The Universal House of Justice
Ridván 2018
To the Bahá’ís of the World
Dearly loved Friends,
1) Við heilsum ykkur í varanlegu endurskini þeirra minnisstæðu atburða sem gerðust á 200 ára afmæli Hinnar blessuðu fegurðar. Þegar við leiðum hugann að því sem gerðist bæði þá og síðar sjáum við breytinguna sem orðið hefur á baháʼí heimssamfélaginu frá því það hratt af stokkum fyrstu sex vaxtarbylgjunum í yfirstandandi áætlun. Það er meðvitaðra en nokkru sinni fyrr um ætlunarverk sitt. Það hefur upplifað fordæmalausar framfarir hvað varðar hæfni til að koma vinum og kunningjum í tengsl við samfélagslífið, hvetja nánasta umhverfi sitt og byggðarlög til sameinaðs átaks, sýna fram á hvernig umbreyta má andlegum sannindum í raunhæfar og varanlegar aðgerðir – og umfram allt að eiga samtal, ekki aðeins um kenningarnar sem munu byggja heiminn upp að nýju heldur einnig um Hann sem setti þær fram: Bahá’u’lláh. Frásagnir um líf Hans og þjáningar sem fullorðnir, ungmenni og börn segja á öllum tungumálum hafa snortið óteljandi hjörtu. Sumir reyndust strax reiðubúnir til að kanna málstað Hans betur. Aðrir gáfu fyrirheit um samvinnu. Og margar næmar og móttækilegar sálir fundu sig knúnar til þess að játast trúnni.
2) Áhrifarík vísbending um framfarir var fjöldi þeirra staða þar sem í ljós kom að lítt þekkt trú var orðin sýnileg á landsvísu. Forystufólk í stjórnmálum og hugsun sagði opinberlega – og lagði stundum áherslu á það í einkaviðræðum – að heimurinn þurfi á sýn Bahá’u’lláh að halda og að starfsemi bahá’ía njóti aðdáunar og þyrfti að aukast. Það gladdi okkur að sjá að það voru ekki einungis bahá’íar sem vildu heiðra Bahá’u’lláh og fagna lífi Hans – nokkrir utan baháʼí samfélagsins efndu til sérstakra samkoma af þessu tilefni. Á svæðum þar sem fjandskapur ríkir í garð trúarinnar voru vinirnir ósmeykir, þeir sýndu frábæra seiglu og hvöttu samlanda sína til að leita sannleikans sjálfir og margir tóku fagnandi þátt í hátíðahöldunum. Tveggja alda afmælið varð einnig uppspretta listrænnar tjáningar sem blómgaðist nánast takmarkalaust og er mikilfenglegur vitnisburður um þá lind ástarinnar sem hún spratt úr. Það hvernig bahá’í samfélagið nálgaðist í hvívetna þennan viðburð staðfesti hve mikið það hefur lært á rúmum tveimur áratugum, eða allt frá því að yfirstandandi röð heimsvíðra áætlana hófst. Hinn einstaki átrúandi tók frumkvæðið, samfélagið reis upp til sameiginlegs átaks og vinirnir fundu skapandi orku sinni farveg í áætlunum sem stofnanirnar höfðu undirbúið. Þýðingarmikil afmælishátíð sem markaði tveggja alda tímaskeið varð öflugur hvati þess starfs sem vinna þarf að samfélagsuppbyggingu á komandi öld. Megi sérhvert fræ sem sáð var af slíkri ást og alúð njóta þolinmóðrar aðhlynningar uns það ber ávöxt á tímanum sem eftir er til næstu tveggja alda afmælishátíðar.
