’lláh er skylda sem sérhver fylgjandi hans verður að rækja. Allir eru hvattir til að sökkva
sér í úthaf opinberunar hans og fá hlutdeild í þeim perlum viskunnar sem þar er að finna í
samræmi við hæfni sína og hneigðir. Í þessu ljósi var sú þróun eðlileg að svæðisbundin
fræðslunámskeið, vetrar- og sumarskólar og þó einkum skipulagðir atburðir þar sem einstakir
átrúendur sem höfðu þekkingu á ritunum gátu deilt með öðrum skilningi sínum á ákveðnum
málefnum, hafi orðið þýðingarmiklir þættir í bahá'í lífinu. Líkt og sú venja að lesa daglega er
ómissandi hluti bahá'í auðkenna, þannig munu þessar námsaðferðir lifa áfram í samfélaginu. En
skilningur á því hvað felst í opinberuninni, bæði hvað varðar einstaklingsvöxt og félagslegar
framfarir, eykst margfalt þegar nám og þjónusta fer saman. Á vettvangi þjónustunnar reynir á
þekkinguna, spurningar vakna þegar hafist er handa, og skilningur eykst stig af stigi. Í því
fræðslukerfi sem nú hefur verið efnt til í hverju landinu á fætur öðru—en meginþættir þess fela í
sér námshringinn, leiðbeinandann og námsefni Ruhi stofnunarinnar—hefur bahá’í
heimssamfélagið öðlast hæfni til að gera þúsundum, nei miljónum, kleift að lesa og nema
ritningar í litlum hópum í þeim skýra tilgangi að gera bahá’í kenningarnar að veruleika og hefja
starf trúarinnar upp á næsta stig sem er áframhaldandi útbreiðsla og treysting í stórum stíl.
Enginn skyldi vanmeta möguleikana sem þannig skapast. Öfl þjóðfélagsins í dag stuðla að
óvirkni og aðgerðarleysi. Löngun til að láta hafa ofan af fyrir sér er ræktuð frá barnæsku af sífellt
meiri atorku; upp vaxa kynslóðir sem eru fúsar að láta hvern þann leiða sig sem er nógu slyngur í
að höfða til yfirborðskenndra tilfinninga. Jafnvel í mörgum menntakerfum er farið með
nemendur eins og þeir séu hirslur hannaðar til að taka á móti upplýsingum. Það er gríðarlega
þýðingarmikið afrek að bahá’í heiminum hafi tekist að þróa menningu sem hvetur til hugarfars,
náms og verka þar sem allir telja sig ganga sameiginlega braut þjónustu—styðja hvern annan og
sækja fram í sameiningu, með virðingu fyrir þekkingunni sem hver og einn hefur fram að færa á
sérhverju gefnu andartaki og forðast þá tilhneigingu að skipta átrúendunum í hópa eins og
óupplýsta og dýpkaða . Og í þessu felst ómótstæðilegur aflvaki.
Nauðsynlegt er að gæði fræðsluferlisins sem ræktuð eru á sviði námshringsins aukist
merkjanlega á árinu sem fer í hönd svo að möguleikar íbúanna á svæðinu til að skapa slíkan
aflvaka verði að veruleika. Mikil ábyrgð fellur þeim í hlut sem hér eru í hlutverki leiðbeinenda.
Þeirra bíður sú áskorun að skapa umhverfið sem menn sjá fyrir sér í námshringjunum - umhverfi
sem stuðlar að andlegri eflingu einstaklinga sem munu líta á sig sem virka þátttakendur í sínu
eigin námi og forgöngumenn sem leggja sig stöðugt fram við að beita þekkingu til að umbreyta
einstaklingum og samfélagi. Ef þetta tekst ekki mun aflið sem nauðsynlegt er til að knýja
umbreytinguna ekki skapast, hversu margir námshringir sem stofnaðir eru í umdæminu.
Ef starf leiðbeinandans beinist að því að ná sífellt betri árangri verður að minnast þess að
frumábyrgðin fyrir þróun mannauðs á tilteknu svæði eða landi liggur hjá þjálfunarstofnuninni.
Meðan stofnunin reynir að auka fjölda þátttakenda, verður stofnunin sem heild – allt frá
stjórninni til umsjónarmanna á mismunandi sviðum og til leiðbeinenda í grasrótinni—að leggja
jafn ríka áherslu á heildarvirkni kerfisins því þegar allt kemur til alls er stöðug aukning í magni
háð aukningu í gæðum. Á umdæmissviði verður umsjónarmaðurinn að hafa bæði til að bera
framtakssemi og praktíska reynslu í viðleitni sinni til að fylgja þeim eftir sem þjóna sem
leiðbeinendur. Hann eða hún ætti að skipuleggja reglulega fundi fyrir þá til að hugleiða stöðu
sína og stefnu. Viðburðir sem eru skipulagðir til að endurtaka nám í þáttum sem eru valdir úr efni
frá stofnuninni geta stöku sinnum reynst hjálplegir ef þeir ala ekki á þörf fyrir stöðuga þjálfun.
