Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2000

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Við lútum höfði í þökk til Drottins herskaranna, með hjörtun full af gleði, er við berum vitni þeim

frábæru framförum sem orðið hafa á þeim fjórum árum síðan að þessari hnattvíðu áætlun, sem

lýkur á þessari hátíð ljómans, var hrundið úr vör. Svo greinileg eru framfarasporin sem stigin hafa

verið á þessum tíma, að heimssamfélag okkar hefur náð hæðum þaðan sem glöggt sést bjarma fyrir

nýjum sjónarhringjum framtíðarþrekvirkja.

Hin mælanlegu framfaraspor áttu fyrst og fremst rót að rekja til framfara á gæðasviðinu. Menning

bahá’í samfélagsins breyttist. Breytinguna má greina í aukinni hæfni, kerfisbundnu starfsmynstri og

dýpra sjálfstrausti sem af því hlaust á meðal hinna þriggja þátttakenda áætlunarinnar -

einstaklinganna, stofnananna og svæðissamfélaganna. Þetta hefur gerst vegna þess að vinirnir gerðu

sér meira far um að dýpka þekkingu sína á hinum guðlegu kenningum; þeir lærðu mikið, með

skipulagðari hætti en fyrr, hvernig þeir eiga að beita sér þegar þeir vinna að útbreiðslu málstaðarins,

skipuleggja einstaklings- og hópverkefni og starfa með meðbræðrum sínum. Þetta var í einu orði

sagt lærdómsferli sem ól af sér markvissa framkvæmd. Aðalhreyfiafl þessara breytinga var kerfi

þjálfunarstofnana, sem settar voru á fót með miklum hraða víða um heim. Hér er um að ræða afrek

á sviði útbreiðslu og treystingar sem líta verður á sem veigamestu einstöku arfleifð fjögurra ára

áætlunarinnar.

Kerfi þjálfunarstofnana sýndi í öllu tilliti hve ómissandi það er sem hreyfiafl í hópinngönguferlinu.

Þetta birtist í aukinni getu einstaklinga til að kenna trúna eins og kraftur frumkvæðis af hálfu

einstaklinga hefur sannað, í meiri getu andlegra ráða og nefnda til að taka forystu í viðleitni

vinanna og með tilkomu nýs mynsturs í hugsun og starfsemi sem hafði áhrif á sameiginlega hegðun

svæðissamfélagsins. Með því að færa út starfsemi sína og efna til svæðisbundinna námshringja juku

margar þjálfunarstofnanir hæfni sína til að ná til stærri svæða með námskerfum sínum. Í Mongólíu

var t.d. komið á fót 106 námshringjum og þetta hafði þau áhrif að fjöldi nýrra átrúenda jókst

verulega. Samtímis beindu meðlimir heimsvíðs samfélags okkar athygli sinni í meira mæli að því

að sækja sér styrk til bænaraflsins, hugleiðslu hins heilaga orðs og að því að öðlast þá andlegu

blessun sem fylgir þátttöku í tilbeiðslusamkomum. Það er fyrir tilstuðlan þessara þátta í aukinni

umbreytingu einstaklinga og samfélags sem samfélagið stækkar. Þótt fjöldi nýrra átrúenda hafi enn

sem komið er aðeins að litlu leyti farið fram úr því sem gerst hefur á síðustu árum, er einstaklega

ánægjulegt að sjá að þessi fjölgun er núna landfræðilega dreifð, nær til sífellt stærri hluta

samfélagsins og virkjar nýja átrúendur í lífi málstaðarins með góðum árangri.

Svo heillavænlegum aðstæðum og björtum horfum fyrir trúna er að miklu leyti einnig að þakka

ómetanlegri ráðgjöf, samvinnu og hagnýtu starfi álfuráðgjafanna. Starfsvið þeirra var rýmkað hvað

varðar myndun og starfsemi þjálfunarstofnanna, en sú rýmkun endurspeglaði tímabæra örvun sem

lifandi og árvökul alþjóðakennslumiðstöð veitti.

Grunnstef fjögurra ára áætlunarinnar - þróun hópinngönguferlisins – leiddi til mikillar samhæfingar

hugsunnar og starfsemi. Hún beindi athyglinni að meiriháttar áfanga í þróun bahá’í samfélagsins

sem verður að ná á mótunaröldinni; því réttar aðstæður fyrir fjöldayfirlýsingar, þeim tímamótum

sem Shoghi Effendi heitir í ritum sínum, skapast ekki fyrr en tekist hefur að viðhalda hópinngöngu.

Þematískt áhersluatriði áætlunarinnar hafði þýðingu fyrir öll svið bahá’í starfsemi; það kallaði á

skýran skilning sem gerði mögulega kerfisbundna og þaulskipulagða áætlanagerð sem forsendu

starfsemi einstaklinga og hópa. Meðlimir samfélagsins lærðu smám saman að meta hvernig

skipulagning gæti auðveldað ferli vaxtar og þroska. Þessi aukna vitund var gríðarlegt skref sem

leiddi til bættrar kennslustarfsemi og breytingar á menningu samfélagsins.

