Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2001

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Með gleði í hjarta og miklum væntingum horfum við upp á breytta tíma í upphafi

þessarar Ridván hátíðar þegar nýtt hugarástand er augljóslega ríkjandi á meðal okkar allra.

Hvarvetna í heimssamfélagi okkar hefur meðvitund um gildi þróunarferlis, nauðsyn

áætlanagerðar og kosti kerfisbundinna aðgerða við að hlúa að vexti og við að þróa þann

mannauð sem getur stuðlað að viðvarandi útbreiðslu og öruggri treystingu aukist. Samræmdur

skilningur á þessum forsendum framfara verður ekki ofmetinn né getur mikilvægi þess að

varðveita þær fyrir tilstilli vel skipulagðrar þjálfunar verið ofætlað. Það er því

merkisviðburður fyrir okkur þegar samfélag okkar nær slíku vitundarstigi. Við erum innilega

þakklátir Hinni blessuðu fegurð fyrir að gera okkur kleift að bera kennsl á það og fagna því

við sjálft upphaf hins hnattræna átaks sem hleypt verður af stokkunum á þessum

hátíðardögum sem nú fara í hönd.

Sá viljastyrkur sem þessi vitund leiddi af sér einkenndi ráðstefnu álfuráðgjafanna og

meðlima aðstoðarráða þeirra sem komu saman í janúar síðastliðnum í Landinu helga. Svo

ljómandi reynsla hlaust af þessum atburði að hún markaði upphaf nýs tímaskeiðs í trúnni, hins

fimmta innan mótunaraldar hennar. Það varð ljóst að sá ferski lífskraftur sem birtist í þessari

sögulegu samkomu bar vitni um vaxandi gæði starfseminnar í öllu samfélaginu. Viðleitnin á

liðnu ári við að standast frumskilyrðin fyrir framþróun í hópinngönguferlinu staðfesti þessa

skoðun. Brautin var þannig rudd fyrir Fimm ára áætlunina, fyrsta ögrandi verkefnið sem tekist

er á við á Fimmta tímaskeiðinu.

Tólf mánaða áætlunin náði tilgangi sínum og jók við meginátak undanfarandi

Fjögurra ára áætlunar, en sú áætlun hafði fætt af sér meira en 300 þjálfunarstofnanir.

Mikilvægi hennar kom fram í eftirtektarverðum viðbrögðum af hálfu stofnana og einstaklinga

við ákalli eftir að meiri gaumur yrði gefinn að andlegu uppeldi barna og þátttöku yngri

ungmenna í bahá’í samfélagslífi. Þjálfun kennara til barnakennslu og að fela yngri

ungmennum þátttöku í þjálfunarferlinu hefur orðið að reglulegum hluta bahá’í starfsemi í

ýmsum löndum. Þrátt fyrir hve stutt hún stóð yfir gegndi Tólf mánaða áætlunin mikilvægu

hlutverki umfram þau markmið sem henni voru sérstaklega sett. Áætlunin var virk tenging á

milli afar viðburðaríks tímaskeiðs í bahá’í sögu og hinna gríðarlega heillavænlegu möguleika

hins nýja skeiðs sem hún hefur búið samfélagið svo vel undir með afrekum sínum. Hún hefur

sömuleiðis verið greypt í annála okkar vegna hinna varanlegu áhrifa sem starfsemi trúarinnar

hefur haft við lok tuttugustu aldarinnar – aldar sem verðskuldar að vera skoðuð af sérhverjum

bahá’ía sem langar að skilja hina róstusömu krafta sem höfðu áhrif á líf plánetunnar og

þróunarferla Málstaðarins sjálfs á örlagaríkum tíma í félagslegri- og andlegri þróun

mannkynsins. Sem aðstoð við svo verðuga viðleitni var Century of Light [Öldin bjarta], yfirlit

um tuttugustu öldina, gefið út að okkar beiðni og undir okkar umsjón.