Hæfni leiðbeinanda þróast stig af stigi þegar einstaklingurinn gengur inn á vettvang þjónustu og
aðstoðar aðra við að leggja sitt af mörkum í yfirstandandi röð hnattvíðra áætlana með því að fara
í gegnum námskeiðaröðina og framkvæma praktíska þætti hennar. Þegar menn og konur á
ýmsum aldri halda áfram í námskeiðaröðinni og ljúka hverju námskeiði fyrir sig með aðstoð
leiðbeinanda verða aðrir að vera tilbúnir til að fylgja þeim eftir í þjónustustarfi sem er í samræmi
við styrkleika þeirra og áhugasvið— þetta á sérstaklega við um umsjónarmenn sem bera ábyrgð á
barnakennslu, unglingahópum og námshringjum. Þessi þjónusta er meginforsenda þess að kerfið
dafni og blómgist. Það ætti að vera áframhaldandi markmið kröftugs lærdóms í sérhverju landi
næstu tólf mánuðina að tryggja að eðlilegur lífskraftur flæði í gegnum þetta kerfi.
Umhyggja fyrir andlegri menntun barna hefur lengi verið þáttur í menningu bahá’í
samfélagsins og leitt til tvennskonar samhliða veruleika. Annarsvegar var byggt á árangri bahá’ía
í Íran sem einkenndist aðallega af hæfni til að bjóða uppá kerfisbundna kennslu af einu stigi á
annað fyrir börn frá bahá'í fjölskyldum, yfirleitt í þeim tilgangi að veita uppvaxandi kynslóðum
grundvallarþekkingu á sögu og kenningum trúarinnar. Í flestum heimshlutum hefur fjöldi þeirra
sem hafa notið gagns af slíkri kennslu verið tiltölulega lítill. Hinsvegar var reynsla sem kom í
ljós á svæðum þar sem skráningar í stórum stíl áttu sér stað, bæði í þéttbýli og strjálbýli. Sú
reynsla einkennist af víðtækara viðhorfi og náði til fleiri. En þótt börn frá allskonar heimilum
væri full áhuga á bahá’í kennslu og velkomin í hana kom ýmislegt í veg fyrir að kennslustundir
væru haldnar með tilskilinni reglu ár frá ári. Það gleður okkur mjög að sjá hvernig þessi
tvískipting, afleiðing sögulegra kringumstæðna, er byrjuð að hverfa þegar vinirnir sem fengið
hafa þjálfun á vegum þjálfunarstofnana hvarvetna bjóða upp á kerfisbundna kennslu sem er
öllum opin.
Byrjun sem lofar svo góðu þarf nú að stórefla. Í öllum umdæmum þar sem öflug vaxtaráætlun
er í gangi þarf að reyna að kerfisbinda enn frekar markmið andlegrar menntunar fyrir aukinn
fjölda barna frá fjölskyldum af ýmsum bakgrunni— en þetta er forsenda samfélagslegrar
uppbyggingar sem eflist og sækir í sig veðrið í hverfum og þorpum. Þetta er verkefni sem gerir
kröfur og útheimtir þolinmæði og samvinnu foreldra og stofnana. Ruhi stofnunin hefur þegar
verið beðin um að greiða fyrir áætlunum um að ljúka við námskeið fyrir þjálfun barnakennara á
ýmsum stigum, og tilsvarandi námsefni, sem mun hefjast með 5 eða 6 ára gömlum börnum og
halda áfram til 10 eða 11 ára aldurs til þess að brúa það bil sem nú er milli þess námsefnis sem er
fyrir hendi og námsbóka fyrir unglinga, eins og Andi trúar og væntanlegrar bókar sem ber nafnið
Afl heilags anda. Þessar bækur verða skýr bahá’í þáttur í kennslunni fyrir þennan aldurshóp.
Þegar þessi viðbótarnámskeið og námsefni eru tilbúin munu þjálfunarstofnanir í hverju landi geta
undirbúið þá kennara og umsjónarmenn sem þörf er á til að fara af stað með námskeiðskjarna
fyrir andlega menntun barna af einu stigi á annað. Í kringum þennan kjarna má skipuleggja aðra
þætti. Á meðan ættu þjálfunarstofnanirnar að gera sitt besta til að leggja kennurum til hæfilegt
efni til kennslu fyrir börn á ýmsum aldri úr því námsefni sem fyrir hendi er eins og þörf krefur.
