Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2007

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Fyrsta ár fimm ára áætlunarinnar er hrífandi vitnisburður um þann anda helgunar

sem leitt hefur til þess að fylgjendur Bahá’u’lláh hafa tekið opnum örmum þeim

aðgerðaramma sem settur var fram í skilaboðum okkar frá 27. desember 2005 og

staðfestu þeirra við að örva hópinngönguferlið. Í umdæmum þar sem þessum ramma

hefur verið beitt í fullu samhengi allra þátta eru stöðugar framfarir, bæði með tilliti til

þátttöku átrúendanna og vina þeirra í samfélagslífi og fjölgunar átrúenda þannig að sum

umdæmi tilkynna fjölgun svo hundruðum skiptir á nokkurra mánaða fresti og önnur svo

tugum skiptir. Það sem hefur ráðið úrslitum um þessa þróun er aukin vitund um andlegt

eðli þess sem við erum að gera samfara auknum skilningi á þeim tækjum til

ákvarðanatöku sem markast af megineinkennum áætlunarinnar.

Áður en við settum af stað yfirstandandi röð heimsáætlana með það eina markmið

að örva hópinngönguferlið hafði bahá´í samfélagið gengið í gegnum öran og

umfangsmikinn vöxt víða um heim – vöxt sem ekki reyndist unnt að viðhalda. Vandinn

reyndist ekki sá að fjölga nýjum fylgismönnum í röðum málstaðarins, í það minnsta ekki

meðal þjóðfélagshópa sem reynst hafa móttækilegir, heldur sá að samþætta þá inn í

samfélagslífið og að finna meðal þeirra nægjanlega marga sem vildu helga sig frekari

útbreiðslu. Það var þvílíkt grundvallar-atriði að bahá’í heimurinn tæki þessa áskorun

föstum tökum að við gerðum hana að aðalatriði fjögurra ára áætlunarinnar og hvöttum

andleg þjóðarráð til þess að beina bróðurparti krafta sinna að því að byggja upp getu

stofnana á þessu sviði, með því að koma upp þjálfunar-stofnunum í því augnamiði að efla

mannauðinn. Við bentum á að stöðugt vaxandi hópur átrúenda þyrfti að njóta góðs af

formlegri þjálfunarstarfsemi sem þróuð hefði verið til að miðla þeirri þekkingu og

andlega innsæi, þeirri getu og hæfni, sem þarf til þess að inna af hendi þá þjónustu sem

staðið gæti undir víðtækri útbreiðslu og treystingu.

Þegar við í dag virðum fyrir okkur vinnuaðferðir þeirra umdæma sem komist hafa

á þróttmikið vaxtarstig er ljóst að í öllum þeirra hafa vinirnir haldið áfram að efla

þjálfunar-ferlið samfara því að læra að leysa úr læðingi ört vaxandi kjarna virkra

fylgjenda trúarinnar, að koma á skilvirkri samhæfingu viðleitni þeirra, að samþætta

einstaklingsfrumkvæði og sameiginlegt framtak í árangursríkt mynstur samstilltra

aðgerða, og að byggja undirbúning á lotunum í starfseminni á greiningu á viðeigandi

upplýsingum. Það er hægt að sýna fram á að þau hafa fundið lykilinn að sjálfbærum

vexti, hvað til þarf svo að útbreiðsla og treysting fari hönd í hönd. Slíkur vitnisburður

mun vissulega verða hverjum helguðum átrúanda hvatning til þess að feta áfram

einbeittur þá stigu kerfisbundins náms sem mörkuð hefur verið.

Afrakstur þessa gríðarlega átaks undanfarinna ára hefur ekki einskorðast við þau

umdæmi þar sem nýju lífi hefur á þennan hátt verið hleypt í umfangsmikið útbreiðslu- og

treystingarstarf. Sú leið sem farin var í fjögurra ára áætluninni og síðan í tólf mánaða

áætluninni og fyrri fimm ára áætluninni reyndist gegna lykilhlutverki í því að skapa

aðstæður til þess að viðleitni átrúendanna næði til breiðari hóps fólks, og fá það með í

ýmsa þætti samfélagslífsins. Áhrif þeirrar uppbyggingar sem staðið hefur yfir í áratug á

hæfni hinna þriggja þátttakenda hnattrænu áætlunarinnar er nú víða að koma í ljós.

Hvarvetna var nauðsynlegt að efla skilning á því hvaða öfl knýja eflingu mannauðsins.

Hvarvetna þurftu vinirnir að læra að skilja forsendur varanlegs vaxtar – að örva

kerfisbundið starf og að forðast að láta afvegaleiða sig, að færa tiltekna þætti

ákvarðanatöku til grasrótarinnar og að skapa samfélög sem vita hvert þau stefna, að

hvetja til almennrar þátttöku og að koma til móts við mismunandi þjóðfélagshópa í

starfseminni, einkum börn og ungmenni, framtíðarmálsvara málstaðar Guðs,

uppbyggjendur siðmenningar hans.

Með svo styrka undirstöðu til staðar ætti fyrsta hugsun hvers og eins átrúanda að

beinast að kennslu. Hvort sem þeir sem einstaklingar kenna vinum sínum með því að

bjóða þeim á opin hús og í kjölfarið að taka þátt í grunnþáttunum eða nota grunnþættina

sem megin kennslutæki; hvort sem þeir sem samfélagsheild setja starf með börnum og

táningum á oddinn í upphafi eða beina athyglinni fyrst að eldri kynslóðinni; hvort sem

sameiginlegt framtak þeirra í átakslotum felst í því að fara saman í heimsóknir til

fjölskyldna eða líta reglulega við á heimilum leitenda yfir lengri tíma – eru þetta

ákvarðanir sem einungis verða teknar út frá aðstæðum og möguleikum vinanna og út frá

eðli þeirra þjóðfélagshópa sem þeir eiga samskipti við. Það sem allir verða að gera sér

ljóst, óháð ytri aðstæðum, er annars vegar hrópandi þörf mannkyns sem, svipt andlegri

næringu, sekkur dýpra í örvæntingu og hins vegar hversu knýjandi ábyrgðin að kenna er,

ábyrgð sem hverju og einu okkar hefur verið falin sem meðlimum samfélags hins æðsta

nafns.

Bahá’u’lláh hefur fyrirskipað fylgjendum sínum að kenna málstaðinn. Nú þegar

eru fleiri þúsundir farnar að beita ákvæðum áætlunarinnar af krafti í þeim tilgangi að

leiðbeina sálum að úthafi opinberunar hans. Við horfum fullir eftirvæntingar til þess dags

þegar kennsla verður ríkjandi ástríða í lífi sérhvers átrúanda og eining samfélagsins svo

öflug að þetta ástand upptendrunar fær útrás í óstöðvandi framtaki á vettvangi þjónustu.

Þetta er því einlæg ósk okkar ykkur til handa og bænarefni heitustu bæna okkar við hina

helgu fótskör.

 

Windows / Mac