Í þessu eins árs verkefni hefur starfsemi tengd ytri samskiptum trúarinnar orðið mjög

sýnileg við mörg tækifæri. Íhugið til dæmis áberandi þátttöku fulltrúa bahá’ía í

þúsaldaviðburðunum sem áttu sér stað í maí, ágúst og september að tilmælum aðalritara

Sameinuðu þjóðanna. Þýðing svo náinnar og eftirtektarverðrar aðildar Alþjóðlega bahá’í

samfélagsins að þróunarferlum hins Minni friðar mun krefjast þess að nokkur tími líði áður en

hægt verður að skilja hana til fulls. Meðal annars sem bar hæst var álfuráðstefna á Indlandi

sem skipulögð var af Fræðistofnun um hnattræna farsæld, nýrri stofnun sem starfar undir

verndarvæng Alþjóðlega bahá’í samfélagsins. Á ráðstefnunni, sem hafði að umræðuefni

„vísindi, trúarbrögð og þróun“, voru þátttakendur frá leiðandi ópólitískum samtökum á

Indlandi og einnig víðkunnum stofnunum á borð við UNESCO, UNICEF, WHO og

Alþjóðabankann. Í október var svo Bahá’í heimsfréttaþjónustunni (BWNS) [Bahá’í World

News Service] ýtt úr vör á alnetinu með það að augnamiði að ná til bæði bahá’ía og annarra

með fréttafrásögnum um þróun mála um gervallann bahá’í heiminn.

Hin kröftuga starfsemi sem fór fram við Bahá’í heimsmiðstöðina á síðastliðnu ári var

að mestu leyti kynnt vinunum í fyrri tilkynningum. Þar var getið þrekvirkja á borð við

flutning Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar til varanlegs aðseturs síns á Karmelfjalli;

ráðstefnu álfuráðgjafa og meðlima aðstoðarráða þeirra sem haldin var í Landinu helga í janúar

síðastliðnum; og lok byggingarframkvæmdanna á Karmelfjalli sem nú er verið að leggja

síðustu hönd á í undirbúningi fyrir hátíðarhöldin í maí. Í október síðastliðinum var tekið í

fyrsta skipti á móti pílagrímum og gestum í nýju móttökumiðstöðinni í Haifa, en hún er nú

orðin að fullu starfhæf. Í Bahjí hefur fegrun helgistaðarins haldið stöðugt áfram með þróun

garðanna. Nýtt verkefni hefur nú eflt þá viðleitni, en á síðasta ári var hafist handa við að

byggja gestamiðstöð við norðurenda landareignarinnar handan við Collins hliðið. Áætlað er

að verkinu ljúki á næstu mánuðum. Byggingin er komin á sinn stað og er vinna við alla hluta

hennar í fullum gangi, þar með talið við innréttingu og fegrun umhverfis. Hin nýju húsakynni

munu gera Heimsmiðstöðinni auðveldara um vik að taka á móti auknum fjölda pílagríma,

bahá’í skammtímagesta og sérgesta.

Sem lokaorð þessa ársyfirlits er það okkur mikið fagnaðarefni að segja ykkur frá því

að Andlegt þjóðarráð bahá’ía í Indónesíu hefur verið endurstofnað á Landsþinginu í Jakarta á

síðustu Ridvánhátíð eftir að hafa verið óstarfhæft í næstum þrjá áratugi. Bann sem var sett á

bahá’í starfsemi í ágúst 1962 hefur reist verulegar skorður við starfsemi bahá’íanna í

Indónesíu allan þennan tíma en þeir hafa auðsýnt staðfestu og visku í langvarandi þrengingum

sínum uns aðstæður í því landi breyttust sem leiddi til þess að banninu var aflétt. Mættum við

þá ekki þora að vona að ámóta gleðifregn varðandi þjakaða trúbræður okkar í Íran,

Egyptalandi og öðrum löndum sé ekki of langt undan?

Kæru vinir: Nú, að tveimur áratugum liðnum, mun bahá’í heimurinn halda upp á

hundrað ára ártíð upphafs Mótunaraldarinnar. Við lítum til baka til dögunar þessa tímabils frá

sjónarhóli afreka sem varla var hægt að gera sér í hugarlund að ynnust við upphaf hennar.

