The Universal House of Justice
Ridván 1998
To the Bahá’ís of the World
Dearly loved Friends,
Nú þegar fjögurra ára áætlunin er hálfnuð, getum við staðfest með fagnandi hjörtum að bahá'í heimssamfélagið er að ryðja nýjar brautir á öflugu stigi í þróun sinni. Fjöldayfirlýsingaferlið, sem það beinir að kröftum sínum, er augsýnilega í réttum farvegi.
Þrennskonar þróun eykur okkur von og bjartsýni. Í fyrsta lagi má nefna þann trausta árangur sem næst hvarvetna þar sem þjálfunarstofnanir eru starfandi. Tugþúsundir einstaklinga hafa á síðustu tveimur árum lokið að minnsta kosti einu námskeiði á slíkum stofnunum. Þau hafa þegar orðið til þess að styrkja mjög trú þeirra, veita þeim meðvitaðri andleg auðkenni og aukið skuldbindingu þeirra gagnvart bahá'í þjónustu. Í öðru lagi hafa eftirtektarverðar breytingar til batnaðar orðið á málum sem lúta að stofnun og endurnýjun andlegra svæðisráða. Ákvörðunin um að þessar stofnanir ætti einungis að mynda á fyrsta degi Ridván og þá fyrst og fremst að frumkvæði samfélaganna, sem þau tilheyra, tók gildi árið 1997. Það kom ekki á óvart að svæðisráðum fækkaði strax um allan heim en sú fækkun var ekki ýkja mikil; raunar fjölgaði svæðisráðum í nokkrum löndum. Þessi árangur er vísbending um að þroski þessara guðlega ákvörðuðu stofnana er í réttum farvegi. Í þriðja lagi eru vinirnir að öðlast nýja fullvissu í kennslunni og það ber umtalsverðan árangur á ýmsum svæðum. Möguleikarnir á stöðugri og sívaxandi inngöngu nýrra átrúenda hafa ætíð verið miklir og við getum sagt með vissu að sú hæfni, sem við verðum að öðlast til að slík fjölgun geti orðið að veruleika, hefur verið þróuð betur og með kerfisbundnari hætti en nokkru sinni fyrr með framkvæmd þessarar áætlunar.
Auk þessara vísbendinga um framfarir gleðjumst við yfir þeim undraverða hraða sem verið hefur á byggingarframkvæmdum á Karmelfjalli og uppfyllingu þeirrar áætlunar sem gerð var fyrir árið sem nú er að ljúka. Strax nú í maí blasir við stofnun þriggja nýrra þjóðarráða - í Sabah, Sarawak og Slóvakíu - og endurstofnun andlegs þjóðarráðs Líberíu. Þar með eru stoðir Allsherjarhúss réttvísinnar orðnar 179 talsins. Er við íhugum hina himnesku hylli sem veitist samfélagi okkar viðurkennum við með djúpu þakklæti staðfestu þeirrar þjónustu sem einstakar hendur málstaðarins, alþjóðlega kennslumiðstöðin, ráðgjafarnir og aðstoðarráðin á öllum meginlöndum hafa innt af hendi. Aukinn styrkur andlegu þjóðarráðanna eykur einnig fullvissu okkar um að miklir sigrar eru í nánd.
Er við virðum fyrir okkur þessa heillavænlegu mynd af framtíðarhorfum samfélagsins greinum við í baksýn glundroða plánetu sem er sjálfri sér sundurþykk. Og er við sjáum þá útbreiddu örvæntingu sem gripið hefur anda mannsins, verður okkur ljóst að á einhverju vitundarstigi er að finna vaxandi skilning meðal þjóða heims á ómótstæðilegri framrás í átt til hnattrænnar einingar og friðar. Þessi vitund vaknar þegar hrífandi framfarir í vísindum og tækni eru í þann veginn að brjóta niður múra milli þjóða. Samt sem áður standa mennirnir í senn ráðvilltir og höggdofa andspænis þessum óreiðukennda veruleika heimsumbyltandi þjáninga og heimsmótandi þróunar. Stormarnir sem næða um þjóðfélagið og streitan sem sem herjar á innviði þess er óskiljanleg öllum nema þeim tiltölulega fáu íbúum plánetunnar sem viðurkenna áform Guðs fyrir þennan dag.