Alþjóða kennslumiðstöðin hefur áunnið sér ævarandi þakkir okkar fyrir þann nauðsynlega
drifkraft sem hún lét í té til að tryggja að markmið fimm ára áætlunarinnar náðust svo fljótt. Í
kraftinum sem hún léði þessu heimsvíða verkefni, hve vel hún fylgdist með framförum á hverju
meginlandi og í nánu samstarfi hennar við álfuráðgjafana, sáum við bregða fyrir glampa af því
gífurlega afli sem býr í stjórnskipulaginu. Nú þegar kennslumiðstöðin beinir athygli sinni af
sama krafti að málum sem varða skilvirkni starfseminnar á umdæmissviði, mun hún án efa taka
framkvæmd bahá'í barnakennslu til sérstakrar íhugunar. Við erum þess fullvissir að greining
hennar á þeirri reynslu sem fengist hefur í fáeinum völdum umdæmum sem búa við margskonar
félagslegan veruleika, muni á árinu sem fer í hönd, varpa ljósi á praktísk málefni sem gerir það
kleift að koma á fót reglulegri kennslu fyrir börn á öllum aldri í hverfum og þorpum.
Hröð útbreiðsla kennsluverkefna til andlegrar eflingar unglinga er enn eitt merkið um
menningarlegar framfarir bahá’í samfélagsins. Meðan nútímastraumar og stefnur bregða upp
mynd af þessum aldurshópi sem vandamáli, týndum í ólgusjó líkamlegra og tilfinningalegra
umbreytinga, óvirka og sjálfhverfa, þá gengur bahá'í samfélagið—í nálgun sinni og málfari —í
þveröfuga átt. Í staðinn sér það fórnfýsi í unglingunum, næma réttlætiskennd, mikla löngun til að
fræðast um alheiminn og þrá til að stuðla að byggingu betri heims. Fjöldi frásagna þar sem
unglingar í löndum um allan heim lýsa því sem á hugann leitar þegar þeir taka þátt í kennslunni
bera vitni um gildi þessarar sýnar. Allt bendir til þess að kennslan höfði til vaxandi vitundar
þegar þeir rannsaka veruleika sem hjálpar þeim að greina muninn á uppbyggilegum og
eyðileggjandi öflum sem eru að verki í þjóðfélaginu, skilja áhrif þessara afla á hugsanir þeirra og
gerðir, skerpa andlegan skilning , örva og bæta tjáningarhæfni þeirra og styrkja siðferðilega
innviði sem munu koma þeim að gagni í lífinu. Á þessum aldri þegar brumandi vitsmunaleg,
andleg og líkamleg öfl verða þeim tiltæk fá þau í hendurnar verkfærin sem þau þurfa á að halda
til að berjast gegn öflunum sem vilja ræna þau sönnum einkennum sínum sem göfugar
mannverur sem starfa til góðs fyrir alla.
Í meiri hluta kennsluverkefnisins eru málefni rannsökuð frá bahá’í sjónarhorni en ekki
trúarlegrar uppfræðslu. Þetta hefur opnað leiðir til að færa kennsluna út til unglinga við ýmsar
ólíkar aðstæður. Í mörgum slíkum tilvikum fara þeir sem sjá um kennsluna fullir sjálfstrausts inn
á vettvang samfélagslegrar starfsemi og þar bíða þeirra ýmsar spurningar og möguleikar sem
skrifstofa efnahags- og félagslegrar þróunar í landinu helga fylgir eftir og raðar inn í
lærdómsferli sem er í gangi um allan heim. Nú þegar hefur sú þekking og reynsla sem fengist
hefur orðið til þess að nokkur umdæmi víða um heim hafa hvert um sig öðlast hæfni til að vera
með og viðhalda kennslu fyrir meira en eitt þúsund unglinga. Til að hjálpa öðrum að þróast hratt
í þessa átt er skrifstofan að setja upp kerfi lærdómssetra á öllum meginlöndum með aðstoð
sérþjálfaðs hóps átrúenda (handleiðara) en þetta kerfi verður hægt er að nota til að sjá
umsjónarmönnum frá mörgum tugum umdæma fyrir þjálfun. Þessir handleiðarar halda áfram að
styðja umsjónarmenn eftir að þeir snúa aftur til umdæma sinna og gera þeim kleift að skapa
andlegt umhverfi þar sem unglingakennslan getur fest sig í sessi.
Þótt framkvæmdamynstrið sé þegar ljóst mun frekari þekking áreiðanlega eflast á þessu sviði.