Þeir þættir áhersluatriðisins sem snúa að samhæfingu komu skýrt fram í viðleitni til skipulagningar,

uppbyggingar á hæfni stofnananna og þróunnar mannauðsins. Þráðinn sem tengdi allt þetta má

rekja frá upphafi áætlunarinnar til loka hennar. Ráðstefna álfuráðanna í landinu helga í desember

1995 markaði byrjunina. Þar var ráðgjöfunum gerð grein fyrir ýmsum þáttum áætlunarinnar og í

kjölfar hennar áttu þeir samráð með andlegum þjóðarráðum þar sem gerðar voru áætlanir á

þjóðlegu sviði en þær voru síðan yfirfærðar á svæðissviðið með þátttöku aðstoðarráðgjafa, andlegra

svæðisráða og nefnda. Þannig samtvinnuðust allir þættir bahá’í stjórnskipulagsins í gerð áætlana

uns þær komust á framkvæmdastig. Að því búnu varð að skapa hæfni á meðal stofnananna til að

takast á við inngöngu í hópum. Tvö stór skref voru stigin í þessu tilliti: eitt var myndun

þjálfunarstofnana, hitt var formleg stofnun bahá’í umdæmisráða og útbreidd kynning á þeim en þau

eru þáttur í stjórnskipulaginu á milli svæðis- og þjóðarstigsins og þjóna þeim tilgangi að styrkja

stjórnskipulagshæfni vissra samfélaga þar sem margslungin málefni sem lúta að andlegu

þjóðarráðunum útheimta slíka þróun. Gerð skilgreindra framkvæmdaáætlana vegna starfsemi á

sviði félagslegrar og efnahagslegrar þróunnar, sem er úrslitaráðandi atriði í treystingu, og á sviði

ytri samskipta, sem er mikilvægur þáttur í að gera trúnni kleyft að hafa stjórn á afleiðingum aukins

sýnileika, hafði jafnmikið vægi fyrir samþættingu aðalatriða hópinngönguferlisins. Að öllu

meðtöldu var starfið árangursríkt og er ógjörlegt að telja upp alla þætti þess á þessum síðum. Okkur

langar þó til að segja frá vissum hápunktum sem sýna fram á umfang þess árangurs sem náðist í

áætluninni.

Í landinu helga var uppbyggingu stallanna og framkvæmdum við byggingarnar á Boganum haldið

áfram með fullri vissu um að staðið yrði við yfirlýstan lokafrágangseindaga þeirra í enda þessa

gregoríska árs. Auk þess verður byggingin í Haifa, sem við nefndum í síðasta Ridvánboðskap okkar

í tengslum við fjölgun í pílagrímahópunum, tilbúin til notkunar frá og með Ridván á þessu ári.

Samtímis voru áætlanir arkitekta um nauðsynlega aðstöðu, sem koma þarf upp í Bahjí til að hýsa

pílagríma og aðra bahá’í og ei-bahá’í gesti, samþykktar. Þýðingu textanna fyrir nýtt bindi af

ritningum Bahá’u’lláh er lokið og er undirbúningur að útgáfu þess hafinn.

Sýnilegur skriður komst á útbreyðslu og treystingu á öðrum sviðum en þeim sem þegar hafa verið

nefnd. Má þar nefna brautruðning, kynningu, útgáfu bókmennta, beitingu listrænnar tjáningar,

myndun andlegra ráða og framfarir á meðal samtaka um bahá’í fræði. Um 3300 átrúendur fóru í

skammtíma- eða langtímabrautruðning. Það er enn til marks um aukinn þroska þjóðarsamfélaganna

að mörg lönd sem venjulega hafa þurft á brautryðjendum að halda eru sjálf að senda frá sér

brautryðjendur. Meðlimir kanadíska og bandaríska samfélagsins, trúir þeim fyrirmælum sem til

þeirra var beint, hafa skarað fram úr hvað varðar fjölda brautryðjenda og langtum meiri fjölgun

ferðakennara, en á meðal þeirra var dágóður fjöldi ungmenna. Sérstaklega eftirtektarverð voru

einnig hlý viðbrögð átrúenda af afrískum uppruna í Bandaríkjunum við því kalli sem útgekk um að

bahá’í kennarar ferðuðust til Afríku.

Kynning málstaðarins fól í sér ýmsa starfsemi þar sem staðið var fyrir fjölbreyttum viðburðum, s.s.

hátíðahöldum, minningarathöfnum, hópumræðum, sýningum og öðru slíku, sem gerðu fjölda fólks

kleift að kynnast kenningum trúarinnar. Musterin drógu að sér gesti í vaxandi mæli, einkum á

Indlandi þar sem tekið var á móti fimm milljón gestum á síðasta ári. Til viðbótar þessu voru

fjölmiðlar notaðir með margvíslegum hætti til að koma bahá’í boðskapnum á framfæri. Í

Bandaríkjunum brugðust um 60.000 manns við fjölmiðlaherferð sem Landskennslunefndin

skipulagði. Um allan heim breiddist þekking á trúnni út með auknum fjölda jákvæðri greina sem

birtust í dagblöðum og tímaritum að frumkvæði þeirra sjálfra. Svipuð þróun í átt til breiðari

kynningar varð hjá útvarps- og sjónvarpsstöðvum, sem sýndu áhuga á að hafa reglulegt bahá’í efni í

dagskrá sinni; þetta gerðist í löndum eins og Kongó-lýðveldingu og Líberíu. Þessi heillavænlega

þróun náði hámarki þegar alþjóðlegar fjölmiðlastofnanir ákváðu, að eigin frumkvæði, að nota

grafhýsi Bábsins og stallana sem bakgrunn fyrir sjónvarpsútsendingar þegar Landið helga fagnaði

komu ársins 2000.