"Ris og fall, samruni og upplausn, skipulag og öngþveiti," þessi tvö ferli sem eru að verki samtímis í heiminum vekja blendnar og mótsagnakenndar tilfinningar í hugum meðbræðra okkar hvarvetna, án þess að þeir geri sér grein fyrir orsökinni. Shoghi Effendi skilgreindi þetta ferli sem tvær hliðar hinnar meiri áætlunar og minni áætlunar Guðs, hina tvo þekktu farvegi fyrir áform hans fyrir mannkynið. Hin meiri áætlun er tengd umbrotum og ógæfu og framkvæmd hennar virðist okkur tilviljunarkennd og óskipuleg, en í rauninni knýr hún mannkynið óhjákvæmilega áfram í átt til einingar og þroska. Verkfæri hennar er að mestu leyti mennirnir sjálfir sem ekki þekkja stefnu hennar og eru jafnvel andsnúnir áformum hennar. Eins og Shoghi Effendi hefur bent á notar hin stærri áætlun Guðs "bæði hina voldugu og vanmáttugu sem peð í heimsmyndunarleik sínum til að uppfylla brýnt áform sitt og koma til leiðar endanlegri stofnun ríkis síns á jörðu." Hröðun þeirra ferla sem hún skapar, knýr áfram þróun sem í augum okkar bahá'ía er tákn um stofnun hins minni friðar með öllum þeim sársauka og þjáningu sem honum er samfara í upphafi. Andstætt því sem gerist um hina meiri áætlun hans, sem starfar með órannsakanlegum hætti, er hin minni áætlun Guðs skýrt afmörkuð, starfar samkvæmt skipulögðum og velþekktum ferlum og það hefur fallið í okkar hlut að hrinda henni í framkvæmd. Endanlegt markmið hennar er hinn mesti friður. Fjögurra ára herferðin, sem nú er hálfnuð, er það stig sem við stöndum á núna í hinni minni áætlun. Það er að uppfyllingu hennar sem við verðum að beina allri athygli okkar og orku.
Stundum getur virst sem atburðarás hinnar meiri áætlunar valdi röskun á hinni minni, en vinirnir hafa fulla ástæðu til að halda stillingu sinni. Því þeir þekkja uppsprettu þeirra síendurteknu umbrota sem eru að verki í heiminum og eins og Vörður okkar orðaði það: "viðurkenna nauðsyn hennar, horfa fullvissaðir á leyndardómsfullt starf hennar, biðja heitt fyrir að lina megi þrautirnar sem hún veldur, vinna á vitrænan hátt að því að draga úr ofsa hennar og sjá með skýrri sýn fram á fyllingu þeirra ógna og vona sem hún hlýtur að vekja."
Jafnvel lausleg skoðun á vettvangi heimsviðburða síðustu ára getur ekki annað en leitt til niðurstaðna sem hafa sérstaka þýðingu fyrir bahá'í áhorfanda. Í háreysti samfélags í upplausn er hægt að greina óyggjandi tilhneigingu til hins minni friðar. Áhugaverð vísbending um þetta eru aukin afskipti Sameinuðu þjóðanna af brýnum og þrálátum heimsvandamálum, með stuðningi voldugra stjórna; þetta má einnig sjá í þeirri staðreynd að heimsleiðtogar hafa, með áhrifamiklum hætti, aðeins á síðustu mánuðum viðurkennt hvað gagnkvæm tengsl allra þjóða á sviði viðskipta og efnahagsmála fela raunverulega í sér. Þetta er ástand sem Shoghi Effendi sá fyrir sem nauðsynlegan þátt í heimi sem sameinast eins og ein lífheild. Sú þróun, sem þó hefur enn meiri þýðingu fyrir bahá'í samfélagið, er að mikill fjöldi fólks er að leita að andlegum sannindum. Allmargar kannanir, sem birtar hafa verið nýlega, hafa verið helgaðar þessu fyrirbrigði. Hugmyndastefnur sem ríktu meiri hluta þessarar aldar hafa gengið sér til húðar; er þær hverfa úr sögunni á lokaárum þessarar aldar eykst hungrið, þrá sálarinnar, eftir merkingu.
Þetta andlega hungur einkennist af eirðarleysi og vaxandi óánægju með siðferðilegt ástand heimsins. Það er einnig augljóst í vaxandi öfgahyggju meðal ýmissa sértrúarhópa og fjölgun nýrra hreyfinga sem koma fram í dulargervi trúarbragða eða reyna að koma í stað þeirra. Hér eru athuganir sem gera okkur kleift að meta víxlverkun þeirra tveggja ferla, sem eru að verki á plánetunni og knúin eru áfram af guðdómlegu afli. Fjölbreytt tækifæri sem forsjónin veitir okkur þannig til að kynna leitandi sálum boðskap Bahá'u'lláh, skapa öflugan vettvang fyrir bahá'í kennarann. Vísbendingarnar um verkefnið sem er framundan eru feikilega uppörvandi.