Aðeins hæfni bahá'í samfélagsins getur takmarkað viðbrögðin við eftirspurn eftir
unglingakennslu í skólum og meðal borgaralegra hópa. Umdæmin sem í dag eru miðpunktur
öflugra vaxtaráætlana búa við margskonar kringumstæður, allt frá nokkrum dreifðum
unglingahópum til hópa þar sem fjöldinn er nógu mikill til að kalla eftir þjónustu dyggs
umsjónarmanns, sem gæti notið áframhaldandi stuðnings frá lærdómssetri. Til að tryggja að þessi
hæfni aukist allsstaðar í þessum fjölbreyttu umdæmum köllum við eftir því að stofnuð verði 32
lærdómssetur, sem taka skulu til starfa í lok núverandi áætlunar og hvert þeirra þjóni um 20
umdæmum með umsjónarmönnum í fullu starfi. Í öllum öðrum slíkum umdæmum ætti það að
vera forgangsmál á árinu sem fer í hönd að skapa hæfni til að bjóða upp á unglingakennslu og
Þróunin sem við höfum nefnt fram til þessa –aukin hæfni til að kenna trúna beint og hefja
markvissa umræðu um andleg málefni við fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum, ný og árangursrík
nálgun sem tengir nám á ritningunum við framkvæmd, endurnýjun skuldbindingar til að veita
börnum í hverfum og þorpum andlega menntun með reglubundnum hætti og aukin áhrif
kennsluefnis sem innprentar unglingum tvennskonar siðferðislegan tilgang: að þróa meðfædda
getu sína og leggja sitt af mörkum til að breyta samfélaginu— allt þetta styrkist mjög af enn
annarri menningarþróun sem hefur víðtækar skírskotanir. Þessi þróun sameiginlegrar vitundar er
merkjanleg í vaxandi notkun orðsins „að fylgja” í samræðum vinanna. Þetta orð fær nýja
merkingu þegar það er tekið inn í sameiginlegan orðaforða bahá’í samfélagsins. Það merkir
mikilvæga styrkingu menningar þar sem lærdómur er aðferðafræðin, sem stuðlar að upplýstri
þátttöku æ fleira fólks í sameiginlegri viðleitni til að beita kenningum Bahá'u'lláh á uppbyggingu
guðlegrar siðmenningar sem Vörðurinn segir að sé meginhlutverk trúarinnar. Slík nálgun er í
mikilli mótsögn við andlega gjaldþrota og dauðvona aðferðir gamallar þjóðfélagsskipunar sem
svo oft reynir að virkja mannlega orku með yfirdrottnun, græðgi, sektarkennd eða
baktjaldamakki.
Í tengslum vinanna kemur þessi menningarþróun fram í gæðum samskiptanna þeirra á milli.
Lærdómur sem aðferðafræði krefst þess að allir sýni auðmýkt. Þá gleymir maðurinn sjálfum sér,
setur allt sitt traust á Guð, treystir á allsráðandi vald hans og er fullviss um óbrigðula aðstoð hans
vitandi að Hann og aðeins Hann getur breytt smáflugunni í örn, dropanum í takmarkalaust haf.
Og í slíku ástandi starfa sálirnar stöðugt saman og fyllast frekar gleði yfir framförum og þjónustu
annarra en sínum eigin verkum. Þannig beinast hugsanir þeirra ævinlega að því að aðstoða hverja
aðra við ná sífellt hærri hæðum þjónustu við málstað hans og svífa í heiði þekkingar hans. Þetta
er það sem við sjáum í núverandi starfsmynstri sem er að ljúkast upp um allan heim, undir umsjá
ungra sem aldinna, nýgræðinganna og hinna gamalreyndu sem starfa hlið við hlið.
Þessi þróun menningar hefur ekki aðeins áhrif á tengsl milli einstaklinga – áhrifanna verður
einnig vart í stjórnun málefna trúarinnar. Þar sem lærdómshugarfar er farið að einkenna
starfshætti samfélagsins, hafa vissar hliðar ákvarðanatöku sem tengjast útbreiðslu og styrkingu
verið færðar í hendur almennra átrúenda, sem gerir það að verkum að skipulagning og
framkvæmd tekur meira mið af raunverulegum aðstæðum. Umdæmissamkomur hafa verið
skapaðar sem sérstakur vettvangur fyrir þá sem taka þátt í verkefnum á umdæmissviði til að
koma saman öðru hvoru og taka ráð saman um stöðu mála í ljósi reynslu og leiðsagnar
stofnananna og til að ákveða næstu skref. Þjálfunarstofnunin hefur opnað svipaðan vettvang í því
skyni að þeir sem þjóna sem leiðbeinendur, barnakennarar og hvetjarar í unglingahópum í
umdæmi geti komið saman og haft samráð um reynslu sína. Nátengt þessu grasrótarsamráðsferli
er þjálfunarstofnunin og umdæmisnefndin ásamt aðstoðarráðgjöfunum sem í samskiptum sínum
skapa annað vettvang þar sem ákvarðanir varðandi vöxt eru teknar - í þessu tilviki á formlegri
hátt. Starf þessa kerfis á umdæmissviði er sprottið af aðkallandi málefnum og sýnir mikilvæg
einkenni bahá'í stjórnskipunar: Líkt og lífvera hefur hún innbyggða hæfni til að finna lausn á
stöðugt flóknari starfsemi sem varða inniviði og ferli, tengsl og verksvið þegar hún þróast undir
leiðsögn Allsherjarhúss réttvísinnar.