Listræn tjáning varð mikilvægur þáttur í starfsemi heimssamfélagsins á sviði kynningar, kennslu,

dýpkunar og tilbeiðslu. Listgreinar löðuðu að sér ungt fólk sem beitti þeim í kennslu- og

dýpkunarstarfi sínu aðallega með fjölda leikhópa og listasmiðja sem störfuðu víða um heim. En

hreyfiafl listarinnar náði síður en svo aðeins til söngs og dans. Það fól einnig í sér hugmyndaríka

starfsemi sem grundvallaði fólk í trúnni. Þar sem alþýðulist var notuð, þá sérstaklega í Afríku,

styrktist kennslustarfið mjög. Ghana og Líbería gengust t.d. fyrir verkefninu „Ljós einingar“ sem

miðar að því efla listræna tjáningu í kennslu. Á Indlandi vann „Communal Harmony Group“ að

svipuðu markmiði.

Þýðing og útgáfa bahá’í bókmennta var örvuð, sérstaklega í Afríku og á Indlandi, að mestu vegna

hvatningar ráðgjafanna og með stuðningi álfusjóðsins. Auk þess var Kitáb-i-Aqdas gefin út í

heildstæðri arabískri útgáfu og á öðrum tungumálum.

Takmarkanir á myndun andlegra svæðisráða á fyrsta degi Ridván tóku gildi árið 1997 og leiddu til

fyrirsjáanlegrar fækkunnar þessara stofnana, en samdrátturinn var ekki verulegur. Fjöldinn hefur

síðan haldið sér og traust styrkingarferli er í gangi. Sjö nýjar stoðir Allsherjarhúss réttvísinnar voru

reistar og fjöldi andlegra þjóðarráða er nú 181.

Á þessum fjórum árum hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá aukna áhersla lagða á bahá’í

fræðimennsku, sem hefur rutt sér til rúms til gagns fyrir það bráðnauðsynlega verkefni að styrkja

vitsmunalegar stoðir í starfi trúarinnar. Tvennskonar ómetanlegur árangur hefur náðst: áhrifamikið

framlag til bahá’í bókmennta og útgáfa ritgerða um ýmis samtímavandamál í ljósi bahá’í

kenninganna. Bahá’í fræðasamtakakeðjan sem heldur í ár upp á aldarfjórðungsafmæli sitt fagnaði

stofnun fimm nýrra deilda meðan á áætluninni stóð. Sem dæmi um fjölbreytileika og sköpunargleði

sem finnur farveg á þessum starfsvettvangi var fyrsta ráðstefnan í bahá’í fræðum á Papúa Nýju

Gíneu og einnig má nefna brautryðjendastarf japönsku samtakanna varðandi rannsóknir á andlegum

uppruna hefðbundinnar japanskarar fræðimennsku.

Framfarir á sviði félagslegrar og efnahagslegrar þróunar voru vissulega til marks um aukin gæði

þótt tölurnar sem sýna fjölgun verkefna séu einnig tilkomumiklar. Árlegum verkefnum fjölgaði úr

um 1600 í byrjun áætlunarinnar í meira en 1900 þegar dró að lokum hennar. Þróun í átt til

kerfisbundnari nálgunar var ríkjandi einkenni starfseminnar á þessum tíma. Til að stuðla að samráði

um kenningarnar um félagslega og efnahagslega þróun og framkvæmd þeirra, gekkst skrifstofa

félagslegrar og efnahagslegrar þróunar við bahá’í heimsmiðstöðina fyrir 13

landssvæðanámskeiðum sem u.þ.b. 700 fulltrúar frá 60 löndum tóku þátt í. Þessi skrifstofa sá einnig

um gerð tilraunaverkefna og námsefnis sem hæfði skipulögðum herferðum til að stuðla að læsi,

eflingu ungmenna, þjálfun sjálfboðaliða á sviði heilbrigðismála, framsókn kvenna og siðferðilegu

uppeldi. Dæmi um þetta var áætlun í Guyana þar sem meira en 1500 leiðbeinendur á sviði læsis

fengu þjálfun. Annað dæmi má nefna frá Malasíu, en þar var lokið verkefni í átta þrepum til að

stuðla að framsókn kvenna, sem varð grundvöllur þjálfunarbúða í Afríku, Asíu og rómönsku

Ameríku. Áætlun um að láta bahá’í útvarpsstöðvar taka þátt í starfsemi þjálfunarstofnana var hafin

í Guaymi héraði Panama. Þar sem þjálfunarstofnanir geta einnig séð um þjálfun á sviði félagslegrar

og efnahagslegrar þróunar, eru tólf þeirra að gera tilraunir með verkefni á sviði læsis, þjálfunnar

sjálfboðaliða á heilbrigðissviði og verknámsþjálfunnar. Mörg samtök sem styrkt eru af bahá’í

stofnunum eða sem hafa hlotið innblástur frá bahá’í kenningunum, hafa helgað orku sína

verkefnum eins og því sem felur í sér samstarf við Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO) um

baráttu gegn fljótablindu í Kamerún. Meira en 30.000 einstaklingar hafa fengið nauðsynleg lyf fyrir

atbeina þessa bahá’í verkefnis. Annað dæmi er Einingarháskólinn (Unity College), sem er

einkaháskóli í Eþíópíu, en nemendur hans eru nú um 8000 talsins. Enn annað dæmi er Landegg

menntastofnunin í Sviss sem veitti mjög vel þegna hjálp í tilraunum til að ráða bót á skelfilegum

þjóðfélagslegum afleiðingum átakanna á Balkanskaga um leið og hún stóð fyrir útvíkkun og

treystingu akademískrar námsskrár sinnar. Enn annað dæmi er Núr háskólinn í Bólivíu sem í

samvinnu við Ekvador, bauð meira en 1000 skólakennurum upp á þjálfun samkvæmt námskrá sinni

í siðferðisforrystu. Á þessum vettvangi félagslegrar og efnahagslegrar þróunar eru slíkir

vitnisburðir um hæfnisuppbyggingu til mikils gagns fyrir markmið áætlunarinnar.