Vonir okkar, markmið og möguleikar til að sækja fram á við geta orðið að veruleika ef við beinum öllum kröftum okkar að meginmarkmiði hinnar guðlegu áætlunar á núverandi stigi hennar - þ.e.a.s. að koma til leiðar þýðingarmiklum framförum á sviði fjöldayfirlýsinga. Þessari áskorun er hægt að mæta með stöðugri viðleitni sem við höldum til þrautar með þolinmæði. Fjöldayfirlýsingar eru vel innan seilingar samfélags okkar. Óbrigðul trú, bæn, hvatning sálarinnar, guðleg aðstoð - þetta eru meðal höfuðatriðanna í þróun sérhvers bahá'í verkefnis. En raunsæ aðkoma að slíku verkefni, kerfisbundið starf hefur einnig höfuðþýðingu til þess að fjöldayfirlýsingar verði að veruleika. Það er ekki hægt að stytta sér leið í þessu verkefni. Kerfisbundið starf tryggir samfelldni í verkefnavinnslu sem byggir á þaulhugsuðum áætlunum. Almennt séð felur það í sér skipulagningu á öllu sem lýtur að bahá'í þjónustu, hvort sem það er á vettvangi kennslu eða stjórnskipunar, í viðleitni einstaklinga eða hópa. Jafnframt því sem það gefur svigrúm fyrir einstaklingsfrumkvæði og sjálfkrafa viðleitni, felur það í sér nauðsyn þess að vera skýr í hugsun, skipulegur, skilvirkur, stöðugur, yfirvegaður og í jafnvægi. Kerfisbundið starf er nauðsynleg vinnuaðferð sem sprettur af knýjandi þörf til að framkvæma hlutina.
Til að tryggja skipulega þróun samfélagsins, hafa bahá'í stofnanir það verkefni að skipuleggja og viðhalda því verki að þróa mannauðinn og gefa þannig bahá'íum, ungum jafnt sem öldnum, tækifæri til að öðlast þekkingu og hæfni til að stuðla að samfelldum vexti og treystingu samfélagsins. Þjálfunarstofnanir gegna lykilhlutverki í slíkri viðleitni því að þær eru miðstöðvar þar sem mikill fjöldi einstaklinga getur öðlast færni og bætt hæfileika sína til að kenna og stjórna málefnum trúarinnar. Tilvist þeirra undirstrikar mikilvægi þekkingar á trúnni sem uppsprettu afls til að örva líf bahá'í samfélagsins og einstaklinganna sem mynda það.
Staðreyndirnar sem fyrir liggja sýna að fjögurra ára áætlunin virkar þar sem skilningur á kerfisbundnum starfsháttum við nálgun viðfangsefna er fyrir hendi. Þessar sömu staðreyndir sýna að stofnanir trúarinnar hafa í samstarfsviðleitni sinni á þjóðar, héraðs- og svæðisvettvangi gert sér fulla grein fyrir þessu. En meðal einstaklinganna, sem endanlegur árangur áætlunarinnar hvílir á, er þessi skilningur ekki eins skýr. Af þessari ástæðu verðum við að brýna fyrir trúsystkinum okkar, mikilvægi viðleitni þeirra sem einstaklinga á þessari forsendu árangurs í kennslu og öðrum verkefnum.
Þegar þjóðar- og svæðisstofnanir umbreyta áætluninni í skipulögð verkefni, gefa þær meðal annars stefnu, skilgreina markmið, örva viðleitni og veita aðgang að ýmsum nauðsynlegum tækjum og efni sem komið getur kennurum og stjórnendum að gagni. Þetta er auðvitað nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi samfélagsins en það ber engan árangur nema einstakir meðlimir þess taki virkan þátt í starfinu. Þegar sérhver einstaklingur bregst þannig við, verður hann líka að taka meðvitaða ákvörðun um hvað hann eða hún vill gera til að þjóna áætluninni og hvernig, hvar og hvenær hann eða hún ætlar að gera það. Þessi einbeitni gerir einstaklingnum kleift að fylgjast með því hvort verk hans bera árangur og, ef nauðsyn krefur, að breyta um stefnu. Þegar hann venst þessum framgangsmáta kerfisbundinnar viðleitni, gefur það lífi hans merkingu og fyllingu.
