The Universal House of Justice
Ridván 2020
To the Bahá’ís of the World
Dearly loved Friends,
Ástæða þess að við beinum til ykkar þessum orðum er að við blasir tvenns konar veruleiki. Hinn fyrri er vaxandi vitund um heim allan um yfirvofandi og geigvæna hættu kórónaveirufaraldursins. Þrátt fyrir vaska, einbeitta og sameiginlega viðleitni til að afstýra hörmungum er ástandið þegar orðið alvarlegt í mörgum löndum. Það veldur harmleikjum innan fjölskyldna og meðal einstaklinga og steypir heilum þjóðfélögum í kreppu. Holskeflur þjáningar og sorgar ríða yfir hvern staðinn á fætur öðrum og munu draga þrótt úr hinum ýmsu þjóðum á ólíkum tíma og á ólíkan hátt.
Hitt sem er jafn raunverulegt, og verður ljósara með hverjum degi sem líður, er sveigjanleiki og óskertur lífsþróttur bahá’í heimsins andspænis áskorun sem á sér engan líka í minni núlifandi manna. Viðbrögð ykkar hafa verið framúrskarandi. Þegar við skrifuðum ykkur á naw-rúz fyrir einum mánuði vildum við leggja áherslu á þá hrífandi eiginleika sem samfélögin sýndu þar sem eðlilegt athafnamynstur hafði raskast. Allt sem gerst hefur á þeim vikum sem síðan eru liðnar, og leitt hefur til þess að margir vinanna hafa þurft að sæta sífellt strangari takmörkunum, hefur aðeins orðið til að auka aðdáun okkar.
Sum samfélög hafa horft til reynslu frá öðrum heimshlutum og fundið tryggar og skapandi leiðir til að auka vitund um þarfir vegna lýðheilsu íbúanna. Sérstök athygli beinist að þeim sem eru í bráðastri hættu af veirunni og efnahagserfiðleikunum sem stafa af útbreiðslu hennar. Frásagnir Bahá’í heimsfréttaþjónustunnar af frumkvæði í þessu sambandi eru aðeins brot af þeim fjölmörgu verkefnum sem eru í bígerð. Við þau bætist viðleitni til að kanna, efla og rækta þá andlegu eiginleika sem brýnust þörf er fyrir á þessum tíma. Margskonar viðleitni af þessu tagi þarf eðlilega að eiga sér stað innan fjölskyldna eða í einveru, en þar sem aðstæður leyfa eða samskiptatækni gerir það mögulegt er á virkan hátt verið að efla kenndir framúrskarandi samheldni meðal sálna sem búa við svipaðar aðstæður. Öfl samfélagslífs, sem eru svo mikilvæg fyrir sameiginlega framþróun, verða ekki kveðin niður.
Það hefur verið sálum okkar og anda mikil uppörvun að sjá á hve snjallan hátt þjóðarráðin, óþreytandi foringjar í her ljóssins, hafa leitt samfélög sín og mótað viðbrögð þeirra gagnvart kreppunni. Þau hafa notið styrks og stuðnings ráðgjafanna og aðstoðarmanna þeirra sem hafa, eins og ávallt, hafið á loft fána ástríkrar þjónustu af hetjulund. Ráðin hafa verið vel upplýst um ástandið í löndum sínum, sem oft breytist hratt, og gert nauðsynlegar ráðstafanir til að stjórna málefnum málstaðarins, sérstaklega hvað varðar kosningahald þar sem það reynist framkvæmanlegt. Með reglulegum samskiptum hafa stofnanir og nefndir veitt viturlegar ráðleggingar, hughreystingu og stöðuga uppörvun. Í mörgum tilvikum hafa þær einnig byrjað að greina uppbyggileg viðfangsefni sem koma upp í þeim samfélagsumræðum sem eru að hefjast. Vonirnar, sem við létum í ljós í naw-rúz skilaboðum okkar um að þessi þolraun mannkynsins myndi veita því meiri innsýn, eru strax farnar að rætast. Leiðtogar, kunnir hugsuðir og fréttaskýrendur eru byrjaðir að fjalla um grundvallarhugtök og djarfar hugsjónir sem að undanförnu hafa að miklu leyti legið í þagnargildi í almennri umræðu. Sem stendur eru þetta aðeins fyrstu vonarljósin en opna þó á þann möguleika að stund sameiginlegrar vitundar kunni að vera í augsýn.
Það er okkur hughreysting að sjá þanþol bahá’í heimsins birtast í verki en á þá huggun bregður skugga hryggðar yfir afleiðingum þessa faraldurs fyrir mannkynið. Við vitum að því miður eru þessar þjáningar einnig hlutskipti átrúendanna og félaga þeirra. Fjarlægðin frá vinum og ættingjum sem almannaöryggi krefst og svo margir í heiminum upplifa mun verða að varanlegum aðskilnaði fyrir suma. Í hverri dögun virðist öruggt að meiri þjáningar séu í vændum áður en sólin sest. Megi fyrirheit um endurfundi í ríkjum eilífðar verða huggun þeim sem missa ástvini sína. Við biðjum þess að hjartasorg þeirra linni og að miskunn Guðs umlyki þá sem stefnt er í tvísýnu hvað varðar menntun, atvinnu, heimili eða jafnvel lífsviðurværi. Fyrir ykkur, ástvini ykkar og alla samlanda sárbænum við Bahá’u’lláh um blessun Hans og hylli.
Hversu löng og erfið sem leiðin er framundan höfum við fullkomið traust á hugprýði ykkar og óbifanlegri ákvörðun um að ljúka þeirri vegferð. Þið sækið styrk í forðabúr vonar, trúar og veglyndis, takið þarfir annarra fram yfir ykkar eigin, gerið þeim sem líða skort kleift að fá andlega næringu, slökkvið þorsta þeirra sem þyrstir í svör og fáið þeim tækifæri í hendur sem þrá að vinna að betri heimi. Hvernig gætum við vænst einhvers minna af trúföstum fylgjendum Hinnar blessuðu fullkomnunar?
- The Universal House of Justice