Með stefnumörkunina um ytri samskipti að leiðarljósi, sem andlegu þjóðarráðunum var send árið

1994, hefur hæfni samfélagsins á sviði erindreksturs og almannatengsla einnig vaxið á undraverðan

hátt og komið bahá’í samfélaginu í virka snertingu við Sameinuðu þjóðirnar, ríkisstjórnir,

grasrótarsamtök (NGO’s) og fjölmiðla. Stefnumörkunin beindi starfseminni á alþjóðlegu og

þjóðlegu sviði að tveimur lykilmarkmiðum: að hafa áhrif á heimsfriðarferlið og verja trúna. Með

aðferðum sem teknar voru upp til varnar ástkærum trúsystkinum í Íran, ávann alþjóðlega bahá’í

samfélagið sér aukna virðingu og stuðning sem skapaði tækifæri til að framfylgja öðrum

markmiðum áætlunarinnar. Til að mæta ógnum hins erfiða ástands í Íran fundu stofnanir okkar og

skrifstofur á sviði ytri samskipta nýjar leiðir til að að virkja stjórntæki ríkisstjórna og Sameinuðu

þjóðanna. Ofsóknirnar í Íran vöktu athygli æðstu yfirvalda á plánetunni. Fréttirnir um að íranskur

dómstóll hefði staðfest dauðadóma yfir tveimur vinanna og kveðið upp svipaðan dóm yfir þeim

þriðja vakti hörð viðbrögð forseta Bandaríkjanna sem gaf út skýra viðvörun til Írans. Afleiðingin af

íhlutun heimsleiðtoga og Sameinuðu þjóðanna var sú að aftökum á írönskum bahá’íum var nánast

hætt og jafnframt minnkaði verulega fjöldi þeirra sem dæmdur var til langrar fangelsisvistar.

Á sama tíma og við fögnum þessari íhlutun, lofum við sjálfsfórnaranda, hugprýði og óhagganlega

trú bræðra okkar og systra í Íran sem hafa gætt slíka viðleitni getumagni. Þessir augljósu eiginleikar

sálarinnar vekja furðu samlanda þeirra, sem undrast það úthald sem þeir sýna andspænis þeim

árásum sem svo grimmilega og vægðarlaust er beint gegn þeim. Hvernig er öðruvísi hægt að

útskýra hversu lengi svo fáum hafi verið megnugt að bjóða svo mörgum birginn. Hvernig gætu þeir

annars hafa vakið raunverulegar áhyggjur heimsins, jafnvel þegar aðeins einum þeirra var hótað

lífláti? Harmleikur Írans er sá að árásarmönnunum hefur fram að þessu láðst að skilja að þær

himnesku kenningar sem þetta ofsótta fólk hefur fórnað fyrir eigum sínum og jafnvel lífi fela í sér

lausnina sem myndi fullnægja þrá þjóðar á óánægjutímum. En alls enginn vafi getur leikið á því að

sú kerfisbunda harðstjórn sem íranskir vinir okkar hafa verið beittir svo grimmilega mun að lokum

láta undan því almáttuga valdi sem stjórnar hinni leyndardómsfullu ferð þeirra í átt að sínum

fyrirheitnu örlögum í allri sinni dýrð.

Hvað varðar fyrra markmið stefnumörkunarinnar á sviði ytri samskipta byggðist starfsáætlunin á

fjórum þáttum - mannréttindum, stöðu kvenna, hnattrænni hagsæld og siðferðilegri þróun. Skýrslur

okkar sýna stór skref fram á við varðandi mannréttindi og stöðu kvenna. Hvað hið fyrra áhrærir,

fylgdi skrifstofan hjá SÞ hugvitssamri áætlun um uppfræðslu í mannréttindamálum sem fram til

þessa hefur aukið hæfni ekki færri en 99 andlegra þjóðarráða til erindreksturs. Varðandi seinna

atriðið má sjá af tilvist 52 þjóðarskrifstofa fyrir framsókn kvenna, framlögum fjölmargra bahá’í

kvenna og karla á ráðstefnum og starfshópum á öllum stigum, vali á bahá’í fulltrúum í lykilstöður í

mikilvægum nefndum grasrótarsamtaka, þar með talinni þeirri sem þjónar þróunarsjóði SÞ fyrir

konur, hve fylgjendur Bahá’u’lláh hafa verið iðnir við að útbreiða kenningu hans um jafnrétti karla

og kvenna.

Samtímis er í gangi margs konar framtak sem stuðlar að því að dreifa upplýsingum um bahá’í trúna

til ýmissa þjóðfélagshópa. Má þar nefna nýstárlegt verkefni á borð við „The Bahá’í World“

netsíðuna sem fær um 25.000 heimsóknir á mánuði, útgáfu yfirlýsingar sem ber heitið: „Hver

semur framtíðina?“ (Who is Writing the Future) sem hjálpar vinunum hvarvetna til að ræða

samtímamálefni; útvarpið „Payam-e-Doost“ sem hefur starfað síðan í nóvember á alnetinu og

útvarpar dagskrá á pernesku í eina klst á viku á stórborgarsvæðinu í Washington D.C. og ætíð er

hægt að ná útsendingum hennar um allan heim á alnetinu. Einnig má nefna gerð mjög frumlegs

sjónvarpsþáttar þar sem siðferðilegum kenningum er beitt við lausn á hversdagslegum vandamálum

en þeir hafa fengið hlýjar móttökur yfirvalda í Albaníu, Bosníu-Herzegóvínu, Búlgaríu, Króatíu,

Ungverjalandi, Rúmeníu, Slóveníu, og fyrrverandi júgóslavíulýðveldinu Makedóníu.