Að stofnanir trúarinnar á öllum stigum – frá hinum svæðisbundnu til þjóðar- og álfuráða – ráði
við þennan stöðugt flóknari veruleika af sífellt meiri skarpskyggni er nauðsyn og jafnframt tákn
um stöðugan þroska þeirra. Tengsl sem þróast innan stjórnskipulagsins hafa gert það að verkum
að andlegu svæðisráðin eru að nálgast nýtt stig hvað varðar ábyrgð þeirra á því að útbreiða orð
Guðs, virkja krafta átrúendanna og móta umhverfi sem er andlega uppbyggilegt. Við höfum áður
útskýrt að þroska andlegra ráða er ekki hægt að meta á grundvelli reglulegra funda þeirra eða
skilvirkni starfseminnar einnar saman. Frekar ber að meta styrk þeirra að miklu leyti á lífsorku
hins andlega og félagslega lífs samfélagsins sem það þjónar—vaxandi samfélags sem býður
velkomið uppbyggilegt framlag þeirra sem eru formlega skráð í samfélagið jafnt sem þeirra sem
ekki eru það. Það er ánægjulegt að sjá að núverandi nálgun, aðferðir og tæki eru að opna
svæðisráðunum, jafnvel hinum nýmynduðu, leiðir til að uppfylla þessa ábyrgð þegar þau hefjast
handa um að tryggja að þörfum fimm ára áætlunarinnar sé mætt á fullnægjandi hátt á svæðum
þeirra. Rétt og eðlileg þátttaka ráðsins í áætluninni er að sönnu nauðsynleg öllum tilraunum til að
ná til stærri hópa – en það er í sjálfu sér forsendan fyrir að allir kraftar þess og hæfni geti komið í
ljós.
Það er vaxandi styrkur andlegu þjóðarráðanna sem gerir þá þróun mögulega sem við munum
örugglega sjá hjá andlegu svæðisráðunum á næstu árum. Hæfni þjóðarráðanna til að hugsa og
framkvæma á stefnumótandi hátt hefur greinilega aukist, sérstaklega þegar þau hafa lært að
greina samfélags- uppbyggingarferlið í grasrótinni á gleggri og skilvirkari hátt og veita því
aðstoð, fjármagn, uppörfun og ástríka leiðsögn eins og þörf er á. Í löndum þar sem aðstæður
krefjast þess hafa þau flutt nokkuð af ábyrgð sinni yfir til landshlutaráða,dreift þannig ábyrgðinni
af vissum stjórnsýslustörfum, aukið hæfni stofnana í lögsögu þeirra og stuðlað að þróaðri
samskiptum og víxlverkun. Það eru engar ýkjur að full þátttaka þjóðarráðanna hafði úrslitaáhrif á
lokaátakið til að ná markmiðum yfirstandandi áætlunar og við vonumst til að sjá frekari þróun í
þessa átt þegar þau í samráði við álfuráðgjafana gera stórátak á þeim mikilvægu og hraðfleygu
mánuðum sem fara í hönd til að undirbúa samfélög sín fyrir verkefni næstu fimm ára.
Það er engin spurning að þróun stofnunar álfuráðgjafanna er eitt af þýðingarmestu
framfaraskrefum sem voru stigin í bahá’í stjórnskipulaginu á síðasta áratug. Sú stofnun hafði
þegar náð framúrskarandi árangri þegar álfuráðgjafarnir og aðstoðarráðgjafarnir komu saman í
janúar 2001 í landinu helga á ráðstefnu í tilefni þess að alþjóðlega kennslumiðstöðin fékk aðsetur
til frambúðar á Karmelfjalli. Enginn efi er á því að orkan sem leystist úr læðingi við það tilefni
hefur knúið stofnunina hratt áfram. Þau áhrif sem álfuráðgjafarnir og aðstoðarráðgjafar þeirra
hafa haft á þróun áætlunarinnar sýnir að þeir hafa tekið sér sína réttu stöðu í framvarðarsveitinni
á vettvangi kennslunnar. Við erum vissir um að á næstu árum munu stofnanir stjórnskipulagsins
tengjast nánari samstarfsböndum þegar þær reyna, hver og ein í samræmi við vaxandi starfsemi
sína og ábyrgð, að efla lærdómsferlið sem er orðinn áberandi þáttur í starfsemi samfélagsins—
en slík efling er mest áríðandi í þeim umdæmum þar sem öflugar vaxtaráætlanir eru í gangi.