3) Nú þegar tvö ár eru liðin af yfirstandandi áætlun, og þótt sömu framfarir hafi af eðlilegum ástæðum ekki orðið í öllum löndum, er fjöldi öflugra vaxtaráætlana í heiminum að nálgast helming þeirra fimm þúsunda sem áformaðar voru í núverandi hnattvíðum aðgerðum. Þessi tala hækkar óðum. Nánari athugun sýnir að heillavænleg teikn eru á lofti um hvernig kraftur og hæfni einstaklinga, samfélaga og stofnana eru að koma í ljós. Reynslan af tveggja alda hátíðahöldunum sýndi átrúendum um allan heim að glæða má anda kennslunnar í daglegum samskiptum þeirra við fólkið í kringum þá. Og þegar starfinu í þúsundum byggða og borgarhverfa vex ásmegin skýtur þróttmikið samfélagsstarf þar hvarvetna rótum. Verulega hefur fjölgað þeim umdæmum þar sem aðferðir við að færa starfsmynstrið út til æ fleiri staða hafa náð góðri fótfestu sem gerir vinunum kleift að ná þriðja áfanganum á þróunarbrautinni. Og það er hér við vaxtarjaðar lærdóms í bahá’í heiminum, sérstaklega í sókn íbúanna áleiðis að opinberun Bahá’u’lláh, sem stórir skarar eru ekki aðeins að ganga inn í víkkandi faðm bahá’í starfsins heldur eru vinirnir núna að læra með hvaða hætti allstórir hópar geta byrjað að samkenna sig samfélagi Hins mesta nafns. Við erum farin að sjá menntaviðleitni trúarinnar taka á sig formlegri mynd á slíkum stöðum þegar börnin fara frá ári til árs með samfelldum hætti í gegnum kennslustigin og andleg efling unglinga fer einnig með öruggum hætti af einu þrepi yfir á annað. Á þessum stöðum er þjálfunarstofnunin að læra að tryggja að nægilegur mannafli sé fyrir hendi til að annast andlega og siðferðilega uppbyggingu sívaxandi fjölda barna og unglinga. Þátttakan í þessu grundvallarstarfi er að verða svo samgróin menningu íbúanna að litið er á hana sem ómissandi hluta samfélagslífsins. Fólkið sem tekur stjórnina á eigin þroska fær nýjan lífskraft og byggir upp ónæmi gegn þjóðfélagsöflum sem ala á sinnuleysi. Möguleikar á efnislegum og andlegum framförum koma í ljós. Þjóðfélagslegur veruleiki fer að breytast.
4) Elskuðu vinir, á þessar stundu er sannarlega við hæfi að þakka Ástvininum. Fjölmargt gefur tilefni til bjartsýni. Þó er okkur deginum ljósara umfang þess verkefnis sem framundan er. Það er grundvallaratriði, eins og við höfum áður bent á, að fram komi vaxandi hópur átrúenda í mörg hundruð umdæmum sem geta, ásamt öðrum, viðhaldið stöðugri og einbeittri sýn á nauðsyn þess að hlú að vexti og byggja upp hæfni, og sem sjálfir þekkjast af hæfni sinni og aga til að hugleiða aðgerðir og læra af reynslunni. Að reisa upp og fylgja eftir stækkandi kjarna einstaklinga á hverjum stað – ekki aðeins í umdæmum heldur einnig í byggðum og borgarhverfum – er í senn afar mikil áskorun og knýjandi nauðsyn. En þar sem þetta gerist er árangurinn auðsær.
5) Það vekur okkur traust að sjá að stofnanir trúarinnar hafa þessa frumþörf fyrst og fremst í huga, og hugsa upp áhrifamiklar leiðir sem gera það mögulegt að nýta hvar sem hægt er þann skilning sem fæst af framþróuninni. Á sama tíma gefur aukin reynsla stofnunum á öllum stigum víðari sýn. Þær verða virkar í öllum þáttum þróunar samfélagsins og láta sig skipta velferð fólks utan formlegra raða bahá’í samfélagsins. Þær hafa í fullri vitund um djúpstæð áhrif þjálfunarferlisins fyrir framþróun þjóðanna, lagt sig sérstaklega eftir því hvernig styrkja megi þjálfunarstofnanirnar. Þær gera sér grein fyrir að samfélagið þurfi að einbeita sér að kröfum áætlunarinnar og kalla sístækkandi hóp vina til stighækkandi einingar. Þær standa af trúmennsku undir skyldum sínum að fága stjórnunar- og fjármálakerfi sín svo að vinnan við útbreiðslu og styrkingu fái þann stuðning sem hún þarf á að halda. Allt þetta mun að lokum verða til þess að þær rækta í samfélaginu aðstæður sem leiða til þess að öflugir andlegir kraftar losna úr læðingi.