Jafnframt þeirri nauðsyn að bregðast við ákalli stofnananna, leggur Bahá'u'lláh einstaklingnum þá heilögu skyldu á herðar að kenna málstað hans og hann lýsir því sem "hinni þakkarverðustu allra gerða." Meðan til eru sálir sem þurfa á upplýsingu að halda, hlýtur þessi skylda vissulega að krefjast stöðugrar vinnu af sérhverjum átrúanda. Þegar einstaklingurinn uppfyllir þessa skyldu ber hann beina ábyrgð gagnvart Bahá'u'lláh. "Hann ætti ekki bíða eftir neinum fyrirmælum," brýnir Shoghi Effendi fyrir okkur, "eða búast við neinni sérstakri uppörvun frá kjörnum fulltrúum samfélagsins, né láta deigan síga gagnvart nokkrum þeim hindrunum sem ættingjar hans eða samborgarar kunna að leggja í veg hans, né heldur skeyta um aðfinnslur gagnrýnenda sinna eða óvina." Ritningar höfunda trúarinnar og Varðarins okkar eru fullar af ráðleggingum og hvatningum sem lúta að hlutverki einstaklingsins í framþróun málstaðarins. Ekkert getur komið í stað þess. Það er því óhjákvæmilegt að við teljum okkur til þess knúna, á þessum sérstöku tímamótum í lífi mannkynsins sem heildar, að beina þeirri hiklausu hvatningu til sérhvers meðlims samfélags okkar að hugleiða þær brýnu þarfir sem blasa við okkur öllum sem hjálparmönnum Abhá fegurðarinnar.
Okkar hlutverk, kæru bræður og systur, er að vera meðvitaðir þátttakendur í miklu sögulegu ferli, sem er einstætt og án samjöfnuðar í sögu þjóðanna. Sem heimssamfélag höfum við fram til þessa náð þeim einstæða og mikilfenglega árangri að vera fulltrúar fyrir allt litróf mannkynsins - þakkað sé ómetanlegum tilkostnaði lífs, viðleitni og fjármuna sem andlegir forfeður okkar lögðu fúslega af mörkum. Ekkert annað samfélag manna getur fullyrt að hafa byggt upp kerfi, sem sannanlega getur sameinað öll Guðs börn í einu hnattrænu skipulagi. Þessi árangur veitir okkur ekki aðeins óviðjafnanlegan styrk heldur setur okkur öllu fremur í óhjákvæmilega ábyrgðarstöðu. Höfum við ekki, hvert og eitt, guðdómlega skyldu að uppfylla, heilaga skyldu að rækja gagnvart öllum sem ekki hafa enn fengið vitneskju um kall nýjasta opinberanda Guðs? Tíminn stansar ekki, hann dokar ekki við. Með hverri stund sem líður gengur ný þjáningaraun yfir örvilnað mannkyn. Getum við leyft okkur að tefja? Eftir aðeins tvö ár lýkur fjögurra ára áætluninni, aðeins nokkrum mánuðum fyrir lok ógleymanlegrar aldar. Þannig blasir við okkur tvöfalt stefnumót við forlögin. Er Meistarinn elskaði bar lof á einstæða möguleika tuttugustu aldarinnar, fullyrti hann að þessi öld myndi skilja eftir sig ummerki sem myndu vara að eilífu. Er árvökull fylgjandi hinnar blessuðu fegurðar stendur andspænis slíkri sýn, hljóta að vakna brennandi spurningar í huga hans um hvaða þátt hann eða hún getur átt á þessum fáu svipulu árum og hvort hún eða hann muni, við lok þessa frjóa tímabils, skilja eftir sig einhvern vott þeirra varanlegu ummerkja sem hugur Meistarans skynjaði. Til að tryggja svar sem fullnægir sálinni er eitt nauðsynlegt framar öllu öðru: að starfa, að starfa núna og að halda áfram að starfa. Hjartans bæn okkar allra við hina helgu fótskör er að okkur megi hlotnast guðleg aðstoð og ríkuleg staðfesting í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, til að uppfylla brýn markmið hinnar guðlegu áætlunar á svo örlagaríkri stund í sögu mannkynsins.
- The Universal House of Justice