Framundan er sjóndeildarhringur sem knýr samfélagið til enn meiri þrekvirkja á þeim stutta

tíma sem eftir er uns sú ártíð gengur í garð. Það er hægt að klífa þessar hæðir og það verðum

við að gera. Fimm ára áætluninni, sem við biðjum vinina um allan heim að beina viðvarandi

og brýnni athygli sinni að, er ætlað að mæta þessari áskorun. Hún er fyrst í röð herferða sem

verða farnar á þessum tuttugu árum. Þessi áætlun er næsta stig að því takmarki að ná fram

umtalsverðum framförum í hópinngönguferlinu. Hún útheimtir að þessu lífsnauðsynlega ferli

sé hraðað og krefst samfelldni í kerfisbundinni viðleitni af hálfu hinna þriggja þátttakenda í

áætluninni: Einstaklinga, stofnana og samfélags.

Ekki er þörf á að gera ítarlega grein fyrir kröfum áætlunarinnar því þær voru settar

fram í skilaboðum okkar til saman kominna álfuráðgjafa í Landinu helga sem var síðan deilt

með öllum andlegum þjóðarráðum. Fljótlega eftir ráðstefnuna hófu álfuráðgjafarnir samráð

við þjóðarráðin um framkvæmd áætlunarinnar innan lögsögu þeirra. Stefna áætlunarinnar er

því vinunum hvarvetna kunn þar sem undirbúningur fyrir vinnu að meginmarkmiði hennar er

hafinn á umdæmis- og svæðisstiginu. Almenn meðvitund er nú ríkjandi um að átak verður

gert til að trúin hefji innreið sína inn á fleiri og fleiri landssvæði innan landa. Svo dæmi sé

tekið verða svæðissamfélög sem eru í mikilli nálægð hvert við annað og þar sem

kringumstæður leyfa látin taka þátt í kröftugum vaxtaráætlunum. Önnur nálgun mun kalla á

kerfisbundna opnun nýrra svæða þangað sem senda verður innanlandsbrautryðjendur í sama

anda helgunar og knúði þá sem dreifðu sér til annarra landa á fyrri tímum yfir meginlönd og

höf til að opna ósnortin svæði. Í stuttu máli sagt mun það þróunarferli sem veitir þessu

guðlega knúna framtaki innblástur verða útvíkkað um leið og tengd atriði verða smám saman

kynnt til sögunnar og samþætt starfsemi þess með kerfisbundnum hætti.

Það sem mun einkenna fimmta tímaskeiðið er auðgun tilbeiðslulífs samfélagsins með

því að reisa þjóðleg tilbeiðsluhús eftir því sem aðstæður í þjóðarsamfélögum leyfa.

Tímasetningar þessara framkvæmda munu verða ákvarðaðar af Allsherjarhúsi réttvísinnar í

samræmi við framgang hópinngönguferlisins í löndunum. Þessi þróun mun koma í ljós eftir

því sem líður á röð þróunarstiga hinnar Guðlegu áætlunar ‘Abdu’l-Bahá. Þegar byggingu

móðurmusteris Vesturlanda hafði verið lokið hóf Vörðurinn að gera áætlun um byggingu

mustera fyrir hverja heimsálfu. Fyrst meðal þeirra voru Mashriqu’l-Adhkárin í Kampala,

Sydney og Frankfurt sem voru byggð í tengslum við markmið tíu ára áætlunarinnar.

Allsherjarhús réttvísinnar hélt áfram á þessari braut með byggingu musteranna í Panamaborg,

Apia og Nýju-Delhi. En þessu meginlandsstigi er enn ólokið: Enn eina byggingu á eftir að

reisa. Það er með djúpu þakklæti og gleði sem við kunngerum á þessari heillastundu þá

ákvörðun að hefjast skuli handa við þetta síðasta verkefni. Í Fimm ára áætluninni mun

bygging móðurmusteris Suður-Ameríku, í Santiago í Chile, hefjast og uppfylla þannig ósk

sem Shoghi Effendi tjáði skýrt.