Opinberun Bahá'u'lláh er mikilfengleg. Hún kallar á djúptækar breytingar ekki aðeins á sviði
einstaklingsins heldur einnig í uppbyggingu þjóðfélagsins. „Er það ekki tilgangur sérhverrar
opinberunar“, segir Hann sjálfur, „að koma til leiðar umbreytingu á allri eðlisgerð mannkynsins,
umbreytingu sem birtast mun bæði hið ytra og hið innra og hafa áhrif á innra líf þess og ytri
aðstæður?“ Það starf sem heldur áfram í öllum heimshornum í dag er síðasta stigið í
áframhaldandi viðleitni bahá'ía til að skapa kjarna þeirrar dýrlegu siðmenningar sem er fólginn í
kenningum hans, en uppbygging slíkrar menningar er óendanlega flókið og risavaxið verkefni og
það mun taka mannkynið átakamiklar aldir að gera hana að veruleika. Það er ekki hægt að stytta
sér leið, engar forskriftir eru til. Aðeins þegar reynt er að fara eftir innsæi opinberunar hans, að
virkja vaxandi þekkingu mannkynsins, beita kenningum hans á vitrænan hátt á líf mannkynsins
og taka ráð saman um þær spurningar sem kunna að vakna mun nauðsynlegur lærdómur fást og
hæfni þróast.
Í þessu langtímaferli hæfnisbyggingar hefur bahá'í samfélagið helgað nær einn og hálfan
áratug því verkefni að kerfisbinda reynslu sína á kennsluvettvanginum. Það hefur lært að opna
ákveðna starfsemi sífellt fleira fólki og halda útbreiðslu og treystingu gangandi. Allir eru
velkomnir í hlýjan faðm samfélagsins og fá endurnærandi skerf af lífgefandi boðskap
Bahá'u'lláh. Ekkert getur veitt meiri gleði en að sál sem þráir sannleikann finni athvarf í virki
mástaðarins og fái styrk frá sameinandi afli sáttmálans. Samt getur sérhver mannvera og allir
hópar einstaklinga hvort sem þeir tilheyra fylgjendum hans eða ekki, fengið innblástur úr
kenningum hans og notið gagns af hverjum þeim gimsteini visku og þekkingar sem hjálpar þeim
að takast á við áskoranir sem við blasa. Vissulega mun siðmenningin sem bíður mannkynsins
ekki nást með viðleitni bahá’í samfélagsins eins saman. Margir hópar og samtök, innblásin þeim
anda heimssamstöðu sem er óbein birting kenningar Bahá'u'lláh um meginreglu einingar
mannkyns, munu leggja sitt af mörkum til þeirrar siðmenningar sem mun spretta úr ólgu og
umróti nútíma þjóðfélags. Það ætti að vera öllum ljóst að hæfnin sem skapast í bahá‘í
samfélaginu í röð heimsvíðra áætlana gerir það sífellt betur í stakk búið til að ljá aðstoð sína við
margvíslegar og ólíkar víddir í uppbyggingu siðmenningar og opnar því ný svið lærdóms.
Í riḍván skilaboðunum 2008 gáfum við í skyn að þegar vinirnir halda áfram að starfa á
umdæmissviði muni þeir sogast æ lengra inn í líf þjóðfélagsins og standa andspænis þeirri
áskorun að færa ferli kerfisbundins lærdóms sem þeir eru uppteknir af inn á víðari svið
mannlegrar reynslu. Fjölþættur vefur samfélagslífs byrjar að myndast í sérhverju umdæmi þegar
sameiginleg tilbeiðsla ásamt umræðum í nánu heimilisumhverfi samtvinnast starfsemi sem veitir
öllum íbúunum andlega menntun—fullorðnum, ungu fólki og börnum. Samfélagsvitund eykst á
eðilegan hátt til dæmis þegar líflegar samræður verða milli foreldra um væntingar barna sinna og
unglingar taka frumkvæði að þjónustuverkefnum. Þegar mannauður í umdæmi er eitt sinn orðinn
nægur og vaxtarmynstrið vel á veg komið geta, og verða, samskipti samfélagsins við þjóðfélagið
að aukast. Á þessum þýðingarmiklu tímamótum í þróun áætlunarinnar þegar svo mörg umdæmi
nálgast slíkt stig virðist rétt og eðlilegt að vinirnir hvarvetna fari að hugleiða eðli þess framlags
sem vaxandi og þróttmikil samfélög þeirra munu leggja fram til efnislegra og andlegra framfara
þjóðfélagsins. Í þessu samhengi reynist vel að beina huganum að tveimur tengdum og
gagnkvæmum sviðum starfseminnar: þátttöku í félagslegum athöfnum og ríkjandi
þjóðfélagsumræðu.
Á síðustu áratugum hefur bahá'í samfélagið öðlast mikla reynslu á þessum tveimur sviðum.