Fyrirbæri nokkuð hefur eflst og styrkst eftir því nær dregur aldamótunum en það er að íbúar jarðar

hafa risið upp til að að tjá vonir sínar á vettvangi sem þekktur er undir nafninu „frjáls

félagasamtök“ (organizations of civil society). Það hlýtur að vera mikið ánægjuefni fyrir bahá’ía

allstaðar að Alþjóðlega bahá’í samfélagið, sem grasrótarsamtök sem stendur fyrir þverskurð

mannkyns, hefur áunnið sér slíkt traust sem sameinandi afl í stórmikilvægum umræðum sem móta

framtíð mannkynsins. Aðalfulltrúi okkar við SÞ var skipaður formaður nefndar ópólitískra samtaka,

sem útnefnd var af Efnahags- og félagsmálaráði samtakanna (Economic and Social Counsil), en

þessi staða veitir Alþjóðlega bahá’í samfélaginu leiðandi hlutverk í skipulagningu

árþúsundaráðstefnunnar. Þessi ráðstefna, sem framkvæmdastjóri SÞ, Kofi Annan, hefur boðað til

og haldin verður í maí mun gefa frjálsum félagasamtökum tækifæri til að koma á framfæri

skoðunum og tillögum um hnattræn málefni sem síðan verða tekin upp á leiðtogafundinum sem

verður haldinn í september nk. í tilefni árþúsundamótanna og sóttur verður af leiðtogum ríkja og

ríkisstjórna.

Það að mannkynið er að vakna til meðvitundar um andlegar víddir breytinganna sem eru að verða í

heiminum hefur sérstaka þýðingu fyrir bahá’ía. Samskipti trúarbragðanna hafa aukist. Í fjögurra ára

áætluninni varð trúin í auknum mæli viðurkenndur þáttakandi. Á heimstrúarbragðaþinginu sem

haldið var í Höfðaborg í desember sl. komu um 6000 fundargestir saman og meðal þeirra var öflug

sendinefnd bahá’ía. Bahá’íar þjónuðu bæði á suður-afrísku og alþjóðlegu framkvæmdanefndinni

sem skipulagði viðburðinn. Fyrir bahá’ía var áhuginn á honum fyrst og fremst bundinn við þá

staðreynd að nafn Bahá’u’lláh var fyrst nefnt á almennri ráðstefnu á Vesturlöndum á

heimstrúarbragðaþinginu í Chicago árið 1893. Bahá’íar tóku þátt sem boðsgestir í tveimur

samtrúarlegum viðburðum sem voru haldnir í Jórdaníu í nóvember; ráðstefnu um átök og

trúarbrögð í Miðausturlöndum og árlegum fundi heimsráðstefnunnar um trú og frið. Bahá’í fulltrúar

sóttu viðburði í Páfagarði og Nýju Delhi sem rómversk-kaþólska kirkjan gekkst fyrir; á seinni

viðburðinum, þar sem Jóhannes Páll II páfi var viðstaddur, ávarpaði Zena Sorabjee álfuráðgjafi

fundinn sem einn af fulltrúum trúarbragðanna. Í Bretlandi kom trúin fyrir almenningssjónir þegar

bahá’í fulltrúar tóku höndum saman við átta önnur heimstrúarbrögð í hátíðarhöldum í tilefni

árþúsundamóta í Royal Gallery í Westminster höll. Þar var í áheyrn konungborins fólks,

forsætisráðherra, erkibiskupsins af Kantaraborg og annarra virtra gesta vísað til samfundar "níu

heimstrúarbragða í Bretaveldi." Í Þýskalandi tóku bahá’íar í fyrsta sinn þátt í samtrúarlegum

viðræðum. Þetta breytti langvarandi viðhorfi kristinna söfnuða sem forðuðst samband við trúna

vegna bókar sem sáttmálsbrjótur skrifaði og lútersk útgáfustofnun gaf út árið 1981. Bót var ráðin á

þessu í 600 blaðsíðna andsvari sem þrír bahá’íar rituðu og gefið var út árið 1995 af leiðandi

útgáfufyrirtæki sem ekki er í eigu bahá’ía. Þetta var merkur sigur fyrir þýska bahá’í samfélagið.

Ensk þýðing var gefin út á síðasta ári áætluninarinnar. Samtrúarviðræður tóku á sig óvenjulega

mynd þegar fulltrúar Alþjóðabankans og níu heimstrúarbragða héldu fund í Lambeth höll árið 1998

sem leiddi til myndunar „Þróunarmálþings heimstrúarbragðanna“ (World Faiths’ Development

Dialogue). Yfirlýst markmið þessa málþings er að reyna að brúa bilið milli trúarsamfélaga og

heimsbankans til að gera þeim kleift að vinna betur saman til að sigrast á fátækt í heiminum. Tíðni

og umfang trúarbragðafunda er nýtt fyrirbæri í tengslum trúarbragðanna. Það er augljóst að ýmis

trúarsamfélög eru að reyna að ná þeim anda bræðralags og vináttu sín á milli sem Bahá’u’lláh

hvatti fylgjendur sína til að sýna fylgjendum annarra trúarbragða.