6) Eftir því sem samfélagsuppbygging eflist munu vinirnir nota þá nýju hæfni sem þeir hafa þróað til að bæta aðstæður í samfélaginu í kringum sig og lærdómur hinna guðlegu kenninga glæðir eldmóð þeirra. Skammtíma verkefnum hefur stórlega fjölgað, formleg verkefni hafa aukist að umfangi, og nú eru mörg þróunarfélög, sem sækja innblástur í bahá’í kenningar, sem starfa við menntun, heilsugæslu, landbúnað og á öðrum sviðum. Hægt er að greina ómótmælanleg áhrif af afli samfélagsbyggingar málstaðar Bahá’u’lláh í þeirri umbreytingu sem sýnilega hefur átt sér stað í lífi einstaklinga og samfélaga. Því er ekki að undra að í krafti slíkra dæma um félagslegt starf, hvort sem það er einfalt eða flókið, unnið til ákveðins tíma eða er langvarandi, hafa skrifstofur Bahá’í alþjóðasamfélagsins í auknum mæli fundið dæmi um viðleitni þeirra til þátttöku í ríkjandi samfélagsumræðu. Þetta er enn eitt þeirra mikilvægu sviða fyrir trúna sem mjög hefur vaxið ásmegin. Á landsvettvangi hefur framlag til umræðna, sem eru mikilvægar því samfélagi, verið lagt fram með vaxandi sjálfstrausti, færni og innsæi. Þar má nefna jafnrétti karla og kvenna, fólksflutninga og aðlögun, þátt ungdómsins í félagslegum umbreytingum og samneyti ólíkra trúarbragða. Og hvar sem þeir búa, vinna eða nema hafa átrúendur á öllum aldri og uppruna lagt mikilsmetinn skerf af mörkum til ákveðinna umræðna, og vakið með því athygli þeirra sem þeir umgangast á grunngildum sem víðfeðm opinberun Bahá’u’lláh hefur mótað.
7) Orðstír trúarinnar á ýmsum umræðuvettvangi hefur vaxið mjög vegna sýnileika stofnana hennar á veraldarvefnum, sýnileika sem hefur aukist verulega með stofnun fjölmargra bahá’í vefsetra þjóðarsamfélaganna og vegna frekari þróunar setra sem tengjast bahai.org. Þetta er ákaflega dýrmætt bæði fyrir útbreiðslu og vernd málstaðarins. Á örfáum dögum löðuðust hópar fólks um heim allan að vönduðu efni um trúna sem kynnt var á vefsetri tveggja alda minningarhátíðarinnar og uppfært samtímis á níu tungumálum. Við þetta bætast vefsíður einstakra landa og lýsir það vel fjölbreytni þeirra hátíða sem haldnar hafa verið. Áætlanir eru þegar vel á veg komnar við að kynna nýjung á vefsetri Bahá’í Reference Library (baháʼí tilvísanabókasafns) sem gerir mögulegt að leggja með tímanum út á netið áður óþýddar og óútgefnar tilvitnanir eða töflur úr helgiritunum. Auk þessa er gert ráð fyrir að ný verk með ritum Bahá’u’lláh og ‘Abduʼl-Bahá í enskri þýðingu verði gefin út á næstu árum.
8) Í Santíagó í Síle og Battambang í Kambódíu hafa nýjustu tilbeiðsluhúsin sem vígð hafa verið orðið fastar miðstöðvar aðlöðunar, lýsandi tákn í samfélaginu um allt sem trúin stendur fyrir. Og þeim mun bráðlega fjölga. Það er okkur ánægja að tilkynna að vígsluathöfn vegna musterisins í Norte del Cauca í Kólumbíu mun fara fram í júlí. Ennfremur er bygging fleiri tilbeiðsluhúsa rétt handan við hornið. Í Vanúatú hefur fengist leyfi til að byrja að byggja. Á Indlandi og í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó hefur mjög flókið og nákvæmt ferli loks leitt til þess að land hefur verið keypt. Gleðin sem fylgdi því að sjá teikningar af fyrsta Mashriqu’lAdhkár á landsvísu í Papúa Nýju-Gíneu afhjúpaðar á naw-rúz hafði vart rénað þegar teikningar af svæðistilbeiðsluhúsi í Kenýa voru einnig birtar. Við vonumst til að á sama tíma muni nýlega birt yfirlýsing og samantekt um stofnun Mashriqu’l-Adhkár, sem rannsóknardeild okkar hefur tekið saman, hvetja vinina enn frekar til að meta mikilvægi tilbeiðslu í lífi sínu. Því að með þjónustu sinni, sérstaklega með því að taka þátt í reglulegum helgistundum, munu bahá’íar hvarvetna leggja andlegan grunn að tilbeiðsluhúsum framtíðarinnar.
