Return   Facebook

The Universal House of Justice

Ridván 2017

To the Bahá’ís of the World

Dearly loved Friends,

Sjáið hve samfélag Hins mesta nafns vex og dafnar! Þótt aðeins sé eitt ár liðið frá upphafi hinnar nýju áætlunar bera skýrslur vitni um umfang þess sem reynt hefur verið og byrjað er að bera árangur. Það krefst áður óreyndra krafta að stuðla að örari framgangi fimm þúsund vaxtaráætlana. Mikill fjöldi vina, sem hafa djúpan skilning á grunngildum áætlunarinnar, hafa svarað kallinu varðandi þarfir hennar og sýnt harðfylgi og fórnfýsi með gæðum verka sinna. Líkt og séð var fyrir eru nokkrar öflugar vaxtaráætlanir, sem lengi hafa verið í gangi, að verða forðabúr þekkingar og mannafla sem styðja svæðin umhverfis sig og greiða fyrir hraðri útbreiðslu reynslu og innsæis. Miðstöðvar þar sem öflugt starf fer fram – borgarhverfi og byggðarlög þar sem vinna við samfélagsuppbyggingu er einbeittust - hafa reynst frjór jarðvegur fyrir sameiginlega umbreytingu. Aukinn og endurnærður fjöldi aðstoðarráðgjafa og aðstoðarmanna þeirra er að örva viðleitni átrúendanna og hjálpa þeim að öðlast sýn á hvernig megi styrkja vaxtarferlið við mismunandi aðstæður og læra að þekkja þær aðferðir sem hæfa aðstæðum í hverju umdæmi. Með stuðningi viðkomandi andlegra þjóðarráða eru bahá’í landshlutaráð að læra hvernig stuðla má að framgangi áætluninnar í nokkrum umdæmum samtímis, en í minni löndum þar sem slík ráð eru ekki starfandi, eru nýir aðilar á landsvísu byrjaðir að gera hið sama. Heildarfjöldi öflugra vaxtaráætlana í heiminum er þegar farinn að aukast, en eins og vænta má með allt lífrænt ferli á sá hraði framgangur sem við verðum vitni að á sumum stöðum eftir að koma í ljós annars staðar. Ennfremur fögnum við því að sjá að þátttaka í verkefnum áætlunarinnar hefur stóraukist í fyrstu fjórum lotunum.

Vísbendingarnar um hvað komandi ár beri í skauti sér gætu tæpast verið vænlegri. Og hvað gæti verið betur við hæfi að færa Hinni blessuðu fegurð á tvö hundruð ára afmælishátíð Hans en að ástvinir Hans leggi sig fram af fyllstu alvöru við að útbreiða trú Hans? Horfurnar fyrir hina fyrri af tveggja alda minningarhátíðum sem bahá’í heimurinn heldur upp á eru því einstaklega spennandi. Þetta ár býður með réttu upp á stærsta einstaka tækifærið sem nokkurn tíma hefur gefist um allan heim til að tengja hjörtu við Bahá’u’lláh. Þetta dýrmæta tækifæri ættu allir að hafa hugfast næstu mánuði og vera sívakandi fyrir möguleikunum sem hvarvetna eru til staðar, til að kynna örðum líf Hans og háleita köllun. Til þess að grípa kennslutækifærið sem bahá’í heimurinn stendur nú frammi fyrir og nýta það til fullnustu, þarf að beita skapandi hugsun við samræður sem kunna að þróast við fólk af öllu tagi. Í slíkum innihaldsríkum samræðum eykst skilningur og hjörtu opnast – stundum á augabragði. Í þessu verðuga viðfangsefni finna allir köllun og enginn ætti að svifta sig gleðinni sem fylgir því að taka þátt í þessari vinnu. Við biðjum Hinn elskaða þess innilega, að allt árið sem helgað er tveggja alda minningunni, verði þrungið þeirri hreinustu og sætustu gleði, sem felst í að segja annarri sál frá því að dagur Guðs sé runninn upp.

Skyldurnar sem samfélag hinna trúföstu verður að takast á hendur verða enn brýnni með hliðsjón af glundroðanum, vantraustinu og dimmviðrinu í heiminum. Vinirnir ættu sannarlega að nota sérhvert tækifæri til að bregða á loft ljósi sem getur lýst upp veginn, veitt fullvissu hinum kvíðafullu og von þeim sem örvænta. Við erum minnt á ráð sem Verndarinn veitti einu bahá’í samfélagi og virðist ætlað okkar eigin tímum: „Þegar innviðir nútíma þjóðfélags nötra og bresta undan álagi ógnvænlegra atburða og hörmunga, þegar sundurlyndi og ágreiningsmál magnast sem aðskilja þjóðir, stéttir, kynþætti og trúarbrögð, verða þeir sem koma að framkvæmd áætlunarinnar að sýna enn meiri samheldni í andlegu lífi sínu og stjórnunarstörfum og færa sönnur á hærri viðmið með samstilltu átaki, gagnkvæmri aðstoð og samhljóma þróun sameiginlegra verkefna sinna.“ Shoghi Effendi lagði ávallt áherslu á andlega þýðingu starfsins sem er unnið í þágu trúarinnar og þann afdráttarlausa einhug sem átrúendurnir verða að sýna þegar þeir sinna heilagri skyldu sinni. Hann varaði einnig við hverskonar þátttöku í pólitískum deilumálum, flækjum og argaþrasi. „Þeir skyldu hefja sig yfir alla flokkadrætti og sérhagsmuni,“ var hvatning hans við annað tækifæri, „yfir hégómlegar deilur, lítilmótlegt ráðabrugg og hverfular ástríður, sem ýfa ásýnd og draga að sér athygli veraldar á breytingaskeiði.“ Þetta er froðan sem óhjákvæmilega skolast á land þegar hver aldan á fætur annarri ríður yfir friðlaust og sundrað þjóðfélag. Of mikið er í húfi til að uppnám af þessu tagi megi taka huga okkar allan. Eins og allir fylgjendur Bahá’u’lláh vita vel er endanleg velferð mannkyns undir því komin að það sigrist á ágreiningsefnum sínum og traustur grunnur verði lagður að einingu þess. Allt sem bahá’íar leggja af mörkum til þjóðfélaga sinna miðar að því að efla einingu; öll viðleitni í þágu samfélagsuppbyggingar beinist að þessu sama marki. Fyrir þá sem eru þreyttir á deilum eru samfélögin sem vaxa í skugga Hins mesta nafns áhrifaríkt dæmi um hverju eining getur komið til leiðar.

Við færum Drottni Drottna lof þegar við sjáum svo marga ástvini Hans gera með svo margvíslegum hætti allt sem í þeirra valdi stendur til að hefja megi á loft fána einingar mannkyns. Ástkæru vinir: Nú þegar afar hagfellt ár fer í hönd gætum við ekki hvert og eitt leitt hugann að því hvaða himneskar dáðir miskunn Hans gæti hjálpað okkur til að vinna?

 

Windows / Mac