Einbeitt viðleitni bahá’í samfélagsins á þessum fjórum árum kom á tíma þegar hið ytra samfélag

barðist gegn flaumi andstæðra hagsmunamála. Á þessu stutta en gríðarlega frjóa tímabili hafa öflin

sem eru að verki innan bahá’í samfélagsins og um allan heim magnast stig af stigi. Í kjölfar þeirra

birtust greinilegar en nokkru sinni fyrr þau þjóðfélagslegu fyrirbrigði sem Shoghi Effendi sagði til

um. Fyrir meira en sex áratugum vakti hann athygli á „ferli riss og falls, uppbyggingar og

niðurbrots, skipulags og óreiðu, samtímis og með samfelldri og gagnkvæmri virkun beggja þátta“.

Þessu tvíþætta ferli miðaði ekki áfram úr tengslum við sérstök málefni bahá’í samfélagsins heldur

með þeim hætti að boðið var upp á beina íhlutun trúarinnar eins og þegar hefur verið sýnt fram á.

Þau virtust vindast fram eftir sömu tímarás en eftir gagnstæðum hliðum hennar. Annarsvegar kyntu

trúar-, stjórnmála-, kynþátta- og ættflokkaátök undir stríð sem geysuðu á um 40 svæðum, nokkur

lönd lömuðust í kjölfar skyndilegs og algjörs hruns á borgaralegu skipulagi, hermdarverk sem

pólitískt vopn urðu að faraldri og flóðbylgja alþjóðlegra glæpasamtaka vakti ógn. En hinsvegar

voru heiðarlegar tilraunir gerðar til að framkvæma og útfæra leiðir til að stuðla að sameiginlegu

öryggi sem hlýtur að leiða hugann að einu af læknisráðum Bahá’u’lláh til að viðhalda friði. Kall

gekk út um að stofna alþjóðalegan glæpadómstól, enn eitt atriði sem er í samræmi við bahá’í

væntingar. Til að beina athyglinni að hinni knýjandi þörf fyrir fullnægjandi kerfi til að fjalla um

heimsmálefnin ætla leiðtogar heimsins að koma saman á árþúsundaráðstefnu. Nýjar samskiptaleiðir

hafa gert öllum mögulegt hafa samskipti við hvern sem er á plánetunni. Efnahagsleg upplausn í

Asíu ógnaði efnahagslífi heimsins en ól af sér viðleitni til að ráða bót á aðsteðjandi ástandi og finna

leiðir til að koma á sanngirni í alþjóðlegri verslun og fjármálum. Þetta eru aðeins fáein dæmi um

tvær andstæðar en gagnvirkar tilhneigingar sem eru að verki á okkar tímum og staðfesta innblásna

niðurstöðu Shoghi Effendi um öflin sem eru að verki í hinni meiri áætlun Guðs, „sem hefur það

endanlega markmið að sameina mannkynið og koma á friði meðal allra manna“.

Í lok þessara fjögurra viðburðaríku ára erum við komin að stórbrotnum tímamótum sem fela í sér

upphaf og endi í margs konar skilningi er hinn gregoríski tími og bahá’í tímaskeiðið mætast. Í

einum skilningi felur þessi miðpunktur í sér að tuttugustu öldinni er vafið saman og í öðrum að nýtt

svið opnast í framþróun mótunaraldarinnar. Yfirsýnin frá þessum tveimur tímarömmum fær okkur

til að íhuga sjónarspil heimsmótandi strauma sem hafa tengst saman og hugleiða það í tengslum við

innblásna sýn Shoghi Effendis við upphaf framkvæmdanna við Bogann sem hann hannaði. Í

áætluninni tók þessi sýn á sig kristaltæra mynd um leið og byggingarframkvæmdunum á Karmelfjalli

vatt fram, um leið og heimsleiðtogar tóku djörf skref til að leggja grunninn að hnattrænum

pólitískum friði og þegar svæðisbundnar og þjóðlegar bahá’í stofnanir komust á nýtt stig í þróun

sinni. Við berum með okkur helga og varanlega minningu tuttugustu aldarinnar sem færir okkur

aukinn styrk um leið og hún markar okkur stefnu: minninguna um það frjóa andartak í sögu

mannkynsins þegar Miðja sáttmála Bahá’u’lláh, á ferli sem á sér enga hliðstæðu, hannaði

burðargrind nýs heimsskipulags og þegar Vörður trúarinnar, á ógnvænlegum eyðingartímum,

helgaði ítrustu krafta sína því verkefni að reisa innviði stjórnskipulags sem í lok aldarinnar stendur í

augsýn heimsins í heildstæðri meginmynd sinni. Við komum þannig að brú milli tímaskeiða.

Hæfninni sem þróaðist á öld baráttu og fórna af örfáum hugföngnum ástvinum Bahá’u’lláh verður

nú að beita við úrlausn þeirra óumflýjanlegu verkefna sem eru eftir á mótunaröldinni, en hin mörgu

tímabil þrotlauss erfiðis þeirrar aldar munu leiða okkur inn í gullöld trúar okkar þegar hinn mesti

friður mun ríkja á jörðinni.