9) Aðeins þrjú ár eru eftir af aldarfjórðungs átaki sem byrjaði 1996 og beinist að einu markmiði: Umtalsverðri framför í hópinngönguferlinu. Á Riḍván 2021 munu fylgjendur Bahá’u’lláh hefja áætlun sem mun standa í eitt ár. Stutt, en fullt fyrirboða, mun þetta eins árs átak hefja nýja bylgju áætlana sem færir örk málstaðarins inn í þriðju öld bahá’í tímatalsins. Á þessum heillavænlega tólf mánaða tíma þegar bahá’í heimurinn minnist þess að öld er liðin frá uppstigningu ‘Abdu’l-Bahá verður sérstök samkoma við Bahá’í heimsmiðstöðina þangað sem fulltrúum allra þjóðarráða og sérhvers landshlutaráðs er boðið. Þetta verður þó aðeins byrjunin í samfelldri röð viðburða sem munu undirbúa átrúendur fyrir kröfur næstu áratuga. Í janúar þar á eftir verða eitt hundrað ár liðin frá því að erfðaskrá Meistarans var lesin opinberlega í fyrsta sinn og verður það tilefni til ráðstefnuhalds í Landinu helga sem færir saman álfuráðgjafana og alla aðstoðarráðgjafa fyrir vernd og útbreiðslu. Sá andlegi kraftur, sem leysist úr læðingi á þessum tveimur sögulegu samkomum, þarf síðan að berast til allra vina Guðs í sérhverju landi sem þeir búa í. Í mánuðunum þar á eftir verður því boðið til fjölda ráðstefna um allan heim, sem verða hvati fyrir margra ára átak sem taka á við af eins árs áætluninni.
10) Þannig er nýtt stig í guðlegri áætlun Meistarans að koma í ljós. En framundan eru spennandi horfur sem eru nær okkur í tíma. Aðeins eitt og hálft ár er í tvö hundruð ára fæðingarhátíð Bábsins. Það er tími þar sem við minnumst einstæðra hetjudáða píslarvotts og fyrirrennara trúar okkar. Stórbrotið ætlunarverk Hans varð dramatískt upphaf nýs tímabils í mannkynssögunni. Þótt samfélagið sem Bábinn birtist í fyrir tveimur öldum sé aðskilið okkur í tíma, svipar því til heimsins í dag hvað varðar þrengingar og áþján og löngun svo margra til að finna svörin sem sálina þyrstir í. Þegar skoðað er hvernig minnast megi tveggja alda afmælisins með viðeigandi hætti, gerum við okkur grein fyrir að þessi hátíðahöld muni hafa sín eigin einkenni. Eigi að síður eigum við von á blómstrandi starfsemi, engu minni og ekki síður víðtækari en þeirri sem fylgdi nýliðinni tveggja alda afmælishátíð. Þetta er tækifæri sem sérhvert samfélag, hvert heimili og sérhvert hjarta munu vafalaust hlakka til með mikilli eftirvæntingu.
11) Mánuðirnir framundan verða einnig tími til að minnast lífs ótrauðra fylgjenda Bábsins – hetja af báðum kynjum sem sýndu trú sína með óviðjafnanlegum fórnum sem munu að eilífu prýða annála trúarinnar. Eiginleikar þeirra, hugrekki, helgun og lausn frá öllu nema Guði, hafa áhrif á hvern þann sem heyrir um dirfsku þeirra. Hversu eftirtektarverður er líka ungur aldur þessara ofurhuga þegar þeir settu varanlegt mark sitt á söguna. Megi fordæmi þeirra verða öllu samfélagi hinna trúföstu uppspretta hugrekkis á komandi tímabili – ekki síst ungmennum sem enn á ný eru kölluð til forystu í hreyfingu sem stefnir á ekkert minna en umbreytingu heimsins.
12) Þetta er okkar bjarta og skærasta von. Látum þessa sömu gagntakandi og einstöku ást sem hvatti lærisveina Bábsins til að dreifa hinu guðlega ljósi, hvetja ykkur til mikilla dáða í bylgjunum sex sem koma á milli Riḍván og næsta tvö hundruð ára afmælis – í raun yfir árin þrjú sem eftir eru af núverandi áætlun. Að þið megið verða viðtakendur himneskrar hjálpar er okkar auðmjúka bæn við hina helgu fótskör.
- The Universal House of Justice