Á sama tíma er viðeigandi að taka frekari skref við Heimsmiðstöðina við að þróa

áfram starfssvið þeirra stofnana sem nú eiga sér aðsetur í hinum nýju byggingum á boganum.

Þar sem Alþjóðlega kennslumiðstöðin hefur tekið miklum framförum í starfsemi sinni verður

sérstök áhersla lögð á að skipuleggja starfið í Textarannsóknamiðstöðinni. Sérstakur gaumur

verður gefinn að því að auðga þýðingar úr hinum helgu ritum á ensku. Tilgangur

stofnunarinnar er að aðstoða Allsherjarhús réttvísinnar við að leita leiðsagnar hinna helgu rita

og að þýða áreiðanleg rit trúarinnar og semja skýringar við þau. Í Landinu helga mun

ennfremur verða áfram leitast við að gera ráðstafanir til að hægt verði að auka enn frekar

fjölda pílagríma og gesta sem koma til Bahá’í heimsmiðstöðvarinnar

Í Ridvánboðskap okkar fyrir fimm árum kunngerðum við að fram mundi fara

mikilsháttar athöfn við Heimsmiðstöðina í tilefni af lokum byggingarframkvæmdanna á

Karmelfjalli og opnun stallanna við Grafhýsi Bábsins fyrir almenningi. Sú stund er á næsta

leiti og við fögnum í eftirvæntingu okkar við að bjóða velkomna vini frá nánast öllum löndum

til þátttöku í dagskrá sem mun standa yfir í fimm daga, frá 21. - 25. maí. Ennfremur er það

okkur gleðiefni að geta þess að verið er að gera ráðstafanir til að tengja bahá’í heiminn við

atburðarásina með beinni útsendingu á veraldarvefnum og í gegnum gervihnött og eru

upplýsingar þar að lútandi væntanlegar. Á meðan Heimsmiðstöðin helgar sig undirbúningnum

er farið að gæta eftirvæntingar meðal almennings í Haifa og hafa yfirvöld þar í borg tekist á

hendur við útgáfu bókar í tilefni þessa viðburðar er ber titilinn Bahá’í Shrine and Gardens on

Mount Carmel, Haifa, Israel: A Visual Journey [Bahá´í grafhýsi og garðar á Karmelfjalli í

Haifa, Ísrael: Sjónrænt ferðalag]. Ennfremur eru póstyfirvöld í Ísrael að fylgja eftir ákvörðun

sinni um að gefa um leið út frímerki með mynd af stöllunum af þessu tilefni. Viðburðurinn er

einkum þýðingarmikill vegna þess að hann mun verða tækifæri til þess að staldra við og líta

hversu merkilega langt málstaðurinn hefur náð í þróun sinni á tuttugustu öldinni. Þetta verður

einnig tími til að íhuga vísbendingarnar til framtíðarinnar sem felast í þýðingu hinna einstæðu

afreka sem bygging hinna mikilvægu mannvirkja á hinu helga fjalli Guðs eru tákn um –

bygging sem opnar hinar andlegu og stjórnarfarslegu miðstöðvar trúar okkar fyrir sjónum

heimsins.

Um leið og samfélag okkar fyllist fögnuði yfir þessari spennandi tilhugsun, skyldi

sérhver einstaklingur hafa hugfast að enginn tími er til að láta sér nægja unnin afrek.

Núverandi hörmungarástand mannkynsins er of vonlaust til að leyfa sér að hika jafnvel eitt

einasta augnablik við að útdeila Brauði lífsins sem hefur komið af himnum ofan á okkar

tímum. Lát því ekki verða neina töf á því að flýta þróunarferlinu sem gefur öll fyrirheit um

árangur við að vísa sálum allra þeirra sem hungrar eftir sannleikanum til gnægtaborðs

Drottins herskaranna.

Megi hann, sem stendur vörð um örlög síns guðlega kerfis, leiðbeina og vísa ykkur

veginn og staðfesta sérhverja viðleitni sem þið auðsýnið við að takast á við hin aðkallandi

verkefni sem framundan eru.

 

Windows / Mac