Á þessari Ridvánhátíð byrjum við nú á tólf mánaða áætlun. Þótt hún sé stutt, verður hún að koma í

framkvæmd vissum bráðnauðsynlegum verkefnum og leggja grundvöllinn að næstu tuttugu ára

framsókn hinnar guðdómlegu áætlunar Meistarans. Það sem hófst svo vandvirknislega fyrir fjórum

árum - kerfisbundin öflun þekkingar, eiginleika og þjónustuhæfni - verður að aukast. Allstaðar þar

þjóðar og héraðsþjálfunarstofnanir eru starfandi verða þær að koma þeim áætlunum og námskerfum

sem þær hafa tekið upp í fullan gang. Nýjar þjálfunarstofnanir verður að stofna þar sem slíkar þarfir

hafa verið skilgreindar. Stærri skref verður að taka til að kerfisbinda kennslustarf bæði á vegum

einstaklinga og í umsjá stofnana. Það er aðallega í þessum tilgangi sem ráðgjafarnir og þjóðarráðin

hafa á allmörgum svæðum á hverju meginlandi komið á laggirnar „áætlunum um svæðisbundinn

vöxt“. Árangur þeirra mun færa okkur reynslu til gagns fyrir áætlanir í framtíðinni.

Einstaklingarnir, stofnanirnar og svæðissamfélögin eru hvött til að beina athygli sinni að þessum

meginverkefnum til þess að vera fyllilega reiðubúin fyrir fimm ára verkefnið sem á að hefjast á

Ridvánhátíðinni árið 2001 - verkefni sem mun færa bahá’í heiminn á næsta stig í þróuninni áleiðis

til hópinngöngu.

En auk þess sem athyglin beinist að þessum verkefnum, þarf að mæta knýjandi ögrun: Börn okkar

þarf að næra andlega og þau þurfa að taka þátt í lífi málstaðarins. Þau má ekki láta reka á reiðanum

í veröld sem er svo full af siðferðilegum háska. Við núverandi aðstæður þjóðfélagsins horfast

börnin í augu við grimmileg örlög. Margar milljónir í mörgum löndum hafa misst félagslegar rætur

sínar. Börnin skynja firringu foreldra sinna og annarra fullorðinna hvort sem þau lifa í fátækt eða

velmegun. Þessi firring á sér upptök í eigingirni sem stafar af efnishyggjunni sem er við rætur þess

guðleysis sem grípur hjörtu fólks allstaðar. Félagsleg röskun á högum barna á okkar tíma er öruggt

merki um hnignandi þjóðfélag. Þetta ástand er samt sem áður ekki bundið við neinn sérstakan

kynstofn, stétt, þjóð eða efnahagslegar aðstæður - hún nær þvert yfir öll slík mörk. Það hryggir

hjörtu okkar að sjá að í svo mörgum heimshlutum eru börnin notuð í hernaði, misnotuð í

erfiðisvinnu, seld í ánauð, neydd til vændis, gerð að fórnarlömbum kláms, yfirgefin af foreldrum

sem eru uppteknir af sínum eigin ástríðum og misnotuð á svo marga vegu að of langt yrði upp að

telja. Mörg slík hryllingsverk vinna foreldrarnir sjálfir á sínum eigin börnum. Það er óhugsandi að

vega eða meta andlega og sálfræðilega tjónið sem af þessu hlýst. Heimssamfélagið okkar getur ekki

sloppið undan afleiðingunum af þessum aðstæðum. Þessi skilningur ætti að hvetja okkur öll til

brýnnar og stöðugrar viðleitni til hagsbóta fyrir börnin og framtíðina.

Jafnvel þótt barnastarf hafi verið hluti fyrri áætlana, hefur það ekki fullnægt þörfinni. Andleg

uppfræðsla barna og unglinga er gríðarlega mikilvæg fyrir frekari framfarir samfélagsins.

Þessvegna er höfuðnauðsyn að bætt sé úr þessari vöntun. Þjálfunarstofnanir verða að tryggja að

áætlanir þeirra geri ráð fyrir þjálfun barnakennara sem geta boðið svæðissamfélögunum þjónustu

sína. En þótt það sé höfuðatriði að útvega börnunum andlega og akademíska uppfræðslu, þá er þetta

aðeins hluti þess sem verður að gera til að þjálfa lunderni og móta persónuleika þeirra. Það er

einnig nauðsynlegt fyrir einstaklinga og stofnanir á öllum stigum, það er að segja samfélagið í

heild, að tileinka sér rétt viðhorf til barnanna og sýna almennan áhuga á velferð þeirra. Slíkt viðhorf

ætti að vera fjarri öllu sem viðgengst í ört hnignandi skipulagi.

Börnin eru dýrmætasti fjársjóðurinn sem samfélagið getur átt því þau eru fyrirheit og trygging

framtíðar. Þau bera með sér fræ framtíðar þjóðfélags sem mótast að miklu leyti af því sem hinir

fullorðnu í samfélaginu gera eða láta undir höfuð leggjast að gera varðandi börnin. Þau eru vörslufé

sem ekkert samfélag getur vanrækt sér að meinalausu. Alltumlykjandi ást á börnunum, hvernig

komið er fram við þau, sú athygli sem þeim er sýnd, andinn í hegðun hinna fullorðnu gagnvart

þeim - allt eru þetta lífsnauðsynlegir þættir í réttu viðhorfi til barna. Ást krefst aga, hugrekkis til að

venja börnin við erfiðleika, þess að ekki sé látið eftir duttlungum þeirra né að þau fái að leika

algjörlega lausum hala. Viðhalda þarf andrúmslofti þar sem börnunum finnst að þau tilheyri

samfélaginu og eigi aðild að áformum þess. Þeim verður að leiðbeina með ástúðlegum en þó

ákveðnum hætti til að lifa samkvæmt bahá’í viðmiðum, að læra um málstaðinn og kenna hann með

þeim hætti sem hentar kringumstæðum þeirra.