Það eru auðvitað margir bahá’íar sem taka persónulega þátt í félagslegum athöfnum og almennri
umræðu starfa sinna vegna. Fjöldi grasrótarhreyfinga sem eru innblásnar af kenningum
trúarinnar og starfa á svæðis- og þjóðarsviði vinna að þjóðfélags- og efnahagslegri þróun til
gagns fyrir þjóðir sínar. Undirstofnanir andlegra þjóðarráða leggja sitt af mörkum á ýmsan hátt
til að útbreiða hugmyndir sem stuðla að almennri velferð. Á alþjóðasviði vinna stofnanir eins og
Skrifstofa alþjóðlega bahá’í samfélagsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna svipað starf. Að því
marki sem nauðsynlegt er og æskilegt munu vinirnir sem starfa í grasrótinni notfæra sér þessa
reynslu og hæfni þegar þeir bregðast við áhyggjuefnum þjóðfélagsins í kringum þá.
Réttast er að skoða félagslegar athafnir eins og litróf sem spannar allt frá tiltölulega óformlegri
viðleitni einstaklinga eða lítilla hópa vina í takmarkaðan tíma til flókinna og háþróaðra áætlana
um efnahags- og félagslega þróun sem samtök, innblásin af bahá’í trúnni, takast á hendur. Hvað
sem umfangi þeirra líður leitast allar félagslegar athafnir við að beita kenningum og
meginreglum trúarinnar til úrbóta á einhverju sviði í félagslegu eða efnahagslegu lífi manna,
hversu hógvær sem sú viðleitni kann að vera. Slík viðleitni einkennist því af yfirlýstu áformi
þeirra að stuðla að efnislegri hagsæld og andlegri velferð íbúanna. Það er megináhersla bahá’í
kenninga að sú heimsmenning sem blasir við á sjóndeildarhring mannkynsins verði að mótast af
öflugu samhengi milli efnislegra og andlegra þarfa lífsins. Ljóst er að þessi hugsjón felur í sér
sterkar vísbendingar um eðli sérhverrar félagslegrar athafnar sem bahá’íar takast á hendur, hvert
sem umfang hennar eða áhrif eru. Þótt aðstæður breytist frá einu landi til annars og hugsanlega
frá einu umdæmi til annars, og kalli fram ýmiskonar viðleitni af hálfu vinanna, ættu allir að gera
sér grein fyrir ákveðnum grundvallarhugmyndum. Ein þeirra er að þekking er kjarni félagslegrar
tilvistar. Fáfræði sem ekki er reynt að vinna bug á er hörmulegasta mynd kúgunar; hún styrkir
marga múra fordóma sem standa í vegi fyrir þeirri einingu mannkynsins sem í senn er markmið
og starfsregla opinberunar Bahá'u'lláh. Aðgengi að þekkingu er réttur hvers manns og þátttaka í
sköpun hennar, beitingu og útbreiðslu er ábyrgð sem allir verða að axla í því volduga verkefni að
byggja upp farsæla heimssiðmenningu – hver og einn í samræmi við hæfileika sína og getu.
Réttlæti krefst allsherjarþátttöku. Þótt félagslegar athafnir geti falist í að útvega vörur og
þjónustu í einhverri mynd, ætti tilgangur þeirra fyrst og fremst að vera sá að skapa hæfni innan
ákveðins íbúahóps til að taka þátt í að byggja betri heim. Breyting á þjóðfélagsgerðinni er ekki
verkefni sem einn hópur framkvæmir til gagns fyrir einhvern annan. Umfang og flækjustig
félagslegra athafna verður að vera í samræmi við mannauðinn sem er tiltækur í þorpinu eða
hverfinu til að þær nái árangri. Best er því að viðleitnin hefjist með hógværum hætti og vaxi
eðlilega eftir því sem hæfni íbúanna eykst. Hæfni rís auðvitað til nýrra hæða þegar
forgöngumenn félagslegra breytinga læra að beita þáttum í opinberun Bahá'u'lláh og aðferðum
vísinda með áhrifaríkari hætti á sinn eigin félagslega veruleika. Þennan veruleika verða þeir að
reyna að skilja og skynja í samræmi við kenningar hans, sjá í náunga sínum ómetanlega
gimsteina og viðurkenna áhrif hins tvíþætta ferlis sameiningar og upplausnar á hjörtu og huga
jafnt sem þjóðfélagsgerðir.
Virk félagsleg athöfn verður til þess að efla þátttöku í umræðum þjóðfélagsins á sama hátt og
skilningur sem fæst með þátttöku í ákveðnum umræðum getur hjálpað til að skýra hugmyndir
sem móta félagslegar athafnir. Á umdæmissviði getur þátttaka í almennri umræðu jafnt falist í
einfaldri athöfn eins og að kynna bahá’í hugmyndir í hversdagslegu samtali og formlegra starfi
eins og að skrifa greinar og sækja fundi helgaða samfélagslegum málefnum—loftlagsbreytingum
og umhverfi, stjórnsýslu og mannréttindum svo fátt eitt sé nefnt. Það felur einnig í sér
merkingarbær samskipti við borgaralega hópa og svæðissamtök í þorpum og hverfum.