Meðal hinna ungu í samfélaginu er táningar, sem eru t.a.m. á aldrinum 12-15 ára. Þeir eru sérstakur

hópur sem hefur sérstakar þarfir þar sem þeir eru að nokkru leyti milli barnæsku og unglingsára þar

sem margskyns breytingar eiga sér stað innra með þeim. Með hugvitsömum hætti verður að gefa

gaum að því verkefni að fá þau til að taka þátt í skipulögðum verkefnum sem geta vakið áhuga

þeirra, mótað hæfni þeirra til kennslu og þjónustu og dregið þau inn í félagsleg samskipti við eldri

ungmenni. Beiting listrænnar tjáningar í ýmsum myndum getur verið mjög dýrmæt í slíkri

starfsemi.

Og nú viljum við beina nokkrum orðum til foreldra sem bera höfuðábyrgð á uppeldi barna sinna.

Við heitum á þau að veita andlegri uppfræðslu barna sinna stöðuga athygli. Sumir foreldrar virðast

halda að þetta sé á ábyrgð samfélagsins. Aðrir halda að til þess að varðveita sjálfstæði barnanna til

að rannsaka sannleikann eigi ekki að kenna þeim trúna. Ekkert af þessu er rétt. Meistarinn ástkæri

hefur sagt: „Feðrum og mæðrum er gert að skyldu að reyna af öllum mætti að þjálfa dætur sínar og

syni“, og hann bætir því við að „skyldu þau vanrækja þetta málefni verða þau gerð ábyrg og eru

verðug ávítana í návist hins stranga Drottins“. Foreldrar, án tillits til hvaða menntun þau hafa, eru í

lykilaðstöðu til að móta andlegan þroska barna sinna. Þeir ættu aldrei nokkrusinni að vanmeta

hæfni sína til að móta siðferðisskaphöfn barna sinna, því þau hafa óhjákvæmileg áhrif með

heimilisumhverfinu sem þau skapa meðvitað með ást sinni á Guði, viðleitni sinni til að fylgja

lögum hans, viðhorfi sínu til þjónustu við málstað hans, skorti sínum á ofstæki og frelsi sínu frá

tærandi áhrifum baktals. Sérhvert foreldri sem trúir á hina Blessuðu fegurð hefur ábyrgð að hegða

sér þannig að þau hljóti þá sjálfviljugu hlýðni barnanna við foreldrana sem kenningarnar meta svo

mikils. Til viðbótar við viðleitnina sem sýnd er heima fyrir ættu foreldrarnir að styðja við bahá’í

barnakennslu sem samfélagið stendur fyrir. Það verður einnig að hafa í huga, að börnin lifa í heimi

sem upplýsir þau um hrjúfan raunveruleikann með beinni snertingu við hryllinginn, sem lýst var

hér á undan, eða með óumflýjanlegum og stöðugum áhrifum fjölmiðla. Mörg þeirra verða því

neydd til að þroskast fyrir tímann og meðal þeirra eru þau sem leita eftir gildum og aga til að haga

lífi sínu eftir. Andspænis þessu dapurlega sviði úrkynjaðs þjóðfélags, ættu bahá’í börn að skína sem

tákn um betri framtíð.

Væntingar okkar lifna við þá tilhugsun að álfuráðgjafarnir munu koma saman í landinu helga í

janúar 2001 og verða viðstaddir þann hátíðlega viðburð er Alþjóðlega kennslumiðstöðin flytur í

varanlega aðstöðu á Hæð Guðs. Aðstoðarráðgjafar hvaðanæva að úr heiminum munu taka þátt í

atburðinum með þeim sem án efa verður einn af sögulegum viðburðum mótunaraldarinnar.

Samkoma slíks hóps bahá’í embættismanna hlýtur eðli málsins samkvæmt að verða til gífurlegs

gagns fyrir samfélag sem þá verður nærri komið að lokum einnar áætlunar og að upphafi annarar.

Er við íhugum það sem þetta felur í sér snúum við hjörtum okkar í þakklæti til hinna ástkæru handa

málstaðarins ‘Alí-Akbar Furútan og ‘Alí Muhammad Varqá, sem með búsetu sinni í Landinu helga

halda á lofti kyndli þjónustunnar sem Vörðurinn ástkæri kveikti í hjörtum þeirra.

Með þessari tólf mánaða áætlun göngum við yfir brú sem aldrei verður farið yfir aftur. Við hrindum

þessari áætlun úr vör í jarðneskri fjarvist Amatu’l-Bahá Rúhíyyih Khánum. Hún var með okkur

nánast til loka tuttugustu aldarinnar sem ljósgeisli þess ljóss sem hafði skinið á því óviðjafnanlega

tímaskeiði í sögu mannkynsins. Í töflu hinnar guðlegu áætlunar harmaði meistarinn að hann gæti

ekki ferðast um allan heim til að hefja upp hið himneska kall og í ákefð vonbrigða sinna skrifaði

hann þessa von: „Guð gefi að ykkur takist það!“ Amatu’l-Bahá svaraði með takmarkalausri orku og

ferðaðist til fjarlægra staða á jörðinni í þeim 185 löndum sem nutu þeirra forréttinda að fá

óeftirlíkjanlegar gjafir hennar. Fordæmi hennar, sem mun ávallt halda ljóma sínum, upplýsir hjörtu

þúsunda um allan heim. Þegar allt annað látbragð nægir ekki, gætum við ekki tileinkað auðmjúkri

viðleitni okkar, meðan á þessari áætlun stendur, minningu þeirrar sem leit á kennsluna sem

frumtilgang og fullkominn lífsfögnuð?

 

Windows / Mac