Í þessu sambandi teljum við nauðsynlegt að mæla varnaðarorð: Það er mikilvægt að allir
viðurkenni að gildi þátttöku í félagslegum athöfnum og almennri umræðu má ekki meta á
grundvelli getu til að fjölga skráningum og koma með nýja bahá’ía inn í samfélagið. Þótt
viðleitni á þessum tveimur sviðum, umræðu og athafna, geti vel orðið til þess að það fjölgi í
bahá’í samfélaginu er það ekki markmiðið. Einlægni í þessum efnum er knýjandi nauðsyn. Auk
þess ætti að gæta þess að ýkja ekki bahá’í reynsluna eða draga ótilhlýðilega athygli að átaki sem
er á byrjunarstigi, eins og kennsluverkefni til andlegar eflingar unglinga sem eðlilegast er að
þróist með sínum eigin hraða. Lykilorðið í öllum tilvikum er auðmýkt. Þegar vinirnir láta í ljósi
eldmóð og hrifningu á trúnni ættu þeir að varast að sýna yfirburðatilhneigingu sem vart er
sæmandi í þeirra eigin hópi, hvað þá undir öðrum kringumstæðum.
Þegar við lýsum fyrir ykkur þessum nýju tækifærum sem nú opnast á umdæmissviði erum við
ekki að biðja ykkur að breyta neinu varðandi núverandi stefnu ykkar. Né heldur ætti að ímynda
sér að þessi tækifæri séu nýir valkostir á vettvangi þjónustu sem keppi við útbreiðslu og
treystingarstarfið um takmörkuð fjárráð og orku samfélagsins. Á árinu sem fer í hönd ætti að
halda áfram að styrkja þjálfunarferlið og það mynstur í starfseminni sem það skapar. Kennslan
ætti að vera efst í huga sérhvers átrúanda. Ekki ætti að sækjast eftir frekari þátttöku í lífi
þjóðfélagsins of snemma. Það mun koma eðlilega eftir því sem vinirnir í sérhverju umdæmi
halda áfram að vinna samkvæmt áætluninni í ferli sem felur í sér framkvæmd, íhugun, samráð,
öflun þekkingar og lærdóminum sem af því er dreginn. Þátttaka í lífi þjóðfélagsins mun eflast
þegar hæfni samfélagsins til að hlúa að eigin vexti og viðhalda lífsorku hans eykst smámsaman.
Þessi þátttaka mun fara saman við viðleitnina til að efla og stækka samfélagið í þeim mæli sem
hún nýtir þætti hugmyndarammans sem stýrir yfirstandandi röð heimsáætlana. Og hún mun
stuðla að því að íbúarnir færast nær sýn Bahá'u'lláh á friðsælli og farsælli heimssiðmenningu í
þeim mæli sem þessir þættir eru notaðir á skapandi hátt á nýjum lærdómssviðum.
Kæru vinir: Hversu oft lýsti ekki meistarinn elskaði þeirri von sinni að hjörtu átrúendanna
myndu flóa yfir af ást hver til annars, að þeir myndu ekki virða nein mörk aðskilnaðar heldur líta
á allt mannkynið sem eina fjölskyldu. „Lítið ekki á neina sem framandi,“ er hvatning hans; „lítið
heldur á alla menn sem vini, því að erfitt er að finna ást og einingu ef þér festið sjónir á
framandleika.“ Öll sú þróun sem rakin er hér að ofan er, þegar öll kurl koma til grafar, ekki
annað en allsherjarást sem fæst með valdi heilags anda. Er það ekki ást Guðs sem brennir allar
blæjur framandleika og aðskilnaðar og bindur saman hjörtun í fullkominni einingu? Er það ekki
ást hans sem hvetur ykkur áfram á vettvangi þjónustu og gerir ykkur kleift að sjá í hverri sál
hæfileikann til að þekkja hann og tilbiðja? Eru þið ekki stálsett af þeirri vitneskju að hann þoldi
glaður þjáningafullt líf vegna ástar sinnar á mannkyninu? Lítið innan ykkar eigin raða, á kæra
bahá’í bræður ykkar og systur í Íran. Eru þau ekki dæmi um hugrekki sprottið af ást á Guði og
þrá til að þjóna honum? Ber ekki hæfileiki þeirra til að hefja sig yfir grimmilegustu og bitrustu
ofsóknir vitni um hæfileika milljóna og aftur milljóna af kúguðu fólki í heiminum til að rísa upp
og taka afgerandi þátt til að byggja ríki Guðs á jörðu? Haldið áfram, óbuguð af sundrandi
félagslegum öflum, og færið boðskap Bahá'u'lláh sálum sem bíða í sérhverju borgarhverfi, hverju
sveitaþorpi, í öllum heimshornum, laðið þær að samfélagi hans, samfélagi hins mesta nafns. Þið
hverfið aldrei úr hugum okkur og bænum og við munum halda áfram að biðja hinn almáttuga um
að styrkja ykkur með undursamlegri náð sinni.
- The Universal House of Justice